Er bleikur fíll í ríkisstjórninni ?
19.10.2013 | 08:29
Það er von að stjórnarandstaðan, sérstaklega sumir þingmenn Samfylkingar, hafi áhyggjur af ferðalagi Sigmundar Davíðs með fjölskyldu sína. Engu er líkara en þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks ætli sér að nota tækifærið og sprengja upp stjórnarsamstarfið. Væntanlega til að komast í ESB ríkisstjórn með Samfylkingu. Það er því ekki undarlegt þó hrollur fari um þingmenn Samfylkingar.
Fjármálaráðherra verður sífellt fjarrænni lausn á skuldavanda heimila og í hvert sinn sem hann kemur í fjölmiðla klifar hann á orðunum "kannski" og "að einhverju leyti", þegar það mál ber á góma. Þó er alveg skýrt í stjórnarsáttmálanum hvað skuli gera, stjórarsáttmálanum sem hann sjálfur samdi með Sigmundi, undir vöfluáti. Það er aftur annað hljóð í Bjarna þegar kemur að útgreiðslu til erlendu vogunnarsjóðanna. Það mál skal leyst fljótt og vel. Reyndar skýlir hann sér þar á bak við afnám gjaldeyrishafta, en það er virkilega spurning hvort honum er ofar í huga, afnám haftanna eða greiðsla til kröfuhafa.
Innanríkisráðherra ver "eignarrétt" banka og lánastofnanna. Eignarétt sem veruleg áhöld eru um hvort eru virkilega til staðar. Hanna Birna var þó ekki í neinum vafa hvoru meginn eignarétturinn var, á landsfundi Sjálfstæðisflokks síðasta vetur. Þar hélt hún tilfinningaþrungna ræðu um gluggapóst sem dettur inn um lúgu almenning við hver mánaðamót. Við lá að hægt hefði verið að sjá tár á hvarmi hennar þegar hún bar vanda þeirra fjölskyldna sem bornar eru á götuna, daglega, fyrir landfundargesti, svo mikið var henni um. Í dag eru bornar um 150 fjölskyldur á götuna í hverri viku og Hanna Birna grætur nú eignarrétt bankanna.
Þingmaðurinn Guðlaugur Þór vill nú færa Landsbankanum Íbúðalánasjóð. Og bankinn er vissulega tilbúinn að taka við þeirri gjöf. Vandi sjóðsins er vissulega mikill, en væri ekki réttara að kryfja af hvaða völdum hann er. Sjóðurinn lánar öll sín lán með verðtryggingu og fjármagnar sig að stæðstum hluta með samskonar lánum. Þegar hrunið skall á lenti fjöldi lántakenda í því að geta ekki lengur staðið við sínar skuldbindingar. Þetta hefur leitt til þess að sjóðurinn hefur þurft að taka til sín þúsundir íbúða. Engin innkoma er af þessum fasteignum lengur, en sjóðurinn þarf samt að borga sínar verðtryggðu skuldbindingar. Það er því verðtryggingin sem er að leggja Íbúðalánasjóð.
Íbúðalánasjóður er félagslegt kerfi, sem tekur við þar sem einkabankar vilja ekki lána, en þeir vilja hellst ekki láta nokkra krónu falla utan stór- Reykjavíkursvæðisins. Þar sem sjóðurinn er talinn félagslegur, verður fólk að átta sig á að ríkið þarf stundum að láta til peninga til sjóðsins. Það segir þó ekki að ekki megi skoða rekstur hans og taka þar eitthvað til. Guðlaugur Þór gerir sér grein fyrir hlutverki sjóðsins og vill halda því áfram, bara undir bankastofnun sem mun innan tíðar verða einkafyrirtæki. Og bankinn er áfjáður í að taka við þessum sjóð, þar sem hann sér þar leik á borði að mergsjúga ríkisjóð.
Sumir þingmanna Sjálfstæðisflokks hafa verið að leggja fram frumvörp með Samfylkingu og Besta flokk. Það má vissulega segja að þarna sé ný stefna í gangi, að öll dýrin í skóginum séu vinir. Þessir þingmenn Sjálfstæðisflokks verða þó að passa að slík frumvörp séu hvorki í andstöðu við samþykktir eiginn flokks eða stjórnarsáttmálans. Standist efni þeirra slíka skoðun, væri nær fyrir þessa þingmenn að vinna að málinu innan stjórnarflokkanna, þeir fara jú með meirihluta á þingi. Hver ástæða þess er að þetta fólk velur að leyta til stjórnarandstöðu er óskiljanleg, en vissulega má lesa úr þessu vilja til annarskonar stjórnarsamstarfs. Það er því ekki að undra þó kuldahrollur fari um Helga Hjörvar.
Allt frá myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr hefur fólk í æðri stöðum innan Sjálfstæðisflokks verið henni andvíg. Það fólk hefur ekki farið dult með þá andúð sína og notar hvert tækifæri til að grafa undan stjórninni. Þetta er að mestu fólk sem hefur orðið undir í flokknum, fólk sem ekki sættir sig við meirihlutavilja, hvorki innan Sjálfstæðisflokks né þjóðarinnar. Þetta er fólk sem vill með góðu eða illu koma landinu undir ægvald ESB. Fyrirferðin í þessu fólki magnast með hverjum degi sem líður og virðist það nú vera að ná til þingmanna og ráðherra flokksins. Það lítur út fyrir að takmarkinu um að endurvekja hrunstjórnina verði náð.
Störf ríkisstjórnarinnar fram til þessa hafa einkennst af því að markmið Sjálfstæðisflokk hafa fengið allann forgang meðan markmið Framsóknar þurfa að bíða. Þar er ekki einu sinni mál Framsóknar tafin, heldur er ráðherrum flokksins gert útilokað að rækja sitt starf. Þetta má hellst sjá í lausn skuldavanda heimila, sem er á forsjá forsætisráðherra. Þau mál eru tafin út í eitt og um leið og hann hverfur af landi brott tekur fjármálaráðherra málið til sín. Þetta má einnig sjá í máli ESB, þar sem tafið er fyrir því leint og ljóst að það mál fái þinglega umræðu. Kannski vegna þess að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks vilja halda því máli opnu ef tekst að endurvekja hrunstjórnina.
Þetta er kannski svartsýnisraus í mér, svona á laugardagsmorgni, en stjórnmálin síðustu viku hafa þó verið á þann veg að ekki er annað hægt en velta þessu fyrir sér.
Bleiku fílarnir innan Sjálfstæðisflokks virðast vera að skríða á lappir.
Vill skoða sameiningu Landsbankans og ÍLS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.