Forgangsröðun ASÍ er rammskökk !!
26.9.2013 | 08:53
Það voru fyrstu viðbrögð forseta ASÍ við þessu "rausnarboði" SA!!
Er nema von að maður verði svartsýnn á veturinn. ASÍ og SA telja sitt verk að skipta sér af pólitík í landinu og vinna gegn stjórnvöldum, að það sé þeirra megin verkefni. Þessi samtök virðast einnig ætla að sannmælast um að halda hér niðri launum og að láglaunafólkinu sé nægð í að fá launahækkun upp á 1.000 - 4.000 krónur. A.m.k. hefur Gylfi ekki þótt ástæða til að tjá sig um "rausnarboð" SA, heldur kemur í fjölmiðla við hlið forystu SA með kröfu á stjórnvöld um pólitísk mál.
Gylfi hefur ekki umboð sinna umbjóðenda til að skipta sér af pólitískum deilum um aðild að ESB. Honum hefur aldrei verið falið það umboð, enda ASÍ ekki pólitísk samtök með frjálsri aðild. Hans hlutverk er að standa vörð launþega og nú þegar samningar um kaup og kjör þeirra er að hefjast, á hann að beina öllu sínu afli í þá átt.
Þetta getur ekki stefnt nema á einn veg. Þá er eins gott að fólk geri sér grein fyrir því hver sökudólgurinn er, en kenni ekki fátækum launþeganum um ófarirnar. Hann er einungis að reyna að knýja fram örlitla hækkun launa til þess eins að nálgast örlítið þau viðmið sem talin eru nauðsynleg til að halda lífi hér á landi!!
Vilja gera úttekt á stöðu ESB-viðræðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef þú heldur að pólitík í landinu og ESB hafi ekki bein áhrif á kjör launþega þá veður þú í villu og svíma. Og ef þú heldur að Gylfi Arnbjörnsson eigi eingöngu að einbeita sér að því að rífast í Þorsteini Víglundssyni þá er þér ekki við bjargandi.
Ef Gylfi Arnbjörnsson hugsar aðeins um hag launþega þá er ESB aðild ein besta kjarabót sem Íslenskum launþegum stendur til boða. ESB hefur sína galla og margt er í því stofnanaveldi sem hræðir marga og gerir þá andsnúna því. En þeir gallar snerta ekki kjör launafólks og móta því ekki afstöðu ASÍ. Þar er bara spurt hvort kjör batni við aðild.
Gylfi hefur fullt umboð sinna umbjóðenda til að skipta sér af pólitískum deilum um aðild að ESB eins og öllum aðgerðum stjórnvalda sem snerta hag launþega. ASÍ ber að berjast fyrir öllum þeim kjarabótum sem mögulegt er. Laun, vextir, verðbólga, skattar, verðlag o.f. er allt undir. Kjarabætur eru meira en einhver krónutöluhækkun sem Gylfi Arnbjörnsson sækir til Þorsteins Víglundssonar.
Hábeinn (IP-tala skráð) 26.9.2013 kl. 12:30
Það er þín skoðun Hábeinn að launþegum sé til heilla að landið gangi í ESB. Ekki ætla ég að gera lítið úr þinni skoðun, en sjálfur tel ég það óheillaspor fyrir launþega og byggi þá skoðun mína á því áliti sem launþegasamtök innan ESB lýsa, bæði í orði sem á borði.
En megin málið er að aðild að ESB er hápólitískt mál. ASÍ er samtök stéttarfélaga á Íslandi, ekki pólitísk samtök þar sem hverjum er frjáls aðild. Innan ASÍ verða launþegar nauðugir að vera.
Þá er ljóst að aldrei hefur verið kannað meðal félagsmanna ASÍ hvort þeir vilji beyta samtökunum í þessari baráttu og því hefur forseti þess enga heimild til hennar. Einu sinni, fyrir 13 árum síðan, var samþykkt innan miðstjórnar ASÍ að skoða ætti hvort aðild gæti verið launafólki hagstæð. Þar var samankominn fámennur hópur launþega, sem tók þá ákvörðun, hinn almenni launþegi fékk þar engu ráðið eða var spurður eins né neins.
Framganga forseta ASÍ í þessu máli er ekki að kanna kosti aðildar fyrir launafólk í landinu, til þess gæti hann einfaldlega rætt við kollega sína innan þess. Hans framganga miðast að því einu að Ísland verði aðili að ESB. Þeirri skoðun hefur hann ekki legið á!!
Það skýtur svolítið skökku við, að við upphaf samningaviðræðna og sama dag og SA leggur fram sitt svívirðilega tilboð, þá telji forseti ASÍ það hellsta verk sambandsins að fara í mikla vinnu með SA um "könnun" þess hvernig mál standa, könnun sem hann þegar gefur sér niðurstöðu fyrir. Í það minnsta ætlar forseti ASÍ ekki að taka mark á þeirri könnun, verði hún andstæð hans hug, því í þessari fréttatilkynningu er einnig krafist áframhaldandi aðlögunnarviðræðna. Til hvers þá að kanna stöðuna, ef halda á áfram aðlögun, hver sem niðurstaða könnunarinnar verður?
Framundan eru kjaraviðræður og nær væri að forseti ASÍ og forsvarsmenn SA reyndu að klára það mál, áður en allt fer í bál og brand. Verkföll eru ekki það sem þjóðin þarfnast, þvert á móti. Vandinn er hins vegar að forsvarsmenn SA virðast ekki skynja þann vanda sem fyrir liggur og forseti ASÍ lætur sér það í léttu rúmi liggja.
Þennan vanda þarf að leysa, hann er vandi nútíðar og þarf að leysast á næstu mánuðum. Verði það ekki gert getum við alveg hætt að spá í aðild að ESB, hætt að spá í vanda Landspítalans, hætt að spá í hvar flugvöllur á að vera og svo framvegis. Verði hér verkföll munu afleiðingar þeirra verða meiri en nokkurn grunar. Því á þetta mál að vera í öllum forgang milli aðila vinnumarkaðarins, að koma á kjarasamning sem launafólk samþykkir.
Aðlögunnarviðræðurnar geta beðið, enda ljóst að hversu mikill sem viljinn væri til að klára þær, tekur það einhver ár enn.
Gunnar Heiðarsson, 26.9.2013 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.