Mikill er rausnaskapurinn !!
25.9.2013 | 21:12
Launahækkun frá 0,5% til 2% skulu duga launafólki þessa lands. Þetta er mat SA og auðvitað eru þeirra orð hinn stóri dómur. Detti einhverjum í hug að véfengja þessa niðurstöðu er hann samstundis stimplaður sem ótrúverður og óraunsær.
Þessi hungurlús á að duga fólki sem þarf að láta sér nægja rétt rúm 200.000 krónur í mánaðarlaun, hækkun á bilinu frá 1.000 krónum til 4.000 krónur á mánuði. Ja ekki verður sagt annað en rausnaskapurinn er mikill hjá þessum háu herrum!!
Þegar Björgúlfur Jóhannson, formaður SA var spurður af fréttamanni Stöðvar 2 í kvöld, út í þann úrskurð sem kjararáð gaf frá sér til forstjóra ríkisfyrirtækja, úrskurður sem var öllu rausnarlegri og gaf að jafnaði þessum forstjórum ríkisins launahækkun upp á nærri 300.000 krónur á mánuði, eða nálægt hundrað sinnum meiri hækkun, afturvirka um heilt ár, sagði Björgúlfur að vissulega hefði sá úrskurður verið óheppilegur, en fyrir honum hefði verið færð rök.
Og vissulega voru færð rök fyrir þeim úrskurði. Rökin voru þau að til að forstjórar stofnanna ríkisins stæðu starfsbræðrum sínum á hinum almenna markaði jafnfætis í launahækkunum, þyrfti þessa hækkun til. Að fosenda þessa úrskurðar væri hækkun sem forstjórar einkafyrirtækja hefðu tekið sér undanfarin misseri.
Nú stíga þessir forstjórar fram og segja að ekki sé til nema 1.000 til 4.000 krónur í launahækkun til þess hóps sem minnstar hefur í tekjur!!
Þessir menn ættu að skammast sín! Ef forstjórar einkafyrirtækja hafa hækkað sín laun um 20% eins og kjararáð gefur sér, ætti ekki að vera vandi að hækka laun þeirra sem minnstu launin hafa um sömu prósentu. Munurinn væri að í stað þess að fá nærri 300.000 króna launahækkun eins og forstjórinn, fengi launþeginn rúm 40.000. Eftir sem áður væru heildarlaun launþegans töluvert lægri en launahækkun forstjórans sem ætti að vera ásættanlegt fyrir forstjórann!
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, telur að nú sé einmitt rétta tækifærið til að taka mið af launahækkunum í nágrannalöndunum, þegar kaupmáttur hefur verið skertur um nærri 30%. Hvers vegna má ekki stefna að því að leiðrétta þessa skerðingu? Það er enginn að fara fram á að sú leiðrétting komi öll á einu bretti, má alveg hugsa sér að búið sé til plan til einhvers tíma þar sem smá saman verði leiðrétt þessi skerðing. Þegar því er lokið má alveg hugsa sér að horfa til launahækkanna í löndunum kringum okkur, þ.e. þegar kaupmátturinn hefur verið settur á sama plan og þar.
Það er ljóst að forsvarsmenn SA er langt frá raunveruleikanum og ef þeir halda til streytu þessu rugli sínu, munu þeir stefna þjóðinni í verkföll. Ekki mun það bæta fyrirtækin eða þjóðarbúið!!
Um áhrif launahækkanna á vísitölu er það eitt að segja að þær hækkanir er stórlega ofmetnar. Þar spila aðrir hlutir stærra, hlutir sem virðast fá að grassera í friði óheftir.
Flest eða öll fyrirtæki eru rekin af fleiri þáttum en launum einum saman. Auðvitað er misjafnt hversu stór launaþátturinn er hjá hverju fyrirtæki og spilar þar einkum tvennt til. Annars vegar eðli þess reksrar sem um ræðir og hins vegar og sennilega oftar, gæði rekstrar fyrirtækisins.
Ef við gefum okkur að launaþáttur í rekstri fyrirtækisins sé 30% segir það okkur að ef ekkert annað er gert þá muni hvert prósent í hækkun launa leiða til hækkunnar á vöru eða þjónustu þess fyrirtækis um 0,3%. Þ.e. 1% launahækkun leiði þá til 0,3% verðbólgu. Í og eftir síðustu kjarasamninga héldu sumir þeir snillingar sem reka fyrirtæki hér á landi því fram að 3,25% launahækkun gæti leitt til 5% verðbólgu! Það væri gaman að vita hvar þessir snillingar lærðu stærðfræði og kannski enn fróðlegra að fá að vita hvers vegna eigendur fyrirtækja treysta slíkum snillingum fyrir sínu fé.
Það virðist stefna í átök í vetur. Þeim átökum mun SA bera alla ábyrgð á. Tilboð um launahækkun upp á 1.000 - 4.000 krónur á mánuði er hrein svívirða, jafnvel þó maður leiði hjá sér að sömu menn skuli hafa hækkað eigin laun um allt að 300.000 krónur á mánuði, að mati kjararáðs!!
Slíku tilboði mun launafólk líta sem stríðsyfirlýsingu!!
Svigrúm til launahækkana 0.5-2% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.