Málsvari fjármagnsaflanna

Enn á ný notar Gylfi Arnbjörnsson ASÍ til að koma fram sínum persónulegu skoðunum. Þeta er ekki einungis siðlaust, heldur algjör vanvirðing við það fólk sem heldur upp sambandinu og greiðir hans laun.

Persónuleg skoðun Gylfa á aðilda að ESB og um upptöku evrunnar er öllum kunn. Hann hefur verið óþreytandi í að bendla ASÍ við þá skoðun og beita sambandnu henni til framdráttar.

Sem forseti ASÍ var Gylfi skipaður í nefnd, haustið 2008, af þáverandi félagsmálaráðherra. Þessi nefnd átti að skoða þann möguleika að aftengja verðtryggingu lána til fasteignakaupa, tímabundið eða að fullu. Þessi nefnd þurfti ekki nema u.þ.b. viku til að komast að því að slíkt afnám eða aftenging væri ekki í boði. Þetta eru einhver mestu svik forseta ASÍ við sína umbjóðendur og með öllu óskiljanlegt að honum skuli hafa verið sætt í því embætti eftir það.

Þátt lífeyrissjóðanna í hruninu og uppbyggingunni eftir það, er flestum kunnur. Sjóðirnir töpuðu um 500 milljörðum í hruninu, vegna tengsla þeirra við hrunverja. Þetta hefur leitt til töluverðra skerðinga á lífeyri sjóðsfélaga. Þegar rætt er um að sjóðirnir taki einhvern þátt í uppbyggingunni eftir hrun, er hljóðið annað. Þá má ekkert gera til hjálpar sjóðsfélugum, það gæti leitt til skerðingar einhverntímann í framtíðinni. Duglegasti málsvari þessa kerfis hefur verið Gylfi Arnbjörnsson.

Nú tekur Gylfi sér enn stöðu með fjármagnsöflum þessa lands, þegar rætt er um leiðréttingar á forsendubresti lána. Og enn notar hann ASÍ sem skálkaskjól.

Ég er einn fjölmargra sem heldur uppi ASÍ. Mér vitanlega hefur aldrei farið fram skoðanakönnun eða kosning meðal félagsmanna á því hvort frekar eigi að nýta þann kost sem býðst í samningum um uppgjör föllnu bankanna til sértækra aðgerða eða almennra. Meðan slík skoðanakönnun eða kosning hefur ekki farið fram meðal félaga innan ASÍ, getur ekki né má forseti þess bendlað sambandið við eigin persónulegu skoðun.

Við höfum séð hvað sértækar aðgerðir hafa gert fyrir lánþega. Fæstir þeirra sem þá leið hafa getað sótt hafa fengið einhverja lausn, enda þar um að ræða þá sem kannski fóru heldur óvarlega fyrir hrun.

Almennar aðgerðir beinast hins vegar að hinum, sem varlegar fóru. Þeirra vandi er ekki enn kominn upp á yfirborðið, en mun fljótlega sjást. Verði það látið ske má þjóðin vissulega biðja guð að hjálpa sér. Verði þessi duldi vandi látinn koma upp á yfirborðið er þess skammt að bíða að annað bankahrun skelli á okkur og þá af miklu meiri krafti en það fyrra.

Á liðnu vori gekk þjóðin til kosninga. Þeir flokkar sem héldu fram og boðuðu þá leið að áfram skyldi haldið á braut sértækra aðgerða biðu afhroð, meðan sá flokkur sem boðaði almenna aðgerð vann eftirminnilegann sigur. Það liggur því fyrir hvað þjóðin vill og skiptir litlu máli í því sambandi þó Gylfi Arnbjörnsson sé á öndverðum meiði.  

Gylfi má svo sem alveg hafa sínar skoðanir og hann má alveg setjast á bekk meða fjármagnsöflunum. En honum er með öllu óheimilt að draga ASÍ inn í þessar persónulegau skoðanir sínar, eða spirða sambandið við fjármagnsöflin.

Ég spyr; hvenær ætla félagsmenn þeirra stéttarfélaga sem að ASÍ standa að rísa upp og krefjast afsagnar Gylfa? Hversu langt ætlar fólk að láta hann komast í svíviðringu þessa sambands stéttarfélaga launþega?

Alþýðusamband Íslands er ekki og á ekki að vera málsvari fjármagnsaflanna!!

 

 


mbl.is Verði notað sem flestum til góðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig hefurðu hugsað þér að lífeyrissjóðirnir kæmu til hjálpar.

Jónas (IP-tala skráð) 23.9.2013 kl. 10:10

2 identicon

Það má kanski vera sammála Gylfa að ekki skuli láta skattgreiðendur bera þungann af skuldaniðurfellingunni. Ástæðan er sú að þeir sem græddu á að Gylfi vildi ekki taka vísitölurnar úr sambandi eru náttúrulega þeir hinir sömu sem eiga að tapa þeim gróða við þá leiðréttingu sem á að fara fram.

Þannig þurfa lífeyrissjóðirnir að greiða góða summu til baka sem ekki ber að leggja á ríkissjóð!

Það er þó einn stór vandi í þessu öllu og það er lagaumhverfið.  Trúlega hefði það verið löglegt að taka vísitölurnar úr sambandi á sínum tíma en "hæstvirtur" hæstiréttur gæti sem best túlkað það sem eignaupptöku að leiðrétta vitleysuna.

Aðrir telja (t.d. ég) að þarna hafi farið fram eignaupptaka hjá skuldurum, en þar þarf trúlega lagaúrskurð um, ef á að knýja lífeyrissjóðina til að skila "ránsfengnum".

Mér er ekki kunnugt um að neinn dómur hafi fallið um réttmæti/rangsleytni forsendubrestsins.   Þar með er augljóst að ríkisstjórnin er a.m.k. ekki að hugsa skuldaleiðréttinguna út frá þeim forsendum að þeir sem græddu skuli skila.

    Niðurfellingin verður þar með fremur í nafni aumingjagæsku fremur en réttlætis.    Þetta gefur ruglustömpum eins og Gylfa ástæðu til hinnar kolröngu ályktunar að þeir sem tóku stóru lánin þurfi ekki þessa "hjálp".

Merkilegt að rúmlega 5 árum eftir hrun skuli ekki hafa verið reynt á stökkbreytinguna fyrir dómi!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.9.2013 kl. 11:17

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Lög eru mannana verk Bjarni. Verðtrygging var sett á með lögum og hún verður einungis afnumin með lögum. Það tók nokkurn tíma að koma lögum um verðtryggingu á á sínum tíma, en einungis örstutta stund að afnema verðtryggingu launa, þrem árum síðar.

Vissulega hefur farið fram eignaupptaka og það af stærðargráðu sem aldrei áður hefur þekkst. Víst er að ef málin hefðu þróast á hinn veginn, að það hefði verið fjármagnsöflin sem töpuðu en almenningur haldið sínu, væru stjórnvöld þegar búin að gera eitthvað í málinu, til hjálpar fjármagnsöflunum.

Einnig er ljóst að ef ekki hefðu þekkst hér verðtryggð lán við bankahrunið, heldur einungis vaxtalán, er ljóst að þá hefðu allir lánasamningar verið opnaðir til að hækka á þeim vexti, svo fjármagnsöflin töpuðu ekki eins miklu.

Það er ekki sama hvoru megin eignaupptakan liggur.

Það sem þú kallar niðurfellingu kýs ég að nefna leiðréttingu. Hvort þessi leiðrétting fer fram í nafni aumingjagæslu en réttlætis skiptir engu máli. Þar er einungis um að ræða nafngiftir, alveg eins og nafngiftin á verknaðnum sjálfum. Meðan sumir tala um niðurfellingu ræða aðrir um leiðréttingu. Þó er um sama hlutinn að ræða.

Það er vissulega merkilegt að fimm árum eftir hrun skuli ekki hafa reynt á stökkbreytinguna fyrir dómi. Það er einnig merkilegt að fimm árum frá hruni skuli ekki hafa reynt á hvort verðtrygging lána samræmist lögum og reglum EES. Merkilegast er þó að fimm árum frá hruni skuli einungis einn bankastjóri hrunbankanna og einn stórtækur viðskiptamaður frá því fyrir hrun hafa hlotið dóm fyrir dómstólum og það dóma sem hæfði frekar fyrir búðahnupl en stórfellt fjármálamisferli.

Jónas.

Það hafa ýmsar hugmyndir komið upp um aðkomu lífeyrissjóðanna að uppbyggingu landsins. Það er sama hvað nefnt er, sjóðirnir neita með öllu að skoða eitt né neitt. Bera við lögum um sjóðina, án þess að skoða hvort viðkomandi hugmyndir geti fallið innan þeirra laga.

En eins og áður segir, eru lög mannana verk og ef þarf að breyta lögum svo sjóðirnir geti með einhverju móti komið að uppbyggingu landsins, ætti það ekki að vera vandamál.

Annars er merkilegt að lög um lífeyri landsmanna skuli vera með þeim hætti að þeir sem höndla með þetta fé skuli geta tekið verulega áhættu í fjárfestingu, oftast til hjálpar atvinnurekendum eða fjármálamönnum. En þegar talað er um að sjóðirnir komi til hjálpar þeim sem sannarlega eig það fé sem sjóðirnir geyma, er allt bannað.

Gunnar Heiðarsson, 23.9.2013 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband