Ljóshundurinn og hagfræðingurinn

Það vekur vissulega upp stórar spurningar þegar dósent í hagfræði ritar grein í dagblöð, þar sem hann telur lagningu ljósshunds til Bretlands vera góðann kost. Þetta gerir Jón Steinsson, dósent í hagfræði, í Fréttablaðið.

Eitthvað virðist þó hagfræðin vefjast fyrir honum, nema auðvitað að hagfræði sé eitthvað allt annað en hingað til hefur verið haldið fram. Hingað til hefur ætíð verið haldið fram að hagfræði byggi á staðreyndum.

Fyrir það fyrsta sleppir Jón alveg þeirri staðreynd að enn er ekki til tækni eða þekking til að leggja slíkann streng milli Íslands og Bretlands. Auðvitað mun sú tækni fást, en hvenær og hversu dýr hún verður, veit enginn enn. Meðan svo er, er í raun ástæðulaust að velta þessum möguleika fyrir sér. Allar hagfræðilegar spekúlassjónir um slíkt verkefni hljóta að byggja þeirri vitneskju. Annað er hrein og klár óskhyggja og vart getur hagfræði byggst á óskhyggju.

En að rökum dósentsins fyrir ljóshundinum góða.  Hann nefnir að Bretar séu tilbúnir að greiða u.þ.b. 200 dollara fyrir hverja MWs, meðan álverin hér á landi borga 30 dollara fyrir hverja MWs. Út frá þessari staðreynd fær hann út að hagnaðurinn muni verða gífurlegur. Hann sleppir þeirri staðreynd að vinnsla gas og olíu með aðferð sem kallast "fracking", hefur fleytt fram í Bandaríkjunum og flest vandamál við þessa vinnslu hafa verið leyst. Þetta hefur leitt til lækkandi verðs á orku þar í landi, svo mikilli að landið er aftur orðið samkeppnishæft á markaði stórnotenda, reyndar svo að lönd Evrópu eru farin að óttast þá þróun. Þetta hefur leitt til þess að Bretar eru þegar farnir að prófa þessa vinnslu, en vitað er að mjög mikið magn af gasi og olíu má vinna innan Bretlands með þessari aðferð og reyndar um alla Evrópu. Gera verður ráð fyrir að frekari vinnsla þar í landi með þessari aðferð muni lækka verð orku verulega, þegar fram í sækir. 

Þá fer dósentinn frjálslega með kostnað við lagningu og rekstur strengsins, enda erfitt að reikna eitthvað sem ekki er þekkt. Það liggur þó fyrir að sá kostnaður verður töluverður og þó ekki sé ljóst hver hann verður, leifir dósentinn sér að kasta þar fram tölum. Þessi kostnaður, sem enginn veit hver myndi verða, mun auðvitað reiknast af söluverði orkunnar í Bretlandi, hvort sem ljóshundurinn verði lagður og rekinn af einkaaðilum eða Íslenska ríkinu. 

Dósentinn gerir ráð fyrir að um strenginn yrði seldar 5 TWst og gefur sér að til sé í kerfinu 2 TWst. Að einungis þurfi að virkja sem svarar 3 TWst. Það er auðvitað ekki hagfræðilegt sjónarmið, en flestir átta sig þó á því að ef slíkur ljóshundur yrði lagður, mun krafan um fulla nýtingu hans verða sterk, mjög sterk. Svo sterk að líklega yrði umframorkan áfram til í kerfinu hjá okkur, til að geta sinnt strengnum að fullu. Sjónarmið náttúruverndar færu fyrir lítið í þeirri umræðu, en auðvitað er ekki von að dósent í hagfræði líti til þeirra sjónarmiða. Hann skoðar þetta út frá hgfræðinni, ekki satt?

Jón Steinsson gerir lítið úr störfum sem hugsanlega tapast. Nefnir þar nokkur hundruð störf í stóriðju, sem hugsanlega gætu tapast. Þarna hafði dósentinn tilvalið tækifæri til að nota gallharðar tölur í sínum málflutningi, eins og hagfræðingi sæmir. En hann velur að gera það ekki. Fyrir það fyrsta eru ekki einhver hundruð störf tengd stóriðjunni á Íslandi, heldur þúsundir starfa. Þá eru ótalin öll afleit störf sem stóriðjan gefur af sér, sem eru enn fleiri. Allt frá þjónustu við  skúringar til hámenntaðra fræðinga. 

Þá gerir dósentinn einungis ráð fyrir að hér sé álvinnsla og ekkert annað. Orkuna má vissulega nota til margs annars, en allt veltur það auðvitað á verði orkunnar.

Dósentinn telur þessum störfum fórnandi, enda væri hægt að senda hverju mannsbarni ávísun upp á 130.000 krónur, árlega.

Fullyrðing dósentsins um hækkun á verði til almennings er vægast sagt undarleg. Hann fullyrðir að sú hækkun yrði einungis sem svaraði til 1.500 kr á mánuði. Hvar hann hefur þessa tölu veit ég ekki, en leifi mér að efast verulega um hana. Enda hefur forstjóri Landsvirkjunnar nefnt aðrar og mun hærri fjárhæðir í þessu sambandi. Þá þarf ekki annað en líta til Noregs til að sjá hver þróunin þar er á þessu sviði. Þar hefur orkuverð hækkað verulega frá því farið var að selja orku um streng niður til Evrópu. Ekki má heldur gleyma þeirri staðreynd að við erum illu heilli í EES. Í gegnum þann samning hefur ESB sett reglu um að mismunun megi ekki eiga sér stað innan sama viðskipasvæðis, sem segir að orka seld hérna meginn ljóshundsins væri tengt verði á hinum enda hans! 

Lokaorð dósentsins um að nauðsynlegt sé að kanna málið, eru í reynd eina skynsamlega í hans skrifum. En enn þurfum við að bíða með þá könnun, hún verður ekki gerð fyrr en fyrir liggur tækni til lagningu þessa strengs og einhver örlítil áætlun um kostnað við það og viðhald hans. Þá er hægt að skoða málið út frá hagfræðilegum sjónarmiðum, svo langt sem þau ná.

Eftir liggur þá sú spurning hvort betra sé að nýta virðisauka raforkuframleiðslu innanlands eða færa þann virðisauka úr landi. Hvort við viljum nýta okkar orku til framleiðslu og hagsældar, eða hvort við viljum verða þriðjaheims orkusöluland, svona eins og Súdan!!

Það verður að segjast eins og er að skrif Jóns Steinssonsr, dósents í hagfræði, eru vægast sagt barnaleg. Það er auðvelt fyrir hvern sem er að búa til tölur og leggja fram fullyrðingar. Það getur þó vart kallast góð hagfræði!

Þá hefur aldrei verið talið fagmannlegt að notast við klárann blekkingaleik, eins og dósentinn gerir þegar hann ber saman hugsanlega hækkun á orku til neytenda og þá hugsanlegu ávísun sem hann telur hvert mannsbarn fá. Ekki einungis fer hann þar fram með hæpnar fullyrðingar, heldur velur hann að ýkja dæmið með því að nota annarsvegar nánuð og hins vegar ár.

Auðvitað eru margir grunnhyggnir sem falla fyrir svona blekkingum, sér í lagi þegar þær koma frá manni sem ber stóran titil!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband