Hvert ætlar framkvæmdastjórinn að sækja bætur ?
8.8.2013 | 20:10
Framkvæmdastjóri Landssambands Lífeyrissjóða segir að ekki komi til greina að sjóðirnir komi að leiðréttingu lána heimila nema þeir fái fullar bætur fyrir. Vísar hún í eignarréttarákvæði stjórnarskrár og er þá væntanlega að vísa til þess að sjóðirnir séu eign sjóðsfélaga, sem þeir sannarlega eru.
Þá vaknar upp sú spurning hvert framkvæmdastjórinn ætlar að snúa sér til að endurheimta þá 500 milljarða sem sjóðirnir töpuðu í forsögu hrunsins. Eignarréttaákvæði stjórnarskrár hlýtur að eiga við um það fé líka.
Því er spurning hvort framkvæmdastjórinn setjist nú niður og semji kröfubréf í nafni sjóðanna fyrir þessu fé, 500 milljörðum króna. Þar vísar hún væntanlega í eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Hvert hún sendir svo kröfurnar er aftur spurning. Mun hún krefja þá sem sátu í stjórnum sjóðanna og tóku þær ákvarðanir sem ollu þessu tjóni þeirra, eða mun hún sækja á þau gjaldþrotafyrirtæki sem gleyptu þessa 500 milljarða eða fyrrverandi eigendur þeirra?
Auðvitað er hægast fyrir framkvæmdastjórann að snúa sér til þeirra sem sátu í stjórnum sjóðanna fyrir hrun, flestir þeirra eru þar enn svo auðveldast er fyrir framkvæmdastjórann að snúa sér til þeirra. Enda var okkur sagt að þessir stjórnarmenn þyrftu svo há laun sem þeir skömmtuðu sér, vegna hinnar gífurlegu ábyrgðar er þeir báru. Kannski er kominn tími til að þeir beri þá ábyrgð, þegar hefur verið greitt fyrir hana!
Það fer um mann kjánahrollur við að hlusta á þetta fólk, sem þykist ofar öðrum, tjá sig. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að þeir 500 milljarðar sem glötuðust úr sjóðum launþega við hrun, eru ekki afturkræfir. Þetta er glatað fé að fullu, fé sem ekki einn einasti sjóðsfélagi naut góðs af. Hins vegar mun það fé sem hugsanlega þarf að sækja til lífeyrissjóðanna svo leiðrétta megi lán heimila landsins, að mestum hluta koma sjálfum sjóðsfélugum til góða. Það er því spurning hvernig framkvæmdastjórinn getur heimfært þá leiðréttingu sem brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár, meðan ekki er vísað til sama ákvæðis í sambandi við 500 milljarðana sem töpuðust.
Það gríðarlega tap sem sjóðirnir urðu fyrir við hrunið, þegar nærri fjórðungur alls fé þeirra glataðist, hefur þegar leitt til skerðinga á lífeyri til sjóðsfélaga. Þetta er ástæða þess hversu illa þessir sjóðir standa nú. Þetta tap á rætur sínar að rekja til ákvarðanna stjórna sjóðanna misserin fyrir hrun. Hvort þær ákvarðanir voru af heimsku, eða hvort þær voru meðvitaðar, skal ósagt látið, enda skiptir það litlu úr þessu. Það sem meira skiptir er að enn eru margir þeirra sem þá sátu í þessum stjórnum, þar enn. Það er með öllu óviðunndi.
Það afrek að tapa 500 milljörðum króna af fé sem ekki einu sinni er í eigu þeirra sem með það spiluðu, ætti að vera næg ástæða til að þessu fólki sé ýtt til hliðar. Auðvitað á síðan að láta það standa skil sinna gjörða, þó næsta víst sé að féð verði ekki endurheimt.
Svo er líka spurning hvar framkvæmdastjóri Landsambands Lífeyrissjóða sæki það vald að ákveða með hvaða hætti sjóðunum er stjórnað, hvert hún sæki það vald að fullyrða að sjóðirnir muni ekki koma að leiðréttingu lána heimila landsins? Hún er einungis starfsmaður Landsambandsins og starfar þar í umboði sjóðanna sjálfra. Sjóðirnir eru aftur eign launþega.
Framkvæmdastjóri Landssamabands Lífeyrissjóða er ekki almáttug!!
Neita að bera kostnað vegna ÍLS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Lífeyrissjóðunum er frjálst að tapa á fjárfestingum. Lífeyrissjóðirnir töpuðu 479 milljörðum króna á árunum 2008 til 2010. Það er minna en hagnaður áranna 2006 og 2007. Þannig að tapið gekk ekki á innborgaðar greiðslur sjóðsfélaga. Það gríðarlega tap sem sjóðirnir urðu fyrir við hrunið, þegar nærri fjórðungur alls fé þeirra glataðist var eftir allt saman minna en góðærisgróðinn af sömu fjárfestingum.
Lífeyrissjóðunum er ekki frjálst að gefa eftir af kröfum eða koma að einhverju sem ranglega er kallað leiðrétting. Þannig eru einfaldlega lög um lífeyrissjóðina og það hefur ekkert með hvað framkvæmdastjórinn vill eða vill ekki.
Framkvæmdastjóri Landsambands Lífeyrissjóða sækir það vald að ákveða með hvaða hætti sjóðunum er stjórnað í landslög, hún sækir það vald að fullyrða að sjóðirnir muni ekki koma að svokallaðri leiðréttingu lána heimila landsins í lög um lífeyrissjóði. Sjóðunum er ekki heimilt að koma að þessari svokölluðu leiðréttingu. Hún er einungis starfsmaður Landsambandsins og henni ber að fara að lögum þó einhverjum þætti best að svo væri ekki.
Espolin (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 01:07
Það fjarri sanni að sjóðunum sé heimilt að tapa á fjárfestingum, Espolin. Ávöxtunarkrafa sjóðanna er bundin ákveðinni lágmarksprósentu og á það við um allt fé sjóðanna, sama hvort það er bundið í lánum til kaupa á húsnæði eða öðrum fjárfestingum. Þó avöxtun sjóðanna sé eitthvað meiri en þetta lágmark segir til um eitt ár, gefur það ekki sjóðunum heimild til að tapa á því næsta. Þessi lágmarkskrafa er til staðar eftir sem áður og hún er einungis lágmarkskrafa.
Hins vegar vilja stjórnir sjóðanna túlka þetta sem svo að þessi lágmarkskrafa eigi eingöngu við um það fé sem sjóðirnir láta til lána og þá sérstaklega húsnæðislána.
Hinu má svo ekki heldur gleyma, að lög, hver sem þau eru, eru mannana verk og ekki óbreytanleg. Þurfi lagabreytingu til að sjóðirnir geti lagt sitt af mörkum til leiðréttinga lána, er ekki stórmál að framkvæma slíka breytingu.
Eftir sem áður er ljóst að uppgjör vegna 500 milljarðanna er eftir og meðan svo er er vart hægt að hlusta á talsfólk þessara sjóða án þess að fá velgju upp í háls!
Gunnar Heiðarsson, 9.8.2013 kl. 06:29
Sjóðunum er heimilt að tapa á fjárfestingum og ráð fyrir því gert í lögum. En samkvæmt lögum er sjóðunum heimilt að fjárfesta til dæmis í skráðum og óskráðum hlutabréfum fyrirtækja, afleiðusamningum og verðbréfasjóðum. Fjárfestingakostir sem ekki er hægt að reikna með að sýni ætíð hagnað. Enda er í lögunum einnig gert er ráð fyrir tapi og skerðingu greiðslna lífeyris af þeim sökum.
Ávöxtunarkrafa sjóðanna er ekki lögbundin. Ávöxtunarkrafa sjóðanna er vaxtaviðmið notað í tryggingarfræðilegum útreikningum um stöðu sjóðanna. Ef þetta viðmið næst ekki verður að skerða útgreiðslur til þeirra sem eru fá örorku- eða lífeyrisgreiðslur.
Það þarf lagabreytingu og jafnvel stjórnarskrárbreytingu til að sjóðirnir geti lagt fé sjóðsfélaga í almenna niðurgreiðslu húsnæðislána. Og það er stórmál að framkvæma slíka breytingu. Breyting sem væri e.t.v. möguleiki er að ef niðurgreiðslan væri gerð í samræmi við lífeyrissjóðseign. Þannig mundu lífeyrisréttindi hvers skerðast um niðurgreiðsluna sem hann fengi, þeir sem þurfa enga niðurgreiðslu héldu sínum réttindum óskertum og þeir sem engin réttindi eiga fengju ekkert.
Espolin (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 13:44
Við skulum ekki gleyma þeirri einföldu staðreynd, Espolin, að lífeyrissjóðirnir eru eign launþega. Þeir eru tilkomnir sem samtrygging launþega, samtrygging sem launþegar sjálfir byggja upp. Enginn launþegi kemst frá þáttöku í þessu kerfi, þótt hann glaður vildi. Nú greiða launþegar 12% af sínum launum til þessarar samtryggingar og er það skylt.
Það skýtur því skökku við ef sjóðirnir geti gamblað með þetta fé í skráðum og óskráðum fyrirtækjum, afleiðusamningum og verðbréfasjóðum, en er með öllu fyrirmunað að koma sjálfum sjóðsfélögum til hjálpar. Séu lögin um þessa sjóði með þessum hætti þarf snarlega að laga þau.
Það er með öllu útilokað að fyrirtæki landsins geti gengið í þessa sjóði, sótt þangað fé að vild og að sjóðirnir verði að gera ráð fyrir tapi þess vegna. Þetta er sérstaklega undarlegt í ljósi þess að svo fáráðnlega sem það hljóðar, þá skipa fulltrúar atvinnurekenda helming stjórna sjóðanna, en þeir sem eiga féð skipa hinn helminginn. Þatta er algjörlega galið kerfi!!
Tap sjóðanna upp á 500 milljarða er óuppgert. Hvort það var vegna tengsla eigenda ákveðinna fyrirtækja við stjórnir sjóðanna, fyrirtækja sem fóru illa í hruninu, skal ósagt látið, enda ekki forsendur til slíkra dóma. Málið hefur ekki verið rannsakað ennþá.
En meðan þetta uppgjör hefur ekki farið fram, meðan sjóðsfélagar fá ekki að vita hvers vegna þetta tap varð og hvert þeir peningar fóru, eru talsmenn sjóðanna ómerkir með öllu.
Það er ljóst að taka þarf þetta kerfi til alvarlegrar endurskoðunnar, jafnvel algerrar endurnýjunnar. Við það verk er lágmark að það fólk sem fé sjóðanna á, launþegar landsins, fái fulla aðkomu að málinu. Jafnvel má fullyrða að einungis fulltrúar launþega eigi að koma að þeirri vinnu, að fulltrúar atvinnurekenda eigi þar enga aðkomu og stjórnvöld einungis þá aðkomu er snýr að lagagerð sem nauðsynleg er.
Meginmálið er að sjóðirnir eru eign launþega og eiga að vera á þeirra forsjá að fullu. Það eru launþegar sem eiga að ráða hvernig fé sjóðanna er ráðstafað, ekki atvinnurekendur. 500 milljarða tap sjóðanna ætti að hafa kennt okkur þetta!!
Gunnar Heiðarsson, 9.8.2013 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.