Hver hefur nefnt skuldalækkun ?

Það er meinleg villa að tala um skuldalækkun, þegar átt er við skuldaleiðréttingu. Skuldalækkun er þegar ákveðið er að lækka skuld án þess að neinar forsendur séu fyrir slíkri lækkun eða lán eru færð niður án þess að taka tillit til slíkra forsendna, en skuldaleiðrétting er aftur þegar lán eru leiðrétt vegna einhverra ástæðna sem valdið hafa óeðlilegri hækkun þeirra.

Það liggur fyrir að hér varð hrun bankakerfisins. Það liggur fyrir að vegna þessa hruns þá féll gengi krónunnar um tugi prósenta. Það liggur fyrir að verðtryggð lán hækkuðu gífurlega vegna þessa. Það liggur fyrir að margur lántakandinn getur vart lengur staðið undir afborgun þessara lána. Það liggur fyrir að sú eign sem lántakendur áttu í sinni fasteign fyrir hrun, hefur færst að mestu yfir til hinna nýju banka. Þetta og fleira eru staðreyndir sem ekki verður horft framhjá.

Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að fara í leiðréttingu lána. Hitt er ljóst að ríkissjóður lagði til háa upphæð til endurreysn bankakerfisins, nánast helmingi hærri upphæð en nú þarf til leiðréttingu lána heimila landsins. Það er ljóst að nýju bankarnir fengu lánasöfnin á spott prís frá gömlu bönkunum, en rukka lántakendur að fullu. Því er ljóst að hrunið hefur ekki bitið mikið á bankakerfi landsins og má jafnvel segja að þeir séu nú mun sterkari en nokkurntíman áður í sögu þjóðarinnar. Það sýna ársreikningar þesara fyrirtækja.

Þennan styrk sinn hafa bankarnir nýtt til afskrifta lána, ekki hjá almenning, heldur sérstökum velunnurum og vildarvinum. Lætur nærri að allt að 1.000 milljarðar króna hafi verið afskrifaðir af lánum þessara vildarvina bankanna, meðan almenningur er afskiptur. Þetta væri hið besta mál ef þarna væri um að ræða leiðréttingu lána þessara vildarvina bankanna, en svo er alls ekki. Í flestum tilfellum er þarna um að ræða hreinar afskriftir lána, algerlega óháð þeirri hækkun sem þau urðu fyrir vegna hrunsins. Hreinar afskriftir svo þessir vildarvinir geti haldið sínum eignum.

Ekki hafa þó þessir nýju bankar séð sér sóma að skila ríkissjóð því fé sem þeir fengu til endurreysnar, þó sú upphæð sé mun lægri en þeir hafa gefið sínum vildarvinum. Ef bankarnir skiluðu því fé aftur til baka þyrfti ekki nema helming þeirrar upphæðar til leiðréttingu lána almennings.

Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa sínar tekjur af vinnu fyrir bankakerfi heims. Það kemur því ekki á óvart að þau skuli nú hóta lækkun lánshæfismats. Það kom þó aldrei nein slík hótun fram meðan bankarnir voru að afskrifa lán vildarvina sinna. Þó var þar um að ræða nálægt fimm sinnum hærri upphæð en þarf til leiðréttingu lána almennings. ekki nefndi eitt einasta matsfyrirtæki lækkun lánshæfismats meðan verið var að reyna að véla þjóðin til að taka á sig klafa icesave.

Allir eru sammála um að fé til þessara leiðréttinga mun aldrei geta komið úr ríkissjóð Íslands, heldur þarf að sækja það til uppgjörs hinna föllnu banka, en þeir eru að mestu í eigu erlendra vogunnarsjóða, sem aftur eru sterkir innan alþjóðlegu matsfyrirtækjanna. Þar að auki sá SJS, þáverandi fjármálaráðherra, til þess að þessir vogunnarsjóðir fengju sterk tök inn í nýju bankana. Því er ljóst að hin svokölluðu alþjóðlegu matsfyrirtæki eru einungis að vinna fyrir sína eigendur, þegar þau nú koma fram með hótanir um lækkun lánshæfis.

Það gleymist alltaf í þessari umræðu að leiðrétting lána heimila er einungis lítill hluti heildarmyndar hrunsins. Það eru hins vegar margir sem lenda fyrir þessum hluta, fólk sem ekki hefur nokkra burði til að taka hann á sig. Það er talað um að það þurfi um 200 milljarða til þessa verks. Í samanburði við 500 milljarða tap lífeyrissjóðanna og 1.000 milljarða afskriftir vildarvina bankanna, eru 200 milljarðar ekki stór upphæð. Þá er ótaldir allir þeir hundruðu milljarðar sem tapast hafa á öðrum sviðum og þeir hundruðir milljarða sem notaðir voru við endurreysn bankanna. Hvert hið raunverulega tap þjóðarinna varð vegna hrunsins er ekki enn ljóst, en það er borðleggjandi að leiðrétting lána heimila er einungis örlítill hluti þess.

En það er með þetta eins og annað, þar virkar lögmál fjármagnsins. Það er allt í lagi að láta stórar upphæðir falla, ef það er í þágu fárra sérhagsmunaaðila, en þegar kemur að fjöldanum má ekki minnast á meina hjálp. 

Í gegnum aldirnar hefur þrælahald fylgt mannkyninu. Það eru alltaf einhverjir sem telja sig yfir aðra hafnir og séu þess megnugir að geta borið svipu í hendi. Þessi saga er vel kunn og einnig að við viss skilyrði, þegar þrællinn hefur verið barinn of mikið, þá gefst hann upp og verður þrælahaldaranum einskisnýtur. Alltaf hefur slíkt endað með því að þrælahaldarinn verður að lúta í lægra haldi og þrælarnir hlotið lausn.

Birtingarmynd þessa í dag er að bankar eru þrælahaldarar og þrælarnir eru almenningu. Sjálfur pískurinn er gjaldseðill lánanna. Nú þegar hafa písknum verð beytt um of. Þrælarnir hafa margir hverjir gefist upp og ljóst að til uppþota kemur fljótlega. Þetta er endurtekning sögunnar, þar sem þrælahaldarar lúta í lægra haldi, að lokum.


mbl.is Skuldalækkun skilar verri horfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar

Þetta er auðvitað skuldalækkun.  "Forsendubresturinn" varð vegna þess að um leið og verðbólguskot varð vegna gengishruns þá hrundi fasteignaverð.  Nú hinsvegar hefur fasteignaverð snarhækkað  og hækkar enn hratt svo líklegt er að fólk sé um það bil að ná þeirri eiginfjárstöðu í fasteignum sem það hafði fyrir hrun.  Það á bara að láta markaðinn um þetta, inngrip ríkissins á þessu stigi er afar klaufaleg og vanhugsuð aðgerð.  En "kommarnir" í framsókn og sjálfstæðisflokknum skilja það ekki, þeir skilja sennilega ekkert fyrr en þeir eru búnir að koma af stað öðru hruni.

Óskar, 26.7.2013 kl. 09:36

2 identicon

Gunnar, þetta eru ekki skuldaniðurfellingar heldur íslenskar skuldaleiðréttingar, sem er ALLT ANNAÐ.

Það er ömurlegt hvað þessar skammstafanir skilja illa íslenska módelið. Stuttar boðleiðir og snögg viðbrögð. Þessir útlendingar þurfa endurmenntun.

G- (IP-tala skráð) 26.7.2013 kl. 10:22

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú skilur greinilega ekki eðli verðtryggðra lána Óskar.

Flest sem er verðtryggt hækkar þegar verðbólga eykst og lækkar aftur þegar hún fer niður. Þetta er auðvitað hin raunverulega verðtrygging. En þegar kemur að verðtryggðum lánum horfir málið öðruvísi við. Verðtryggingi sem leggst á lánið við aukna verðbólgu festist þar. Lánið lækkar ekki þó verðbólgan fari niður. Þarna myndast skekkja og þegar stórt verðbólguskot verður, eins og í undanfara og kjölfar hrunsins verður þessi skekkja veruleg. 

Það má hugsanlega tala um einhverja hækkun á fasteignum, þá helst á stór höfuðborgarsvæðinu. En þar þarf að taka til greina þá staðreynd að bankar og lánastofnanir liggja á fjölda eigna, gagngert til að halda markaðsverði uppi. Því má gera ráð fyrir að sú hækkun sem mælist sé ekki raunveruleg.

Þar að auki hefur sú hækkun vart náð fyrra gildi og þá á eftir að vinna upp þá miklu hækkun sem lánin urðu fyrir.

Það er því með öllu útilokað að "markaðurinn" muni leiðrétta þessa skekkju, hvort í bráð né lengd. Meðan verðtrygging er á lánum lúta þau gildum sem koma fasteignaverði ákaflega lítið við, auk þess sem þau geta einungis hækkað.  Á sama tíma er verð fasteigna háð allt öðrum gildum. Því mun sú eignatilfærsla sem orðið hefur á eignum fólks til bankanna ekki verða leiðrétt nema með inngripi.

Það er deginum ljósara að hér verður annað hrun, ef ekkert verður gert til leiðréttingar lána. Ástæðan er einföld. Sá sem átti nærri helming í sinni fasteign fyrir hrun, á vart krónu í henni lengur. Eftir sem áður þarf hann að greiða af láninu, láni sem hefur hækkað um tugi prósenta. Sá sem skuldaði fyrir hrun og var með tiltölulega lága greiðslubyrgði, stendur vart undir þeirri byrgði í dag. Í þessari stöðu er fjöldi landsmanna, getur enn greitt af láninu en spyr sig við hver mánaðarmót hvort eitthvað vit sé í að halda því áfram.

Þegar fólk kemst að því að svarið verður nei, er ljóst að bankarnir komast í verulegann vanda og fall þeirra verður óhjákvæmilegt. 

Það fólk sem svona er statt fyrir, er einmitt fólkið sem fór varlega fyrir hrun, er fólkið sem hefur skorið alla neyslu frá sér sem hægt er að skera, til þess eins að geta staðið í skilum við bankann. Þetta er heiðarlega og forsjála fólk þessa lands. Það er einungis sekt af því að hafa tekið lán fyrir helming þeirrar fasteignar sem það keypti og lagði fram sjálft hinn helminginn. Nú stendur það uppi eignarlaust með miklu hærra lán á bakinu en því hefði nokkurn tíman dottið í hug að taka.

Þetta sama fólk hefur þurft að sjá hina sem fóru óvarlega fyrir hrun, sem tóku allt að 100% lán og keyptu jafnvel bíl á láni, fá felldar niður skuldir upp á tugi milljóna. 

Til að sátt náist í þjóðfélaginu verður að leiðrétta lán þessa fólks, sem hvorki tók þátt í hrunadansinum né átti neinn þátt í hruninu. Verði það ekki gert munu flestir gefast upp, með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðina. 

Gunnar Heiðarsson, 26.7.2013 kl. 10:30

4 identicon

Við búum í landi þar sem óðaverðbólga er ekki óalgeng. Þess vegna eru lánin vísitölutryggð. Lánunum er ætlað að haga sér eins og þau gerðu og hafa áður gert. Þannig að það varð enginn forsendubrestur og ekkert sem þarf að leiðrétta. Forsendurnar stóðust og lánin höguðu sér nákvæmlega eins og til var ætlast og við var búist.

Ætli ríkisstjórnin að lækka skuldirnar verður það eingöngu gert með því að ríkið borgi fyrir þá sem skulda.

Espolin (IP-tala skráð) 26.7.2013 kl. 11:18

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Í þeirri stöðu sem flestir lánþegar eru í er tvennt í stöðunni.Annaðhvort að gera

lánþegunum kleyft að gera skil og það verður ekki gert nema með afföllum(Að öðrum kosti sjá lánþegarnir ekki að það borgi sig) eða að afskrifa lánin.Hvernig ætli lánshæfiseinkunnin verði þá.Þetta er spurning um að bjarga verðmætum.Þessvegna á að sjálfsögðu að fara í þá vinnu að fella niður(leiðrétta) skuldir.Þetta á jafnt við um skuldir einstaklinga og ríkisins við alþjóða gjaldeyrissjóðinn og aðra og eins erlenda jöklabréfaeigendur.Því þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta skuldir sem á endanum lenda á ríkinu þ.e. okkur.

Jósef Smári Ásmundsson, 26.7.2013 kl. 12:43

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Espolin.

Ætli ríkisstjórnin að lækka skuldirnar verður það eingöngu gert með því að ríkið borgi fyrir þá sem skulda.

Það borgar enginn það sem ekki verður greitt!

Hér eru smá staðreyndir fyrir þig.

Skuldir heimila höfðu í febrúar 2012 verið lækkaðar um tæpa 200 milljarða samkvæmt upplýsingum frá bönkunum sjálfum. Það skiptist í 50 milljarða vegna aðgerða að frumkvæði stjórnvalda, en restin og bróðuparturinn eða 150 milljarðar voru leiðréttingar ólöglegra lána vegna dóma sem féllu.

Það borgaði enginn þessa 200 milljarða og enginn mun borga þá! Ekki ríkið, ekki ég ekki þú, ekki sá sem er skráður lántakandi og enginn annar heldur.

Svo er önnur röng fullyrðing hjá þér sem ég má til með að leiðrétta.

Þess vegna eru lánin vísitölutryggð.

Meginorsök verðbólgu á Íslandi er verðtrygging útlána bankakerfisins. Þannig er verðtrygging orsök verðbólgu en ekki afleiðing hennar eins og þú reyndir að halda fram. Það eru engar vísbendingar um að há verðbólga leiði til verðtryggingar, heldur var henni komið á með lagafrumvarpi. Með því lagafrumvarpi var hinsvegar alls ekkert ætlunin að þau myndu hegða sér þannig sem þau gerðu að setja hér allt á hliðina, en það gerðist samt. Meðal annars vegna þess að menn höfðu enga þekkingu á þessum málum.

Getum við því vinsamlegast byggt umræðuna á staðreyndum framvegis?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2013 kl. 15:33

7 identicon

Eina orsök vísitölubindingar útlána og innlána lánastofnana á Íslandi er stöðug verðbólga og óðaverðbólga á nokkurra ára fresti áratugina fyrir vísitölubindingu. Lán jafngiltu lottóvinningi og aðeins bestu vinir aðal fengu lán. Sparnaður var ómögulegur og glötuð er geymd króna var lífsmottó Íslendinga.

Þannig var vísitölubinding ekki orsök verðbólgu (hún var til óð og óstjórnleg fyrir) en rökrétt viðbrögð við henni. Það eru engar vísbendingar um að vísitölubinding leiði til verðbólgu, þvert á móti hafa lægstu verðbólguár lýðveldisins verið eftir að vísitölubindingu var komið á. Og verðbólga er einnig vel þekkt fyrirbæri þar sem engin er vísitölubindingin.

Getum við því vinsamlegast byggt umræðuna á staðreyndum framvegis og hætt að bulla út í eitt og blanda einhverjum ólöglegum gengislánum inn í umræðu um lögleg vísitölubundin húsnæðislán? 

Ætli ríkisstjórnin að lækka skuldirnar verður það eingöngu gert með því að ríkið borgi fyrir þá sem skulda. Þannig er það.

Espolin (IP-tala skráð) 26.7.2013 kl. 18:56

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Örfáar staðreyndir um verðtrygginguna og hin svokölluðu Ólafslög.

Á áttunda áratug síðustu aldar var verðbólgan hér á landi rokkandi frá 20% upp í 40%. Þetta ástand var óviðunnandi og 1979 settu stjórnvöld lög um verðtryggingu. Þessi lög hafa stundum verið kölluð Ólafslög, eftir Ólafi Jóhannessyni, þáverandi forsætiasráðherra.

Í fyrstu náðu þessi lög yfir bæði lán og laun. Næstu fjögur ár óð verðbólgan upp úr öllu valdi og komst um eða yfir 100% árið 1983. Þá var verðtrygging launa afnumin og verðbólgan datt niður. Þó ekki nema niður í um 20%. Næsta áratug var verðbólgan svipuð og á áttunda áratugnum, frá 20% upp í 40%.

Í upphafi tíunda áratugarins var svokölluð þjóðarsátt gerð, og er Einar Oddur oftast sagður höfundur hennar. Þarna náðist sátt á vinnumarkaði, enda komu allir aðilar þjóðfélagsins að þessari sátt, jafnt launafólk, kaupmenn, ríkið og í reynd allir sem áhrif höfðu á verðbólguna.

Nú fyrst fór verðbólgan lækkandi og frá miðjum tíunda áratugnum og fram undir hrun bankanna var verðbólgan hér um og undir 5%, utan smá skot um aldamótin, þegar netbólan í heiminum sprakk.

Þetta segir okkur að verðtrygging hefur alls engin áhrif til verndar verðbólgu, þvert á móti. Meðan bæði laun og lán voru verðtryggð óð hún í hæðstu hæðir og eftir að laun höfðu verið tekin út úr dæminu, fór hún niður á svipað plan og áður en lögin voru sett.

Friður í þjóðfélaginu hefur hins vegar mikil áhrif. Slíkur friður er forsenda stöðugleika. Hvort okkur auðnist að ná aftur sömu þjóðarsátt og Einar Oddur náði, skal ósagt látið. Þó er vart hægt að hugsa sér slíkt miðað við hvernig okkar þjóðfélag er orðið. Kaupmenn skammta sér eftir þörfum, bankaelítan heldur uppi launahækkunum og er í raun leiðandi á því sviði. Nú eru kaupaukar þar á bæ taldir sjálfsagðir. Forstjórum ríkisstofnanna er skammtaðar launahækkanir sem nemur tugum prósenta og þær látnar gilda fleiri mánuði aftur í tímann. Meðan svona er stjórnað er vart hægt að búast við að launafólkið sé tilbúið að leggja á sig frekari byrgðar. Meðan þeir sem eiga að vera til fyrirmyndar og hafa helst efni á kjararýrnun, eru að taka sér launahækkanir sem allt að því nema mánaðarlaunum verkamanns, er vart von til að verkamaðurinn sé tilbúinn að skerða sín kjör.

Gunnar Heiðarsson, 26.7.2013 kl. 21:08

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Espolin.

Það eru engar vísbendingar um að vísitölubinding leiði til verðbólgu, þvert á móti hafa lægstu verðbólguár lýðveldisins verið eftir að vísitölubindingu var komið á.

Það þarf ekki vísbendingar fyrir einhverju sem hefur verið sannað:

http://arxiv.org/abs/1302.4112

Svo myndi ég ekki kalla 20 ársverðbólgu lága.

Getum við því vinsamlegast byggt umræðuna á staðreyndum framvegis og hætt að bulla út í eitt og blanda einhverjum ólöglegum gengislánum inn í umræðu um lögleg vísitölubundin húsnæðislán?  

Hver sagði að þau væru ekki ólögleg líka?

Já við getum vinsamlegast byggt umræðuna á staðreyndum.

Um leið og þú byrjar á því Espolin.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2013 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband