Stór undarleg umræða !!

Það er merkilegt hvernig umræðan um þessa handtöku sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur um síðustu helgi, hefur þróast. Allt kapp er lagt á umræðu um hvort handtökuaðferðin sé góð eða slæm, meðan umræðan ætti kannski frekar að vera um hvort þessi handtaka hafi yfir höfuð verið nauðsynleg.

Hver sem skoðar myndbandið af þessum atburði geta verið sammála um að handtökuaðferðin var hrottaleg. Hvort slíkur hrottaskapur sé lögreglunni nauðsynlegur til að halda uppi lögum og reglu í landinu ætla ég ekki að leggja mat á, en mun að sjálfsögðu hugsa mig um tvisvar áður en ég nálgast bíla þessara þjóna okkar.

Hitt má einnig sjá glöggt á þessu sama myndbandi að konan sem handtekin var, var mjög ölvuð. Einnig má sjá að a.m.k. þrír lögreglumenn voru í bílnum. Því vaknar upp sú spurning hvort þeir hefðu ekki getað, með samvinnu sín á milli, farið varlegra að í þessari handtöku. Aflsmunurinn er í það minnsta mikill milli hennar og þriggja lögregluþjóna.

Það merkilegasta við skoðun á myndbandinu er þó sú staðreynd að vart er hægt að sjá að nokkur einasta ástæða var fyrir lögregluna að skipta sér af þessari konu. Visulega stóð hún einhverja stund fyrir framan lögreglubílinn, enda á göngugötu, en færði sig síðan til hliðar. Ekki er annað séð en sá sem ók bílnum hafi gert sér að leik að aka óþarflega fljótt af stað og í raun ekið utaní konuna. Hefði ekki mátt bíða örlítið lengur, þar til hún var komin upp á gangstéttina, einnig hefði lögreglan getað beygt örlítið, til að færa sig frá henni.

Þá er ljóst að eftir að lögreglan ekur utaní konuna, að því er virðist að ástæðulausu, er hurð bílsins opnuð á hana svo hún hröklast frá bílnum. Þá fyrst er það sem þessi kona sýnir af sér eitthvert brot, þegar hún fer að bílnum aftur og að sögn hrækir framaní bílstjórann. Þá hafði bæði verið ekið utaní hana og henni hrinnt með hurð bílsins. Viðbrögðin létu ekki standa á sér af hálfu lögreglumannsins sem ók bílnum og vart annað hægt að ætla en hann hafi verið tilbúinn og í raun verið að bíða eftir viðbrögðum hennar svo hann gæti látið til sín taka.

Fjölmiðlar ættu frekar að snúa umræðunni að þessum hluta sögunnar, segja kjarna hennar en ekki aukaatriðin.

Sem betur fer er heildin af lögregluþjónum landsins hinir vænstu menn, en meðal þeirra eru skemmd epli, rétt eins og víðast annarsstaðar. Þessum skemmdu eplum á ekki að hlífa, slíkt verður til þess að öll eplin í körfunni verða óásjáleg. Að verja þennan atburð er til þess eins að grafa undan trú fólks á þessum nauðsynlegu þjónum okkar.

Hvort handtökuaðferðin er rétt eða röng skiptir ekki máli í þessu tilviki. Vissulega má taka umræðu um þann þátt, en ekki vegna þessa atviks. Framferði laganna þjóna gagnvart borgurunum er aftur sú umræða sem þetta tiltekna atvik ætti að skapa.

Þegar lögreglan er farin að búa sér til tækifæri til handtöku, sem í raun var mjög auðvelt að komast hjá, eru mál farin að þróast á hættulega braut. Og þegar stéttafélag lögreglumanna fara að verja slíka háttsemi er það farið að grafa undan sinni stétt.


mbl.is Góð reynsla af handtökuaðferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála, og því lengur sem lögreglan ætlar sér að feta inn á þessa braut, því meira vantraust vekur hún hjá almenningi, þetta er ekki sú þróun við viljum sjá hjá lögreglunni, það er alveg ljóst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2013 kl. 21:10

2 identicon

Þetta er allt rétt nafni og staðreyndin er nú bara að löggan er misheppin með mannskap og inn á milli slæðast menn sem valda starfinu illa. Þeir þurfa að losa sig reglulega við svona stráka.

Sandkassinn (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 21:18

3 identicon

Rétt hjá þér Gunnar W, en það gerist ekki á vinnustað þar sem yfirmennirnir eru skemmdustu eplin: þeir eru ástæðan fyrir því að ástandið er svona slæmt. Þetta ofbeldismál er bara tittlingaskítur, þótt ljótt sé, miðað öll hin málin sem meira og minna eru þögguð niður eða látin týnast í kerfinu, sbr ekkert gert í 97% af kærum gegn lögreglunni. Þetta konugrey getur huggað sig við það að henni var ekki misþyrmt uppá stöð; Ég veit um dæmi þar sem svona fórnarlamb þurfti að leita hjálpar hjá Stígamótum. Og þú veist væntanlega um varðstjórann sem hefur verið 3 sinnum sakaður um barnaníð, án þess að vera leystur frá störfum?

símon (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 21:59

4 identicon

Tek undir með þér að umræðan er á villigötum og þetta var ekkert annað en líkamsárás á konuna. Mér hefur áður verið sagt frá valdníðingu lögreglumanna en alltaf verið svo græn að trúa ekki neinu ljótu uppá þá og varið þá. Það er sennilega því miður breytt núna. Ég vona innilega að formaður landssamtaka lögreglumanna og aðrir þeir sem hafa varið þessar gjörðir og/eða meðvitað leitt umræðuna á villigötur sjái að sér. Það er með öllu ólíðandi að við sem um götur landsins ganga getum ekki treyst lögreglunni fyrir að mæta okkur með sanngirni og virðingu. Þeir geta ekki krafist virðingar með þjösnaskap og ofbeldi frekar en nokkur annar.

assa (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 22:31

5 identicon

því miður, þá hefur maður heyrt sögur af löggunni að beinbrjóta fólk fyrir lítið. (reyndar bara eina með beinbroti en ansi margar aðrar frekar ljótar.)

frá sæmilega virtu og virðulegu fólku, (bara ekki "tengdu.")

sem gat ekki kært. því að þú kærir lögguna til löggunar

og oft eru mál látin niður falla. (bakvið og undir skrifborð.)

sveinn ólafsson (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband