Fjögur bindi af bulli ?
8.7.2013 | 20:54
Getur verið að rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð hafi skilað af sér fjórum bindum af bulli? Er það virkilega staðreynd að störf nefndarinnar er kannski enn gagnrýniverðari en sú stofnun sem hún átti að skoða?
Það er ljóst að miklir meinbugir eru á störfum nefndarmanna. Bein ósannindi og hálfsannleikur, auk pólitískra aðdróttanna virðast hafa verið höfð að leiðarljósi. Ég hef áður bloggað um þann þátt er snýr að svokölluðum pólitískum mannaráðningum, þar sem nefndarmenn nafngreindi ákveðin mann og sögðu hans ráðningu vera af pólitískum toga, jafnvel þó fyrir hafi legið að ráðning einmitt þess einstaklings til sjóðsins hafi verið ein af fyrstu faglegu ráðningum innan ríkiskerfisins, unnin af ráðningarfyrirtæki út í bæ. Ég hef einnig bloggað áður um pólitíska fordóma sem fram koma í skýrslunni og þeirri staðreynd að ekkert hafi breyst innan sjóðsins vorið 2007 eða síðar, þó allt annar flokkur en nefndarmenn telja sekann, hafi tekið yfir þann málaflokk sem sjóðurinn heyrir undir. Þá hef ég einnig áður bloggað um hversu fáráðnlegt sé að kenna 90% lánareglu sjóðsins um hans vanda, þar sem sú regla náði í raun aldrei að komast til framkvæmda vegna hámarks á lán frá sjóðnum.
Nú er að koma í ljós að nefndarmenn ýkja stórkostlega um tap sjóðsins. Það er í það minnsta langur vegur á milli þess að tapið sé 64 milljarðar eða 270 milljarðar! Auðvitað er tap upp á 64 milljarða stórt, en kannski má segja að það sé lítið tap þegar horft er til þess að hér varð bankahrun. Og víst er að það tap er lítið í samanburði við alla þá fjármuni sem hinir endurreystu bankar fengu, bæði beint úr ríkissjóð og með millifærslu lánasafna á miklum afslætti.
Fréttastofur beggja stæðstu ljósvakamiðla landsins hafa verið duglegar við að finna allt það slæma sem skýrslan býður uppá. Þar eru orð skýrsluhöfunda tekin hrá og óskoðuð og flutt í æsifréttastíl. Vissulega ætti að vera hægt að treysta skýrslunni og taka orð hennar trúanleg, en spurning hvort nauðsyn sé að flytja þessar fréttir sem æsifréttir. En nú ber svo við að hver fréttin af annari hafa verið dregnar til baka, fréttir sem byggðar eru á skýrlunni sjálfri. Síðast í fréttum á RUV, nú í kvöld, var dregin til baka frétt sem var stór í fréttum gærkvöldsins á þeirri stöð. Þarna var sagt frá 700 milljón króna láni til byggingafyrirtækis, með veði sveitarfélags. Fréttastofan vann fréttina upp úr skýrslunni, þar sem þetta var tíundað. Það sem fréttastofan vissi ekki, enda kom það ekki fram í skýrslunni, var að lánið var aldrei afgreitt! 700 milljónirnar sem sjóðurinn átti að hafa tapað samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar töpuðust aldrei, þessar milljónir voru jú aldrei lánaðar út!!
Það er spurning hvort ekki séu nú þegar komnir það miklir meinbugir á störf rannsóknarnefndarinnar að full ástæða sé til að rannsaka störf hennar. Hvort ekki sé rétt að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka rannsóknarnefndina?
Það liggur fyrir að nefndin sjálf sýndi ávítanlega óstjórn í meðferð almannafé, þar sem starf hennar var mun dýrara en áætlað var og tíminn sem tók að gera skýrsluna var mun lengri en gert var ráð fyrir. Ósannindi og hálfsannleikur í skýrslunni er staðreynd, þar sem þegar hefur verið upplýst að mörg atriði sem nefndin nefnir, standast ekki. Því má segja að niðurstaða nefndarinnar um Íbúðalánasjóð eigi kannski enn frekar við störf hennar sjálfrar, óráðsía og feluleikur með sannleikann!!
Sem skattgreiðandi á ég erfitt með að sætta mig við slík vinnubrögð sem nefnd þessi hefur stundað. Ég á erfitt með að sætta mig við að þeir peningar sem ég verð að láta af hendi rakna til ríkissjóðs sé nýttir til slíkra verka. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir mig að sættast við þar sem ég tel störf slíkra nefnda vera lykil þess að læra af áföllum fortíðar. En það lærir enginn af skýrslu sem ekki stenst skoðun, það lærir enginn af skýrslu sem er full að ósannleik!!
Segir skýrsluna fulla af slúðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þarna gæti verið að þú hittir naglann akkúrat á höfuðið??? Ég ætla ekki að fullyrða um þetta en mér finnst ansi margt benda til þess að skýrslan sé ekki alveg eftir bókinni". Til dæmis eru tínd upp mörg smáatriði sem eru talin ámælisverð, (auðvitað er ansi margt sem hefði mátt fara betur) þessi atriði eru gagnrýnd fram og til baka en svo vantar tillögur um það HVAÐ hefði átt að gera í þessum tilfellum. Það er talað mikið um 90% lánin og þau hafi verið það sem olli ÓGÆFU Íbúðalánasjóðs en það er ekkert um það í hverju ógæfan var fólgin og ekkert sagt hvað það var við 90% lánin sem var svona slæmt eða hvað hefði fremur átt að gera annað. Svona væri lengi hægt að telja en getur verið að það hafi eitthvað að segja að ALLIR skýrsluhöfundarnir eru tengdir öðrum fyrrverandi stjórnarflokknum?????
Jóhann Elíasson, 9.7.2013 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.