Nornaveiðar og galdrabrennur
4.7.2013 | 07:58
Dekksti blettur mannkynssögunnar eru hinar myrku miðaldir, þegar svokallaðir rannsóknaréttir kirkjunnar fóru hamförum í nornaveiðum og galdrabrennum. Oft þurfti ekki annað tilefni til brennudóms en að kirkjunnarmenn teldu að refsa skildi almúganum til að halda honum í skefjum. Þetta voru skelfingartímar.
Nú virðist sem þessar aðferðir séu að endurtaka sig hjá okkur Íslendingum. Svört, en að sumu leiti þörf skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð er vissulega þessu marki brennd, en viðbrögð sumra stjórnmálamanna við henni eru þó enn nær þeim starfsaðferðum sem tíðkuðust á miðöldum. Hver sem betur getur reynir að finna sökudólga og þvo eigin hendur af ósómanum.
Skýrsla rannsóknarnefndar ætti þó ekki að koma neinum á óvart, flestir ættu að muna svo skammt aftur í tímann sem skýrslan nær. Rangfærslur í skýrslunni og mat skýrsluhöfunda í kynningu hennar draga þó sannleiksgildi hennar nokkuð í efa. Má þar nefna að skýrsluhöfundar nefna ákveðinn einstakling og segja hann pólitískt ráðinn, mat skýrsluhöfunda á því hver hellsta orsök vanda sjóðsins er og pólitískt ofstæki gegn einum ákveðnum stjórnmálaflokk.
Hallur Magnússon er nefndur í skýrslunni sem pólitískt ráðinn. Þetta gera skýrsluhöfundar þótt fyrir liggi að ráðning þess manns á sínum tíma var í gegnum ráðningafyrirtæki út í bæ. Sennilega ein af fyrstu faglegu ráðningum sem ríkisstofnun hefur staðið fyrir. Þetta var nýmæli á þeim tíma og hefði freka átt að nefna sjóðnum til hagsbóta.
Þá telja skýrsluhöfundar að tvennt hafi orðið til þess að vandi sjóðsins er sá sem hann er í dag, skuldabréfaskiptin sem áttu sér stað 2004 og ákvörðun um 90% lánaregluna. Að auki eru nefnd fjölmörg önnur atriði s.s. lélegt eftirlit og fleira, en skýrsluhöfundar gerðu minna úr því. Hins vegar var pólitík talin vera orsakavaldur af skýrsluhöfundum, þó þeir gætu ekki beinlínis bennt á neitt dæmi því til sönnunar.
Það liggur ljóst fyrir að reikniskekkja við skuldabréfaskiptin er staðreynd og að kostnaður vegna hennar er töluverður. Hvert sá kostnaður fór og hver græddi á þessari skekkju láta þó skýrsluhöfundar ótalið að nefna. Það hefði vissulega mátt koma fram í skýrslunni.
Varðandi þátt 90% reglunnar þá er ljóst að áhrif hennar er stórlega ofmetin í skýrslunni. Flestir sem nenna að hugsa þessi örfáu ár aftur í tímann, sem skýrslan nær til, muna hvernig þessi regla kom til. Framsóknarflokkur var með þetta atriði sem kosningaloforð, einkum vegna þess að einkabankar voru þegar komninr út á þessa hálu braut. Vandinn var að landsbyggðin átti ekki kost á slíkum lánum einkabankanna, þar sem hún var ekki innan reknilíkana þeirra banka. Raunar átti landsbyggðin nánast enga möguleika á húsnæðislánum frá þessum bönkum. Því var kosningaloforð Framsóknar svar við þessum vanda. Einungis einn stjórnmálaflokkur efaðist um þetta kosningaloforð, Sjálfstæðisflokkur. Aðrir stjórnmálaflokkar kepptust um að mæra loforð Framsóknar. Eftir kosningar, voru þingmenn Samfylkingar harðastir í að krefjast þess að þetta kosningaloforð yrði uppfyllt og það ekki síðar en strax.
Loks svo þegar þessi regla tók gildi voru á henni höft þannig að í raun var útilokað fyrir nokkurn að ná 90% markinu í lántöku frá sjóðnum. Hámark var sett á lánin og það hámark var svo lágt að nær hefði verið að kalla þessa reglu 60% regluna frekar en 90%. Því er útilokað að áhrif þessarar breytingar hafi verið mikil, ef nokkur. Þarna er verið að nota gamalt kosningaloforð sem afsökun til nornaveiða. Veiðimennirnir voru þó flestir sammála þessu á sínum tíma.
Það má vissulega segja margt ljótt um hinn gamla Framsóknarflokk, sérstaklega undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar. Það þarf ekkert að ýkja þá óráðssíu sem innan flokksins ríkti á þeim tíma. En það á við um flesta aðra flokka á þessum tímum og mætti rita margar skýrslur um þeirra þátt. Framsókn var ekki eyland í óráðsíunni, allir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn tóku þátt. Munurinn er þó sá að Framsókn einn flokka hefur gert þessa fortíð upp og þorir að tala gagnrýnum hætti um þennan myrka tíma, ólíkt öðrum stjórnmálaflokkum.
Flestir ættu að muna þá umræðu sem um Íbúalánasjóð var á fyrri hluta fyrsta áratugar þessarar aldar. Einkabankar sóttu hart að sjóðurinn yrði lagður niður og að þeir tækju yfir starfsemi hans. Það hefði verið lukkulegt fyrir þjóðin ef svo hefði verið, eða hitt þó heldur. Áður hef ég minnst á hvernig landsbyggðin var utan reiknilíkana þessara einkabanka. Hitt er einnig ljóst að ef þeir hefði náð tangarhaldi sjóðnum er ljóst að landsmenn væru enn verr staddir nú. Reglur sem einkabönkum voru settar virkuðu sem markmið þeirra til að komast framhjá. M.a. má nefna greiðslumat í því sambandi. Enginn var svo illa stæður að hann hafi ekki getað gengið inn í næsta banka og fengið lán. Ef greiðslumat stóðst ekki var einfaldlega "hagrætt tölum" svo viðkomandi gæti fengið afgreiðslu. 100% lánaregla einkabankanna virkaði þannig að ef fasteign var ekki nægjanlega verðmæt sem veð fyrir því láni sem óskað var eftir, sendi bankinn bara sinn fasteignasala og lét hann meta hana upp, svo veð stæðist. Þetta voru einfaldar reglur hjá einkabönkunum, sem n.b. giltu einungis á stór-Reykjavíkursvæðinu og einstökum stórum byggðarkjörnum utan þess. Landsbyggðin var utan seilingar einkabankanna og dugði að fara yfir Hvalfjörðinn, upp á Akranes, til að þessi regla einkabankanna var allt í einu komin niður í 80%.
Því miður virðist sem sumir stjórnmálamenn ætli að nýta þessa skýrslu til að vekja upp umræðuna um aflögn Íbúðalánmasjóðs. Svo virðist sem enn séu til þingmenn sem hræðast vald frjármagnseigenda.
Alþingi skipaði þessa nefnd til að rannsaka Íbúðalánasjóð. Sérstaklega var nefndinni sett að rannsaka þær breytingar sem áttu sér stað 2004 og allt til ársins 2010. Skýrsluhöfundar fara þó öllu aftar í tímann og virðist vera sem þeir velji að stoppa fyrr, eða 2007. A.m.k. er mikið fjallað um þátt Framsóknar innan sjóðsins, en ekkert tekið á því að Samfylking tók yfir þann málaflokk og það ráðuneyti sem sjóðurinn heyrir undir, vorið 2007. Ekkert var gert af þáverandi félagsmálaráðherra til bóta fyrir sjóðinn né þeim sem á eftir henni hafa komið, ekki dregið úr hinni svokölluðu 90% reglu og ekki farið eftir varnarorðum innlendra sem erlendra spekinga. Það breyttist akkúrat ekkert þó annar stjórnmmálaflokkur væri kominn með Íbúðalánasjóð undir sínar hendur, allt fram til dagsins í dag. Núverandi félagsmálaráðherra hefur boðað breytingar og ætlar að nýta þessu skýrslu sér til hjálpar við það. Það vill svo til að hún kemur úr Framsóknarfokki.
Það var frekar ömurlegt að sjá hvernig fyrrverandi formaður VG lét í ræðustól Alþingis í gær. Það er ekki eins og sá maður hafi efni á að tala um óráðsíu eða meðferð opinbers fjárs. Nægir þar að nefna allar þá tugi milljarða sem hann sóaði í sparisjóðakerfið og hundruði milljarða sem hann færði erlendum vogunnarsjóðum á silfurfati, auk auðvitað þeim klafa sem hann barðist við að leggja á landsmenn í icesave málinu. Fleira ljótt má telja í um embættisfærslur þess manns og kannski tilefni til að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir þær allar. Það yrði sannarlega svört skýrsla.
Það fer enginn í grafgötur með það að þessi skýrsla um starfsemi Íbúðalánasjóð er svört, jafnvel þó vingsað sé úr henni pólitíska ofstækinu og rangfærslunum. Það má í raun segja að skýrslan endurvarpi það þjóðfélag fjármálaflanna sem hér ríkti fyrir hrun og víst er að sama hvaða fjármálastarfsemi yrði rannsökuð á því tímabili, niðurstaðan yrði alltaf svört, jafnvel enn svartari en þessi skýrsla. Við bíðum enn eftir að lífeyrissjóðir landsins verði rannsakaðir á sama hátt, m.a. hvernig á því stóð að yfir 500 milljarðar töpuðust úr þessum sjóðum. Þó Framsóknarflokkur eigi eingin ítök inn í lífeyrissjóðina, er ljóst að rannsókn á þeim mun leiða margt ljótt fram, mun ljótara en þessi skýrsla um Íbúðalánasjóð.
Nú mun koma í ljós hvernig þingmenn okkar eru innrættir. Þó skýrsluhöfundar hafi valið að kenna einum stjórnmálaflokk um og láta sem Alþingi hafi verið óstarfhæft, er ekki þar með sagt að þingmenn þurfi að taka þann pól í hæðina. Þeir geta valið að taka efnisinnihald skýrslunnar, það sem þykir ámælisvert í vinnubrögðum og ákvarðanatökum og vinna úr því. Geta valið að horfa til framtíðar í stað fortíðar.
Félagsmálaráðherra hefur kallað eftir samstarfi um endurbætur á Íbúðalánasjóð og ætlar m.a. að nýta efni þessarar skýrslu til þess. Það er þingmanna allra flokka að taka því boði. Þeir sem þekkjast það boð munu verða metnir af kjósendum, en þeir sem velja að nota þessa skýrslu til skítkasts á Alþingi og í fjölmiðlum, munu verða minni menn. Af skítkasti á þeim vettvangi höfum við fengið nóg.
Eitt verður þó að minnast á í sambandi við þessa skyrslu en það er þáttur fjölmiðla. Fréttastofa RUV hefur verið óvenju hógvær um pólitískan þátt skýrslunnar, hefur haldið sig meira við efnisatriðin. Það sama verður ekki sagt um fréttastofu 365 miðla. Þar á bæ er valinn fréttamaður sem aldrei hefur getað haldið aftur af sér þegar kemur að málefnum sem hægt er að tengja Framsóknarflokki. Grímulaus viðbjóður mannsins á þeim flokki er skýr og nú fer hann hamförum í sínum svokallaða fréttaflutningi um þessa skýrslu. Hann lætur alveg vera að ræða um efnisinnihald skýrslunnar en fer mörgum orðum um Framsóknarflokkinn, jafnvel svo að hann er oft kominn langt út fyrir efni fréttarinnar í þeim flutningi. Það læðist að manni sá grunur að að þessi fréttamaður sé í uppáhaldi hjá yfirmanni þróunnarverkefna 365 miðla.
Lærum af fortíðinni og horfum til framtíðar. Það er engin ástæða til að taka upp vinnubrögð miðalda. Nornaveiðar og glaldrabrennur eiga að heyra sögunni til.
Árni Páll taldi lánin vera lögleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð grein hjá þér Gunnar og gott innlegg í umræðuna. Sérstaklega umfjöllun þín um raunsanna lýsingu á tilurð og framkvæmd "90%" lánanna. Skýrslan og umfjöllun um hana er greinilega ekki gallalaus þótt margt megi af henni læra. Í þessum annars ágætu skrifum þínum hefði ég hins vegar sleppt því að kasta Steingrími á brennuna þótt hann hafi farið mikinn í gær.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 4.7.2013 kl. 10:02
Ég var ekki að kasta Seingrím á bálið Snorri, heldur nefndi hann sem dæmi um hvernig sumir, sem síst hafa efni á, taka þessari skýrslu. Ætla mætti af málflutningi hans að hann telji sig fuglinn Fönix, en í raun er hann sama öskuhrúgan og eftir síðustu kosningar. Steingrímur hefði betur, sjálfs sín vegna, hætt í pólitík eftir síðasta kjörtímabil. Verk hans munu seint eða aldrei gleymast.
Og það er kannski það sem hellst mætti læra af þessari skýrslu um Íbúðalánasjóð, að þeir stjórnmálamenn sem ekki standa sig í stykkinu yfirgefi völlinn og hleypi öðrum að.
Gunnar Heiðarsson, 4.7.2013 kl. 12:53
Frábær pistill Gunnar - gott og raunsætt inlegg.
Svolítið til í þessu hjá Snorra kl. 10.02 með Steingrím blessaðan. Líklega hefði þó hann betur verið í felum svolítið lengur og ekki barið svona mikið í púltið eins og í gær. Hann hefur ekki efni á því.
Eftir lestur pistla og athugasemda um þetta mál í dag og þ.á.m. hlut Árna Páls þá er afar athyglisvert að sjá þá sömu og gangnrýnt hafa Bjarna Benediktsson fyrir að hafa tekið þátt í lífinu fyrir setu á Alþingi verja Árna Pál með kjafti og klóm.
Skrýtin tík pólitík.
Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2013 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.