Hugsanaskekkja borgarfulltrúa

Enn á ný er tilvera Reykjavíkurflugvallar í hættu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem völlurinn hefur verið bitbein manna, en sennilega er tilvera hans nú komin í meiri hættu en nokkkurntímann áður.

Ég hef áður skrifað um þá staðreynd að völlurinn er eign allra landsmanna, á landi í eigu allra landsmann og því ákvörðun allra landsmanna um hans tilveru, ekki eins sveitarfélags.

Ég hef áður ritað um það að áður en ákvörðun um brottflutning mannvirkis eins og heils flugvallar er tekin, þarf að liggja skýrt fyrir hvert sú starfsemi sem þar er, á að færast og með hvaða hætti hægt er að halda uppi sömu þjónustu. Enn er langt í land með að þessar upplýsingar liggi fyrir.

Ég hef áður velt upp þeirri spurningu hver skuli kosta flutning þeirrar starfsemi sem á vellinu er og byggingu nýs vallar, ef þess þarf. Þar hlýtur Reykjavíkurborg að þurfa að koma að málum. Jafnvel þó sæst yrði á að flytja starfsemina til Keflavíkur og spara þannig byggingu nýs flugvallar, þarf mikla uppbyggingu þar til að taka við allri seirri starfsemi sem á Reykjavíkurflugvelli er, auk þess sem samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur þurfa að batna mikið. Jafnvel þarf að fjölga enn akbrautum milli þessara staða en nú er, til að taka þá auknu umferð sem hlýst af því að flytja alla þessa starfsemi þangað.

Því ætla ég ekki að skrifa neitt um þessa þætti núna, heldur þá hugsanaskekkju og rökvillu sem felst í rökum borgarfulltrúa fyrir flutningi vallarins burt úr Vatnsmýrinni.

Þétting byggðar, minni umferð vegna nálægðar við vinnustað og einhver óskilgetin hagræn áhrif, eru hellstu rökin.

Um hagrænu áhrifin vil ég ekki ræða, enda þar persónulegt mat einhverra einstaklinga sem vilja þetta verkefni á koppinn.

Þétting byggðar er vissulega rök. Það er hins vegar spurning hvort þétting byggðar með því að fórna innanlandsflugi er réttlætanleg. Það er spurning hvort þétting byggðar eigi rétt á sér á kostnað öryggis landsmanna. Þétting byggðar getur átt sér stað víða innan borgarmarkanna, þ.e. ef menn vilja vera svo vænir að viðurkenna að Reykjavíkurborg er ekki bara kvosin og vestasti hluti Reykjavíkur. Menn gleyma kannski þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg nær alla leið inn í Hvalfjörð, að vísu skorin í sundur af Mosfellsbæ, en engu að síður er allt Kjalarnesið hluti Reykjavíkur. Byggingarland er því nægt. En ef menn eru nú raunsæir og tala um borgina eins og mesta byggð hennar er í dag, má segja að frá Úlfarsfelli vestur til Seltjarnarness, milli Kópavogs og Mosfellsbæjar, sé hin eiginlega Reykjavíkurborg. Innan þessa svæðis er nægt byggingaland til að taka við allri þeirri uppbyggingu sem tillaga að nýju skipulagi telur þurfa, þó Vatnsmýrin sé látin í friði.

Þegar gagnrýnt er að bygging Vatnsmýrinnar leið af sér umferðaröngþveiti, koma þau rök á móti að styttra sé til vinnu hjá þeim sem hugsanlega munu eiga heima í þessari fyrirhuguðu byggð í Vatnsmýrinni. Vissulega mun slík uppbygging sem sumir sjá fyrir sér í Vatnsmýrinni kalla á ýmis þjónustustörf á svæðinu, mun sjálfsagt auka atvinnu á svæðinu eitthvað. Það er þó atvinna sem mun myndast hvar sem slík uppbygging fer fram, aukinn fólksfjöldi kallar á aukna þjónustu. Þau störf þurfa ekki að vera bundin Vatnsmýrinni, heldur geta orðið til hvar sem er á landinu.

Það vaknar hins vegar upp sú spuning hvort borgarfulltrúar ætla að skipa fólki hvar það skal vinna, eða skipa því hvar það býr. Að allir verði að finna sér atvinnu sem næst sínu heimili, eða heimili næst sinni vinnu. Það er ljóst að á flestum heimilum eru báðir foreldrar útivinnandi og spurning hvort borgarfulltrúar ætla sér að skilja hjón að, ef þau ekki uppfylla þessi skilyrði.

Staðreyndin er oft önnur en það sem menn setja niður á blað. Það er staðreynd að atvinnustarfsemi innan Reykjavíkur er ekki bara í miðborginni, þó hellstu stjórnsýslustofnanir og háskólar séu þar. Hin eiginlega starfsemi er minnst á þessu svæði, heldur mun austar innan borgarmarkanna. Vestasti hlutu borgarinnar og miðborgin hýsir fyrst og fremst þjónustustarfsemi. Staðreyndin er sú að fólk velur sér íbúð þar sem það helst vill búa, atvinnu sækir það svo þar sem það fær sín notið, launalega og hugsjónalega séð. Þarna á milli er sjaldnast einhver strengur. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að Reykjavík er ekki eyland, heldur hluti mun stærra svæðis sem inniheldur Mosfellsbæ, Kópavog, Garðabæ, Hafnafjörð, Seltjarnanes auk Reykjavíkur. Eru borgarfulltrúar kannski að boða að Reykvíkingar einir megi vinna í Reykjavík og hvergi annarstaðar?

Það er því borðleggjandi staðreynd að uppbygging nokkurþúsund manna byggðar í Vatnsmýrinni mun kalla á stóraukna umferð gegnum borgina og næg er hún þegar. Þegar svo í þessu sama skipulagi er gert ráð fyrir því að engin frekari uppbygging verði í mislægum gatnamótum á hellstu umferðaræðum borgarinnar, ættu flestir að sjá að þarna stefnir í hamfarir í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar. Skipulagshamfarir sem útilokað er að sjá fyrir endann á.

Hugsanaskekkja borgarfulltrúa er með ólíkindum og vandséð hvað drífur þá áfram í þessu rugli. Það hvarflar óneitanlega að manni að eitthvað óhreint liggi að baki, ekki er það skynsemi sem ræður för þessa fólks, svo mikið er víst.


mbl.is Fagna tillögu að aðalskipulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Svo ekki sé nú minnst á sjúkraflugið. Viljum við virkilega lengja enn þann tíma sem það tekur að koma veikum löndum okkar á landsbyggðinni á besta sjúkrahús landsins? Flutningur vallarins er ekki einkamál Reykvíkinga.

Ef flugvöllurinn verður fluttur til kef og þegar einhver deyr vegna aukins tíma sem tekur að koma viðkomandi undir læknishendur þarf að vera hægt að setja borgarfulltrúana sem þessa vitleysu samþykkja í grjótið fyrir manndráp af gáleysi.

Ég man að ég var tiltölulega jákvæður á flutning vallarins þar til ég heyrði einhvern nefna það sem ég sagði að ofan. Þar með dó málið í huga mér.

Helgi (IP-tala skráð) 7.6.2013 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband