Árni áttar sig ekki enn á tapinu
2.6.2013 | 08:53
Það getur verið sárt að tapa í lýðræðislegri kosningu. Að hljóta algert afhroð hlýtur að vera óbærilegt. Þetta má Árni Páll þola, kall greyið.
Þeir sem lenda í slíkum hrakningum leit yfirleitt skýringa, svo koma megi í veg fyrir að leikurinn endurtaki sig. Flestum dugir nokkrir dagar, mesta lagi örfáar vikur til að finna sök. Nú hefur Árni Páll legið undir feldi í rúman mánuð og er engu nær um ástæður þessa skelfilega taps sem flokkur hans hlaut. Hann er enn í sömu sporum og daginn eftir kosningar og litlar líkur á að honum takist úr þessu að átta sig á sannleikanum. Enn talar hann niður til þjóðarinnar, eins og hún sé skilningvana og taki hans orð trúanleg. Meiri líkur en minni eru á því að dagar Samfylkingar séu taldir, að kratar þessa lands muni sameinast undir öðrum merki.
Árni Páll segir að flokkur hans og hann sjálfur hafi ekki áttað sig skuldavanda heimila. Þetta er þungur dómur yfir eiginn flokki, sem hefur verið í ríkisstjórn síðustu sex ár og þungur dómur yfir þá ráðherra sem með málefni fjölskyldna landsins hafa farið þann tíma. Hann segir í raun að ráðherrar Samfylkingar hafi ekki verið starfi sínu vaxnir og vissulega má taka undir þau orð.
Þá telur Árni Páll að fylgistap Samfylkingar hafi farið til Framsóknar. Þetta er einstaklega undarleg skýring. Fyrir það fyrsta eru fáir Framsóknarmenn sem vilja láta tengja sig við krata og þetta sjónarmið er gagnkvæmt. Þó stefna þessara flokka sé að miklu leiti svipuð, enda telja báðir sig á miðju hins pólitíska litrófs, eru nokkur grundvallarmál sem skilja þessa tvo flokka að, mál sem gera hvorum um sig útilokað að kjósa hinn. Því má með sanni segja að eins langt sé milli Framsóknar og flokks krata, eins og milli Sjálfstæðisflokks og flokks kommúnista. Enda hefur hellsti andstæðingur Samfylkingar og þar áður Alþýðuflokks, verið Framsóknarflokkur.
En fylgistap Samfylkingar var mikið, reyndar Íslandsmet og sennilega heimsmet fyrir flokk sem var í ríkisstjórn. Eitthvað fór þetta fylgi. Árni Páll ætti að líta sér nær þegar hann leitar þessa. Systurflokkur Samfylkingar og einskonar afsprengi hennar, Björt Framtíð, fékk sannarlega mest af sínu fylgi frá Samfylkingu. Sameiginlega voru þessir flokkar með um 21% fylgi og reikna má með að þar sé kratafylgið upp talið. Smáframboðin sum hver gætu einnig haft einhverja krata innan sinna vébanda. Fylgi Framsóknar kom annarsstaðar frá, það má sannarlega sjá ef skoðanankannanir eru skoðaðar og hvernig fylgið breytist í þeim.
Þá leiðir Árni Páll líkum að því að upplifun þjóðarinnar af verkum Samfylkingar hafi verið eitthvað önnur en rétt hefði verið. Þarna fer hann með eina bábyljuna enn. Vissulega upplifði fólk margt frá stjórn Jóhönnu, en fyrst og fremst horfði þjóðin berum augum á þessi verk og verkleysi. Icesave málið var einungis eitt af mörgum málum þar sem ríkisstjórn Jóhönnu gekk fram af fólki, fjölda mála mætti telja upp þar sem viðbjóður almennings á verkum fyrrum stjórnvalda opinberaðist. Ekki voru öll verk Árna Páls sjáfs til eftirbreytni, meðan hann vermdi stól ráðherra og löglaus lagasetning sennilega þeirra eftirminnilegust, lagasetning sem átti að treyst fjármagnsstofnanir á kostanð almennings.
Árni Páll telur Samfylkingu hafa færst of mikið til vinstri á síðasta kjörtímabili. Það má endalaust rökræða vinstri og hægri í pólitík, en vart er hægt að segja að verk þessarar fyrstu og vonandi einu "tæru vinstristjórnar" hafi verið í átt við það sem flestir telja hefðbundna vinstripólitík. Vissulega má segja að stöðnun atvinnulífs og höft á það auk óendanlegrar hugmyndaauðgi í skattlagningu sé merki um vinstristjórn. En þar með er það upptalið. Þjónkun ríkisstjórnar Jóhönnu við fjármálaöflin var meiri en nokkur hægriflokkur gæti nokkurntímann látið sig dreyma um. Þar var ekki skirrst við að ráðast gegn öldruðum og öllum þeim sem minnst máttu sín, til þess eins að seðja hungur fjármálaaflanna. Þar fóru ráðherrar Samfylkingar í fararbroddi, með fyrrverandi formann VG sér við hlið. Því er fráleitt að segja að Samfylking hafi færst of langt til vinstri, mikið frekar hægt að segja að þessi flokkur hafi fært sig hægra meginn við hörðust hægrisinna landsins.
Það ber vissulega að fagna því að Árni Páll sé loks búinn að átta sig á vanda heimila landsins. Sú yfirlýsing hans að hann, og þá væntanlega flokkur hans, ætli að vera ríkisstjórninni innanhandar við afgreiðslu á leiðréttingum lána er enn frekara fagnaðarefni. Árni áttar sig kannski á því, einhverntímann í framtíðinni, að honum barst tækifæri til að láta sjálfur til skarar skríða í þessu máli, hafði rúm fjögur ár til þess, en gerði ekki neitt. En fagna ber því sem gott er og það er vissulega gott að Samfylkingin ætli nú loks að snúa sér að lausn hins raunverulega vanda sem að þjóðinni snýr og taka þannig höndum saman með stjórnvöldum.
Það er rétt að halda því til haga að ríkisstjórn Jóhönnu gaf þjóðinni loforð um að standa vörð þeirra sem minnst mega sín og verja heimili landsins. Þetta mistókst algjörlega, reyndar öll verk stjórnvalda á síðasta kjörtímabili gagnvart þessum hópum á þann veg að hagur þess versnaði. Það er vonandi að þingmönnum Samfylkingar gangi betur að standa þennan vörð í stjórnarandstöðu og vissulega má fagna orðum Árna Páls í þá veru. Í raun þarf Samfylking lítið að gera til þess annað en fylgja núverandi stjórnvöldum að málum.
Áttuðum okkur ekki á skuldavanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Árni Páll byggir það sem hann segir á tölum í skoðanakönnun, sem sýna að fleiri fyrrum kjósendur Samfylkingar fóru yfir til Framsóknar en til Bjartrar framtíðar.
Einn stærsti hluti íslenskra kjósenda eru nefnilega miðjufólk, fólk sem hér áður fyrr kaus Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum þótt það kysi "vinstri flokka" eða Framsóknarflokkinn í Alþingiskosningum.
Ómar Ragnarsson, 2.6.2013 kl. 14:33
Það er auðvitað útilokað að segja, svo óyggjandi sé, hvaðan fylgi kemur eða fer, sérstaklega þegar sveiflan verður jafn stór og í síðustu kosningum.
Þó liggur fyrir að fylgi Framsóknar sveiflaðist í takt við fylgi Sjálfstæðisflokks, meðan fylgi Samfylkingar sveiflaðist í takt við fylgi BF. Að vísu varð smá skekkja þar þegar smáframboðin fóru að koma fram, þá jókst tap Samfylkingar heldur meira.
Þetta er auðvelt að sjá með því að skoða fylgiskannanir Capacent, en þær eru vel aðgengilegar.
Gunnar Heiðarsson, 2.6.2013 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.