Viðskilnaður vinstristjórnar
16.5.2013 | 21:17
Fyrir kosningar þreyttust stjórnarliðar ekki á að lýsa yfir gífurlegum árangri í ríkisrekstrinum. Því var haldið fram að tekist hafi að loka fjárlagagatinu og að nú væri hægt að fara að skila aftur því sem af þjóðinni hafi verið tekið. Auðvitað var byrjað að leiðrétta launakjör þingmanna og ráðherra og það reyndar gert nokkru áður en fullyrðingar um að fjárlagagatinu hafi verið lokað, komu fram. Aldraðir og öryrkjar þurftu að bíða með sínar leiðréttingar, en þeim lofað að úr því yrði bætt eftir kosningar. Enda væri búið að loka fjárlagagatinu. Í krafti þessara fullyrðinga samþykktu ráðherrar ófáa kosningavíxlana, eftir að Alþingi hafði verið slitið. Kosningavíxla sem fellur í hlut nýrrar ríkisstjórnar að finna fjárframlög fyrir.
En þjóðin vissi betur og frambjóðendur stjórnarandstöðu vissu betur. Þetta kom skýrt fram í kosningunum, þar sem Íslandsmet, ef ekki heimsmet, var slegið í tapi stjórnarflokka í Alþingiskosningum.
Fyrir örfáum dögum ritaði fyrrverandi fjármálaráðherra harðort bréf í Financial Times, þar sem hann nánast sagði Íslendinga heimska, þeir sæju ekki hversu góð staða ríkissjóðs væri orðin og hversu mikill árangur hafi náðst. Þessi reiðiskrif hans hafa kannski ekki mikil áhrif á Íslendinga, enda vita þeir betur. Þarna endurtók hann sömu lygar og hann reyndi að halda fram fyrir kjósendum í undanfara kosninganna.
Nú kemur þessi ágæti maður, ásamt fleirum fráfarandi stjórnarliðum, m.a. fráfarandi fjármálaráðherra og segja að staða ríkissjóðs sé verulega slæm. Þetta hafi verið vitað fyrir kosningar og engum ætti að koma það á óvart. Staðreyndin er að þessar upplýsingar koma engum á óvart, nema kannski stjórnarliðum. Í það minnsta er hún í hróplegu ósamræmi við málflutning og gerðir ráðherrana fyrir kosningar.
Það sem er þó kostulegast við skrif og ummæli stjórnarliða, er að þeir telja ummæli Sigmundar Davíðs, um sannleikann, vera hans leið til að svíkja kosningaloforð. Þetta er fullyrt þó marg oft hafi komið fram að það sé einmitt vegna þessarar alvarlegu stöðu sem svo nauðsynlegt er að standa við loforð um leiðréttingu þeirrar óhæfu sem fráfarandi stjórnvöld hafa lagt á almenning. Þetta er fullyrt þó enn sé enginn stjórnarsáttmáli á borðinu. Það er hverjum degi sannara að margur heldur mig sig. Fáir hafa jafn mikla reynnslu á sviði svika við kjósendur og fráfarandi stjórnarliðar.
Hitt má vissulega gleðjast yfir, að fráfarandi ríkisstjórn skuli nú viðurkenna vangetu sína, skuli viðurkenna að staða ríkissjóðs sé vægast sagt slæm. Vissulega hefði verið skemmtilegra að fá þá viðurkenningu fyrir kosningar, en betra er seint en aldrei.
Segir viðbrögðin undarleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.