Gleðilegann kosningadag
27.4.2013 | 09:52
Í dag er lýðræðið virkt hjá okkur og þjóðin fær að velja þá sem það helst treystir til að stjórna landinu næstu fjögur árin. Sumir verða svekktir og sárir að lokinni talningu, en aðrir kátir og glaðir.
Þessi kosningabarátta hefur verið nokkuð sérstök. Gífurlegur fjöldi framboða og í raun tíðindalítil barátta. Þó hefur skyggt á hversu margir hafa stundað þann leiða sið að ráðast gegn persónum í stað málefna og einnig hversu sumir hafa lagt mikla áherslu á að ræða hvernig stjórnað var hér á árum áður. Einnig hefur vantað samtal milli frambjóðenda, eintal þáttastjórnenda við frambjöðendur skila litlu og lítt skemmtilegt.
Í kosningum á að gera upp síðasta kjórtímabil og hvað betur megi fara. Horfa lítillega um öxl en einblýna fram á veg. Því á það kjörtímabil sem er að ljúka að vera að mestu uppgert eftir kosningar og að fullu uppgert þegar líður að næstu kosningum. Kosningabaráttan á ekki að snúast um eldri kjörtímabil. Það er því líðandi kjörtímabil og sýn á framtíðina sem skiptir máli þegar fólk gengur inn í kjörklefann.
Þann gífurlega fjölda framboða hafa stjórnmálaskýrendur talið stafa af vilja þjóðarinnar til breytinga. Samt er það svo að fæst þessara nýju framboða nær athygli almennings. Því má ætla að að ástæðan liggi kannski frekar í offramboði þeirra sem vilja komast til valda, frekar en vilja þjóðarinnar til breytinga.
Ekki hefur vantað upp á loforðaflauminn frá þessum nýju framboðum. Kannski að það hái þeim að þau eru mörg föst í einhverjum einnarstefnumálum. Hægri grænir hafa þó verið með viðamikla stefnuskrá, mjög vel gerða. Þó hefur það framboð ekki náð að heilla kjósendur.
Það málefni sem öðrum fremur hefur verið rætt í þessari kosningabaráttu er vandi heimila landsins. Sitt sýnist hverjum og eins og sumir flokkar átti sig ekki á hversu víðtækur sá vandi er og hvaða afleiðingar það hefur ef ekkert er að gert. Heimilin eru grunnur þjóðarinnar og ef þau eru látin afskiptalaus með sinn vanda, mun aldrei vera hægt að byggja upp þjóðfélagið. Forsenda alls er að heimili landsins geti rekið sig, það eitt getur stuðlað að sátt, annað fylgir á eftir.
Lýðræðið er dýrmætt og alls ekki sjálfsagt. Því er mikilvægt að þjóðin sýni það í verki að henni er annt um lýðræðið. Mætið á kjörstað, hvaða stefnu sem þið aðhyllist. Jafnvel þeir sem ekki geta hugsað sér að kjósa neitt af því sem er í boði eiga að mæta á kjörstað og skila auðu. Mæting í lýðræðislegar kosningar er mælikvarðinn á hversu annt fólki er um lýðræðið.
Gleðilegann kosningadag!
Landsmenn ganga að kjörborðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.