Þoka á Kögunarhól Þorsteins

Ekki er ég í náðinni hjá Jón Ásgeir, fæ ekki Fréttablaðið inn um bréfalúguna á hverjum morgni, eins og íbúar stór-Reykjavíkur svæðisins. Þó bý ég einungis örstutt frá borgarmörkuðunum, í þeim bæ sem Ingibjörg Sólrún hafði í flimtingum með að hún ætlaði að leggja undir borgina, þegar gatið undir Hvalfjörðinn var opnað.

En ég þarf þó ekki að örvænta, tengdafaðir minn fer hvern morgun í heilsubótagöngu og grípur eintak handa mér í leiðinni. Ekki að ég sé sérstaklega hrifinn af þessu blaði, þykir það í festum tilfellum frekar leiðinlegt og ekki alltaf sem ég nenni að fletta því. En það er þó einn dag vikunnar sem ég bíð spenntur eftir að sá gamli komi úr sinni morgungöngu, það er á laugardögum. Þá er blaðinu tekið opnum örmun og strax flett upp á þeirri síðu sem inniheldur leiðarann. Við hlið hans, neðanvið skopmyndina, má á hverjum laugardegi finna afrakstur ferðar Þorsteins Pálssonar upp á sinn Kögunarhól. Svo var einnig þessa helgi.

En nú bar brátt við, engu líkara en svarta þoka hafi verið á hólnum hans Þorsteins. Hann fjallar um Sjálfstæðisflokkinn og gagnrýnir forusta hans nokkuð. Ekki ætla ég að agnúast út í Þorstein þó hann gagnrýni stjórnun síns gamla flokk. Hann, sem fyrrverandi formaður þess flokks hefur margfallt meiri heimild til slíkrar gagnrýni en ég, sem aldrei hef gefið þessum flokk mitt atkvæði.

Inn í þessa gagnrýni sína fléttar Þorsteinn icesave málinu, enda má segja að formaðurinn hafi sýnt verulegan dómgreindarbrest í því máli. Ekki beindist þó gagnrýni Þorsteins að þeim þætti icesavemálsins, heldur fremur að lesa mætti aðdáun hans á þeirri framgöngu formannsins.

Það var þó við lestur þennan hluta greinar Þorsteins, sem maður áttaði sig á því að þokan hafi verið virkilega svört upp á Kögunarhólnum. Tvennt er það sem Þorsteinn segir sem staðfestir þetta. Það fyrra þegar hann ræðir um kosningu þjóðarinnar um icesave og hitt um stöðu þess máls.

Þorsteinn heldur því fram að ríkisstjórnin hafi lærbrotið sig á báðum, eftir að þjóðin hafi fellt fyrstu tvo samningana, en Sjálfstæðisflokkur sýnt samstöðu og jafnvel kjark þegar síðasti samningurinn var gerður. Nú ættu allir að muna að þjóðin fékk enga aðkomu að fysta samningnum, heldur var kosið um þann sem kom þar á eftir og þann síðasta. Þeir voru báðir felldir af þjóðinni.  Það er nokkuð merkilegt að maður sem er í samninganefnd Íslands gegn ESB, skuli ruglast svona heiftarlega á jafn einföldu máli. Skuli ekki sjá að hans gamli flokkur lærbrotnaði einnig, eins og ríkisstjórnin.

Hitt, um stöðu málsins. Enn kallar Þorsteinn þetta "skuld" þjóðarinnar, jafnvel þó þegar hafi fallið dómur EFTA dómstólsins um að svo sé ekki. Hann fullyrðir að þegar þjóðin felldi icesave III hafi þessi "skuld" ekkert breyst, hún væri jafn há eftir sem áður. Þetta ítrekar hann svo síðar þegar hann ræðir um dóm EFTA dómstólsins, segir að hann hafi heldur engu breitt um þess "skuld" þjóðarinnar.

Við skulum alveg sleppa umræðu um þann kostnað og þá áhættu sem Svavarssamningurinn hefði lagt á þjóðina, við skulum einnig sleppa umræðu um kostnaðinn af icesave II hefði lagt á okkur. Tökum einungis þann kostnað sem icesave III hefði lagt á okkur, samninginn sem ríkisstjórnin naut aðstoðar og hylli Sjálfstæðisflokksins, með.. Þegar þjóðin hafnaði þeim samning lá ekki fyrir hver endanlegur kosnaður af honum gæti orðið og enn er sú tala á reiki, sumir tala um að þar hefði lokaupphæð getað orðið 350 milljarðar, sem beint félli á ríkissjóð. Þetta er þó getgáta.

Hitt liggur fyrir að ef þjóðin hefði samþykkt þennan samning væri nú þegar búið að leggja fram yfir 65 milljarða í erlendum gjaldeyri til Breta og Hollendinga. 65 milljarðar er stór upphæð, sérstaklega þegar ljóst er að þann pening hefði þurft að taka að láni erlendis. Þetta jafngildir tveim loðnuvertíðum, eða því sem næst!

Það er því fjarri lagi hjá Þorsteini að þessi "skuld" þjóðarinnar sé jöfn eftir að þjóðin felldi þennan samning og EFTA dómstóllinn felldi sinn dóm. Hún er a.m.k. 65 milljörðum lægri. Það sem þó skiptir mestu máli í þessu sambandi er að ef þjóðin hefði samþykkt samninginn, hefði EFTA ekki fellt neinn dóm og þá mætti ég ekki hafa orðið skuld í þessum pistli innan gæsalappa. Þá væri þessi krafa orðin skuld, viðurkennd af þjóðinni.

Það er ljóst að þokan hefur verið ansi svört upp á Kögunarhól Þorsteins Pálsonar, þegar hann gekk þar upp síðast. Það má þó þakka að hann skuli hafa álpast aftur til byggða, að þokan hafi ekki dregið hann í ófærur. Það er því enn hægt að láta sér hlakka til laugardagsmorgnanna!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband