Forstjórinn og ljósahundurinn hans
21.3.2013 | 18:56
Hvað veldur því að forstjóri Landsvirkjunnar hleypur fram með slíkar fullyrðingar? Enn hafa engar raunverulegar rannsóknir farið fram um þetta efni, einungis getgátur og draumsýn sem ræður för. Það má vera að forstjórinn sé svo trúgjarn að hann virkilega trúir þessu bulli.
Staðreyndir liggja ekki enn fyrir um verkefni sem þetta. Ljóst er þó að ekki er enn til tækni til að leggja ljósahund á það dýpi sem er milli Íslands og annara landa, auk þess sem fjarlægðin er talin utan hins gerlega á þessu sviði. Orkutap um hundinn mun óneitanlega verða nokkuð mikið og eins víst að sú tala sem forstjórinn nefnir sem ónýtta orku í kerfinu (15 - 20 milljarðar), muni teljast lág í þeim samanburði.
Tenging okkar rafkerfis við Evrópu mun sannarlega hækka orkuverð hér á landi, um þetta er ekki deilt. Hversu mikið liggur ekki fyrir og því út í hött að forstjórinn geti fullyrt að það muni ekki ógna íslensku atvinnulífi. Auk þess sem orkuverð muni hækka vegna kostnaðar og samkeppni, liggur fyrir að með slíkri tengingu við Evrópu, mun orkuverð einnig hækka vegna reglugerðna ESB og EES. Þetta hafa Norðmenn reynt.
Forstjórinn fullyrðir að ljósahundur til Bretlands muni ekki ógna stóriðjufyrirtækjum hér á landi. Orkuverð í Noregi hefur hækkað verulega frá því slíkur ljósahundur var lagður þaðan til meginlands Evrópu. Þó var verðmunur orku í Noregi miðað við t.d. Hollandi og Þýskalandi mun minni en orkuverð hér á landi miðað við Bretland. Sú hækkun sem orðið hefur á orku í Noregi hefur þó þegar valdið því að þar er verið að loka hverju stóriðjufyrirtækinu af öðru og flytja starfsemi þeirra annað, oftast til austurlanda. Menn geta auðvitað haft misjafnar hugmyndir til stóriðjunnar hér á landi og sumir sem ekki gráta þó hún hyrfi. Fyrir þær þúsundir landsmanna sem eiga afkomu sína beint og óbeint af þessari starfsemi hlýtur þó að hríslast kuldahrollur. Í þessu sambandi er hægt að benda á Grundartangasvæðið, með sín tvö stóriðjufyrirtæki. Í tengslum við þessi tvö fyrirtæki starfa nú á svæðinu langt á annan tug þjónustufyrirtækja, sem þjóna þessi tvö fyrirtæki beint og eiga sína tilveru alfarið undir rekstri þeirra. Þá er ótalinn allur sá fjöldi fyrirtækja og þjónustuaðila sem þjónar stóriðjuna óbeint, fyrirtæki sem myndu skerðast verulega við fall hennar.
Vel má vera að einhverjir verkfræðingar og spámenn fái aukna vinnu við lagningu slíks ljósahunds, en það er einungis meðan á hönnun og framkvæmd stendur. Eftir það geta þessir fræðingar borað í nef sér eftir æti. Hitt er annað mál að sjáanlegt er að nokkur fjöldi fær vinnu við stíflugerðir og borvinnu og að sá fjöldi mun hafa vinnu við það þar til allar auðlindir landsins hafa verið virkjaðar, kannski næstu 15 - 20 ár. Hvort þessi fjöldi nær að dekka þann fjölda sem missir sína vinnu eftir að stóriðjan hefur lagt upp laupana, skal ósagt látið. Líklegra er þó að sá fjöldi starfa sem til fellur vegna virkjanastarfsemi muni að mestu vera mannaður með innfluttu mannafli.
Að ætla að framleiða rafmagn með vindmillum til að senda um ljósahund þvert yfir hafið, er einhver fábjánalegast hugmynd sem nokkrum manni hefur dottið í hug. Vindurinn fer ekki í landgreinarálit, heldur blæs um allan heim. Því hlýtur alltaf að vera hagkvæmast að virkja hann sem næst þeim stað sem orkan er notuð. Vera má að einhver betri nýting sé af vindmillum á Íslandi versus meginland Evrópu, að hugsanlega sé nýtingin hér nær 30%, í stað um 25% þar. Eftir sem áður er þessi framleiðsla margfallt dýrari en vatns- eða jarðhitaafl. Hugsanlegt er þó að neytendur á meginlandi Evrópu séu tilbúnir til að greiða eitthvað meira fyrir slíka orku, gegn því að losna við þessa vindmilluskóga úr eigin landi, að þeir horfi til víðátti íslenskra öræfa sem tilvalinn stað fyrir slíka vindmilluskóga.
Eins og áður segir liggja ekki fyrir neinar rannsóknir fyrir fullyrðingum forstjórans. Það sem að ofan er talið eru einungis augljósar staðreyndir, byggðar á því sem er þegar þekkt. Ekki liggur enn fyrir hvort eða hvenær tæknin leyfir slíkann ljóshund milli Íslands og Bretlands, ekki liggur fyrir hvert orkutapið á slíkum hund verður og ekki liggur fyrir hver rekstrarkostnaður hundsins verður, þegar tæknin leyfir lagningu hans.
Hitt er ljóst að eftir að að lagnins slíks ljósahunds er lokið og orka farin að streyma um hann, eru meiri líkur en minni á því að atvinnnulíf hér á landi muni verða fátækara. Það eru einnig meiri líkur en minni á því að krafan um aukna orkuöflun hér á landi mun verða sterk.
Þá er ljóst að eftir að orkan er farin að streyma um slíkann hund, mun verð hennar ekki verða ákveðið hér á landi, heldur af viðtakenda á hinum enda ljóshundsins. Þegar öll okkar egg verða komin í eina körfu munu viðtakendur hafa í hendi sér hversu varlega sú karfa er meðhöndluð. Þeir geta brotið öll eggin með einu handtaki.
Forstjórinn ætti að hafa vit á því að þegja, þar til hann hefur staðreyndir á hreinu til að rökstyðja sitt mál. Það er ekki boðlegt að í stóli forstjóra Landsvirkjunnar sitji maður sem lætur stjórnast að draumórum!!
Fjölbreytt og góð áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er náttúrulega bilun að ætla að hagkvæmasta leiðin til orkunýtingar sé að selja hanna úr landi sem hrávöru.
En það er þannig með Samfylkinga fólk að það er villt og villist í hverju málinu af öðru, enda er það algengt með villt fólk að það heldur áfram að villast.
Hrólfur Þ Hraundal, 21.3.2013 kl. 21:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.