Hvað ber í milli
14.3.2013 | 09:45
Framsóknarflokkur er á fljúgandi siglingu í skoðanakönnunum. En þetta eru einungis skoðanakannanir, það eru kosningarnar sem ráða og enn eru rúmar sex vikur til kosninga. Það er langur tími í pólitík og því útilokað að segja hvort þetta verði niðurstöður þeirra. Að tapa niður fylgi er auðvelt en að halda fylgi eða auka það, er aftur erfiðara.
Eins og staðan er í dag eru tveir stæðstu flokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Munurinn á milli þeirra er orðinn svo lítill að hann er vart marktækur og því ekki hægt að skera úr um hvor þeirra er stæðsti stjórnmálaflokkur landsins í dag. En þó þeir séu nú þeir tveir stæðstu, með yfir helmings fylgi kjósenda, er saga þeirra síðustu vikur ansi ólík. Annar hefur tapaðum þriðjungi þess fylgis sem hann hafði fyrir nokkrum vikum, meðan hinn hefur meir en tvöfaldað sitt fylgi, á sama tíma.
En hvað er það sem skilur þessa flokka að?
Báðir vilja draga aðildarumsóknina til baka og láta þjóðina ráða því hvort haldið skuli áfram á þeirri leið. Báðir vilja minnka skatta og einfalda skattkerfið. Báðir vilja að rekstrarumhverfi fyrirtækja verði bætt, svo hjól atvinnulífsins geti aftur komist í gang, með tilheyrandi atvinnu fyrir fólkið í landinu.
Annar flokkurinn leggur mikla áherslu á raunhæfar og nauðsynlegar aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum landsins, meðan hinn kemur fram með loðnar og nærri óhæfar tillögur í því sambandi. Sá flokkurinn sem setur heimilin í forgang hefur rúmlega tvöfaldað sitt fylgi, meðan hinn sem fer í kringum þennan vanda eins og köttur um heitann graut, hefur tapað nærri þriðjungi þess fylgis sem hann hafði fyrir einungis örfáum vikum síðan. Þarna liggur munurinn.
Um vinstri flokkana þarf vart að skrifa, þeir tapa allir og stjórnarflokkarnir mest. Nú er svo komið að tveir minnstu flokkarnir af þeim fimm stæðstu landsins eru með landsstjórnina í sínum höndum, hafa rétt um fjórðung fylgis þjóðarinnar að baki sér. Nokkuð er síðan litla Samfylking varð að stóru Samfylkingu og ekkert sem bendir til að því verði breytt til fyrra horfs. Barnið sem Samfylkingin gat af sér hefur vaxið henni yfir höfuð.
Eins og áður segir er þetta einungis skoðanakönnun og enn rúmar sex vikur til kosninga. Ef þróunin heldur áfram á sama veg og síðustu daga er ljóst að Framsókn mun verða stæðsti flokkurinn. Verra er að hugsanlega mun það þó ekki duga til að mynda meirihlutastjórn með Sjálfstæðisflokk, þar sem ekkert lát viðist á tapi hans.
Því gæti komið upp sú staða að Framsóknarflokkur verði leiðandi í næstu stjórnarmyndunarviðræðum og sá flokkur sem leggi línurnar í stjórnarsáttmálanum. Að aðrir flokkar verði að beygja sig undir þá kröfu Framsóknarflokks að aðildarumsókn verði dregin til baka og að farið verði í raunhæfar aðgerðir til hjálpar heimilum landsins.
En til að svo megi verða verða frambjóðendur Framsóknarflokks að passa sig. Ofmetnaður og dramb er hættulegt og vísasta leiðin til að glutra niður því sem byggt hefur verið upp. Þó skoðanakönnum gefi þeim góðar vonir, eru það kosningaranar sem ráða. Það eru atkvæðin sem talin verða upp úr kjörkössunum sem skipta máli.
Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.