"Pólitísk réttsýni"
13.3.2013 | 10:20
Þessari ríkisstjórn er misvel lagðar hendur. Hvert frumvarpið af öðru er afgreitt gegnum Alþingi, sum með hótunum. Svo mikill er asinn að oft eru þessi frumvörp illa unnin og oftar en ekki gleymist að gera ráð fyrir fjármagni til að gera þær breytingar sem hin nýju lög kalla eftir.
Eitt af fjölmörgum frumvörpum sem stjórnvöld hafa lagt fyrir Alþingi og eru þessu marki brend, er frumvarp umhverfisráðherra til nýrra náttúruverndarlaga.
Öll sú vinna sem í þetta frumvarp hefur verið lögð, viðtöl við hagsmunaaðila og margskonar nefndir sem stofnaðar hafa verið um þetta mál, hefur vissulega skilað miklu. En þegar upp er staðið kemur fram frumvarp sem til varð að mestu leyti í kolli ráðherra. Þar var "pólitísk réttsýni" látin ráða og allri samvinnunni og rannsóknunum hent í ruslið. Eftir stendur frumvarp sem allir eru óánægðir með nema auðvitað ráðherrann.
En það er ekki nóg með að öllum ráðleggingum og athugasemdum sé ýtt til hliðar, heldur gleymist alveg að gera ráð fyrir fjárveitingu til að byggja upp kortagrunn fyrir vegi og vegslóða. Þessi kortagrunnur er þó megin stefið varðandi akandi umferð um landið, í þessu frumvarpi!
Ef fjármagn væri til og allir legðut á eitt, væri hægt að gera þennan grunn á tveim árum og koma honum í framkvæmd. Það væri svo sem ekki alslæmt, þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um upptöku gagnagrunnsins. Því væri í sjálfu sér ekki alveg út í hött að samþykkja þetta sem lög nú, þó þau tækju ekki gildi fyrr en eftir tvö ár.
En fjármagnið vantar og ekkert hefur verið rætt við sveitarstjórnir um þeirra þátt, skipulagsbreytingarnar, sem frumvarpið kallar eftir. Því er séð að mun lengri tíma tekur að koma þessum lið til framkvæmda. Það er þó merkilegast við þetta allt að þessi kortagrunnur er í raun til, þó hann sé í mörgum pörtum. Að safna saman þeim upplýsingum sem þegar eru til og setja í einn gagnagrunn, tæki auðvitað mun skemmri tíma og væri margfallt ódýrara. En það má ekki. Þessi gögn eru að mestu leyti unnin af þeim sem hafa verið að ferðast um landið á vélknúnum farartækjum og í augum ráðherra er því fólk sýst treystandi. Fyrir henni eru þar einungis hryðjuverkafólk á ferð. Því þarf að finna aftur upp hjólið, með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.
Skipulagsmál eru á hendi sveitarfélaga og það er þeirra að ákveða hvaða vegslóðar teljast hæfir og réttækir fyrir ferðafólk. Því verða þau að breyta sínum skipulögum og setja þessar upplýsingar þar inn, eftir að "hinn eini sanni" gagnagrunnur liggur fyrir. Ekki hefur sveitarfélögum gengið of vel að fá sín skipulög samþykkt og oftar en ekki hefur það tekið langann tíma, svo árum skiptir í sumum tilfellum. Hellsta töf þess að sveitarfélög hafa fengið þessi skipulög sín samþykkt, hefur verið í umhverfisráðuneytinu!
Utanvegaakstur á auðvitað aldrei að líða og lög okkar banna slíkt framferði. Ástæða þess að erfitt er að ná tökum á þessum vanda er ekki léleg lagasetning, heldur fjárskortur lögreglu. Hún hefur einfaldlega ekki bolmagn til sinna þessu eftirliti. Ekkert er gert ráð fyrir því í þessum lögum að bæta þann vanda.
En við skulum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að flestir vegir, sérstaklega fyrr á tímum, er komnir til vegna utanvegaaksturs. Enginn vegur var yfir Sprengisand árið 1933, þegar fyrsta farartækið á hjólum fór þar yfir, að vísu reiðhjól og ferðamaðurinn var Horace Edward Stafford Dal, eða árið eftir þegar fjórir íslendingar fóru á Ford '25 norður Sprengisand, fyrstir á vélknúnu farartæki. Þessir menn óku vissulega utanvega. Þeir eru þó taldir til frumherja í dag. Það liðu síðan nokkur ár áður en aftur var reynt að fara þessa leið, eftir að herinn hafði flutt hingað jeppa með drifi á öllum hjólum. Þar á ferð var Páll Arason, ferðafrömuður. Hans ferð var utanvega. Loks þegar hinn mikli fjallabílstjóri Guðmundur Jónasson fann akfært vað yfir Tungná, sem var í raun eini farartálminn á þessari leið, að stærri og öflugri jeppar komust yfir Sprengisand. Vissulega ók Guðmundur oft utanvega og enginn sem vill tengja hans nafn við náttúruhryðjuverk, frekar nefndur sem meiri frumkvöðull í ferðamennsku. Þegar bílkláfurinn yfir ánna kom, 1964, var orðið fært fyrir minni jeppa þessa leið. Þá hafði þegar verið það mikil umferð yfir sprengisandinn, í nokkur ár þar á undan, að vísir að vegslóða var kominn þessa leið. Því má kannski segja að þeir sem fóru yfir Sprengisand eftir þetta hafi ekið eftir vegi, ekki utanvega.
Svipaða sögu væri hægt að segja um flesta vegi á hálendinu og marga vegi í byggð einnig. Þeir urðu til vegna utanvegaaksturs og þeir sem þann utanvegaakstur stunduðu er taldir til frumherja og margir mikils metnir. En ekki meir um söguna.
Það er ljóst að frumhlaup stjórnvalda í þessu frumvarpi er mikið. Ætt er af stað með illa unnið verk og það lagt fyrir Alþingi. Ekkert er skoðað hver áhrif þess eru né hlustað á gagnrýnisraddir. Ekki er skoðað hvað þarf að breyta í stjórnkerfinu vegna þeirra og litlu sem engu fjármagni ætlað til þess verks. Sveitarfélög eru ekki höfð með í ráðum og ekkert gert til að liðka fyrir skipulagsbreytingum þar, vegna þessa.
Ekki ætla ég að fara yfir alla aðra gagnrýni sem þetta frumvarp hefur fengið, en varla er til stafur í því sem sátt er um.
Þetta er í anda þeirrar stjórnunar sem þessi ríkisstjórn hefur stundað. Þar er einblýnt á fá atriði, sem oftar en ekki skipta litlu máli, en aldrei litið til heildarmyndar. Pólitísk réttsýni einstakra ráðherra er látin ráða för og í krafti veikrar stöðu ríkisstjórnarinnar hafa þeir náð fram sínum markmiðum.
Tvö ár til að ljúka kortlagningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.