Hátt reitt til höggs
12.3.2013 | 10:00
Steingrímur J Sigfússon hefur aldrei skort orð, þó athafnir standi oftast á sér hjá blessuðum manninum. Oftar en ekki fer þessi maður offari og segir meir en hann getur staðið undir.
Í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina, sem fram fór í gær, má vissulega segja að Steingrímur hafi staðið undir væntingum. Orðaforðinn mikill en efnið lítið. Hann reitti sleggju sína hátt til höggs, en skaftið er fúið og höggþunginn lítill.
Illa fór þó fyrir ráðherranum undir lok sinnar efnislitlu þrumuræðu, þegar hann fullyrti að Davíð Oddson og Þór Saari héldu nú um stjórnarsprota stjórnarandstöðunnar. Þá má segja að skaft sleggjunnar hafi molnað í höndum hans og sleggjuhausinn fallið beint í haus hans sjálfs.
Allir vita að Þór Saari hefur verið hluti af stjórnarsamstarfinu í að minnsta kosti síðustu fjórtán og hálfa mánuðinn, þó eitthvað hafi slettst upp á vinskapinn síðustu daga. Davíð situr upp í Hádegismóum og stýrir þar Mbl. Átta ár eru liðin síðan hann dró sig út úr pólitískum afskiptum.
Fornleifarfræðingar eiga að velta sér upp úr fortíðinni, stjórnmálamenn eiga að fylgja samtímanum. Kosningarnar í vor snúast ekki um hver var utanríkisráðherra árið 2005, heldur vanda íslenskra fjölskyldna í dag. Kannski Steingrímur ætti að fara að safna orðum í sínar þrumuræður um það málefni. Þá gæti efnisinnnihald þeirra kannski orðið eitthvað og hugsanlega hefði hann þá efni á að setja nýtt skaft í sinn sleggjuhaus! Það er þó verst að hann verður þá að nota sleggju sína á sinn eiginn flokk og samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, en slíkir smámunir vefjast vart fyrir honum.
Myndlíkingar Steingríms í ræðu og riti hafa oft verið fyndnar. Lengi framanaf þessu kjörtímabili talaði hann um að hann stæði með uppbrettar ermar við slökkvistarf. Allir sáu þó að slangan sem hann hélt á var hriplek og lítið vatn kom úr henni. Þá hefur hann stundum sagt að hann væri sveittur við að moka flórinn, bætir gjarnan "framsóknar" framan við það orð. Rekan sem hann notar er þó blaðlítil eða blaðlaus og skaftið eitt eftir, þannig að hann böðlast áfram í skítnum og er kominn með hann upp á bak. Lítið fer út á fjóshauginn frá honum.
Og nú er heppilegt að bæta sleggjunni með fúna skaftinu við þessar samlíkingar.
Tvíeykisstjórn Davíðs og Þórs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.