Heiðarleiki í viðskiptum hlýtur að eiga við alla aðila, ekki bara lántakendur

Þetta eru fátækleg orð sem lögfræðingurinn lætur þarna frá sér og víst að slíkur málflutningur væri haldlítill sem vörn fyrir dómi.

Jón Steinar talar um að einstaklingurinn eigi að hafa frjálsræði um sínar skuldbindingar. Hvar er það frjálsræði? Ungt fólk sem er að hefja sinn búskap þarf þak yfir höfuð sér. Þar sem flest ungt fólk á frekar litla sjóði, fer það í sinn viðskiptabanka og óskar eftir láni fyrir því sem uppá vantar til kaupanna. Það fær engu um það ráðið hvernig lán það tekur eða á hvaða kjörum, ekkert um orðalag þess "samnings" sem það skrifar undir. Bankinn semur "samninginn", bankinn ákveður leikreglurnar, þannig að ef þetta unga fólk ætlar sér að fá lánið, skrifa undir "samninginn", verður það að fara að vilja bankans í einu og öllu. Hvenær hafa slík viðskipti talist frjáls samningur?

En þessu unga fólki er auðvitað frjálst að ganga út, að hafna slíkum samning. Það getur þá ekki komið sér upp heimili og fjölskyldu. Það er hætt við að þjóðin yrði fljótt fátækleg ef allir gerðu slíkt, ef enginn gæti keypt sér íbúð og stofnað fjölskyldu fyrr en hann væri búin að safna fyrir slíkum "lúxus". Það eru nefnilega ekki allir á sömu launum og lögfræðingar, reyndar mjög lítill hluti þjóðarinnar sem lifir við slík launakjör.

En ef þetta unga fólk ritar nafn sitt á "samninginn" við bankann er það búið að festa sig um aldur og ævi. Bankinn hefur eignast þetta unga fólk og laun þess það sem það á eftir lifað. Þeir sem eru heppnir geta kannski losnað um það leiti sem þeir komast á ellilífeyri, flestir eru þó ekki svo heppnir.

Um þau orð Jóns, að allir verða að standa við gerðann samning, þá er það auðvitað rétt. En samningur er ekki samningur, ef annar aðilinn hefur valdið og hinn getur einungis valið um að samþykkja eða ganga út.

Heiðarleiki er samt alltaf dyggð og stæðsti hluti þjóðarinnar er alinn upp við að standa við það sem það setur nafn sitt á, einnig "samninga" við bankana. Þetta gerir flest fólk, jafnvel þó það hafi ekkert haft um það að segja hvernig þessi samningur er orðaður. Eina sem fólk getur gert er að láta  skuldbindinguna ekki vera hærri en sem nemur greiðslugetu. Þar hefur fólk um tvennt að velja, hlusta á ráðgjafa bankann eða skoða söguna. Enginn getur séð fyrir þá skelfingu að bankakerfi heillar þjóðar falli og þau áhrif sem slíkt hefur á skuldbindingar fólks. Hafi ráðgjafar bankanna haft einhvern grum um að slíkt gæti gerst, sáu þeir vandlega til þess að fólk fengi ekki veður af því. Reyndar gengu margir þessara ráðgjafa svo langt að fullyrða við lántakendur að slíkt gæti einfaldlega ekki gerst, enda launakjör þessara ráðgjafa oftar en ekki bundin við afköst þeirra í afgreiðslu lána.

Hér varð bankahrun, um það þarf ekki að deila. Afleiðingar þess var að lán stökkbreyttust. Þetta hafa bæði fjármálaheimurinn og stjórnvöld viðurkennt, en einungis gagnvart þeim sem stæðstir voru. Það hefur ekki staðið á aðstoð við þá sem höfðu skuldsett sig um tugi eða hundruði milljarða, oftar en ekki sömu aðila og stóðu að hruni bankanna. Afskriftir til fyrirtækja fást einungis ef þau eru nógu stór og afskriftir til einstaklinga hafa að mestu verið til þeirra sem skuldugastir voru. Enginn hefur þó spurt þeirrar spurninga hvernig þessir einstaklingar náðu að skuldsetja sig fyrir hundruði milljarða, eða hvernig þessi fyrirtæki urðu svo stór. Einungis afskrifað hjá þessum aðilum, milljarðar á milljarðar ofan. Nú eru þessir sömu einstaklinga komnir á fulla ferð aftur og fyrirtækin sem mestu afskriftirnar fengu farin að borga milljarða í arð!

Þessar afskriftir, þó ógeðfelldar séu, hafa einn kost. Það er viðurkenning á forsendubrestinum. Í framhaldinu áttu auðvitað stjórnmálamennirnir að fylgja þessari viðurkenningu fjármálakerfisins eftir og krejast þess að þessi viðurkenning ætti við um alla Íslendinga, ekki bara höfunda bankahrunsins. Það var því miður ekki gert. Stjórnmálamönnum er gjarnt að gleyma þjóð sinni í 3,5 ár af hverjum 4. Það þykir eftirsóknarverðara í þeirra hóp að slefa upp í þá sem með peningana fara!

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögfræðingur og fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands. Hann verður því víst ekki talinn til stjórnmálamanna, þó ekki hafi skort á dugnaðinn hjá honum að halda uppi málflutningi fyrir einn ákveðinn stjórnmálaflokk í landinu. Hans boðun um heiðarleik og að allir eigi að standa við sínar skuldbindingar eru kannski nýmæli fyrir honum, en íslenska þjóðin þekkir þessi gildi vel og ekkert þarf að boða þau sérstaklega fyrir hana.

En þar sem lögfræðingurinn hefur nú uppgvötað þennan sannleik, væri gaman að vita hans hugsun til þess að sumir skuli hafa sloppið við að standa á þessum gildum. Skoðun hans á því að forsendubrestur vegna bankahrunsins skuli vera viðurkenndur hjá stórfyrirtækjum og stórfjármálamönnum, en ekki almenning. Einnig væri gaman að fá skoðun Jóns á því hvernig þessi hugsjón hans stemmir við að þjóðin skuli hafa verið látin greiða vel yfir 400 milljarða til að reysa við fallna banka, en ekki megi nota helming þeirrar fjárhæðar til að hjálpa fjölskyldum landsins við að halda sínum heimilum.

Heiðarleik eiga allir að sýna, í viðskiptum sem öðru. En heiðarleiki er aldrei bara á annan veginn, það er líka heiðarleiki að viðurkenna að hér varð forsendubrestur lána, hvort sem þar er um stór eða lítil lán að ræða, hvort sem um fjármálamenn eða almenning er að ræða.

 

 


mbl.is Jón Steinar: Lýðskrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Virkilega góður pistill hjá þér, Gunnar.

Aðalbjörn Steingrímsson (IP-tala skráð) 6.3.2013 kl. 07:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband