Stjórnarsáttmálinn 2009

Á vordögum 2009 gekk þjóðin til kosninga um nýtt þing. Niðurstaða þeirra kosninga var að sú bráðabyrgðastjórn sem mynduð hafði verið þá fyrr um veturinn fékk meirihluta þingmanna. Því var sú ríkisstjórn endurnýjuð og ritaður stjórnarsáttmáli.

Skemmst er frá að segja að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa jafnt og þétt verið að yfirgefa þetta samstarf og nokkuð síðan þessi ríkisstjórn var komin með minnihluta á Alþingi. Reiðir sig nú á aðstoð frá þingmönnum utan stjórnarflokkanna. Fæst þeirra málefna sem ríkisstjórnin kom sér saman um að afgreiða á þessu kjörtímabili hafa náð í gegn. 

Stjórnarsáttmálinn var langur, upp á 17 blaðsíður, en ekki að sama skapi innihaldsríkur.  

Norrænt velferðarsamfélag á Íslandi. Þetta var megin þema sáttmálans. Vissulega hefur tekist að framkvæma þetta til hálfs, þ.e. skattaálögur hér hafa nálgast það sem mest er innan Norðurlandanna, en velferðin sem sú skattheimta átti að skila, lætur standa á sér. Þar hefur verulega dregist til baka.

Efnahagslegur stöðugleiki og trausti í alþjóðasamfélaginu. Illa hefur gengið að ná stöðugleika í efnahagskerfinu og kemur þar einkum til fjandsamlegt viðhorf stjórnvalda til atvinnuveganna. Skattaálögur á fyrirtæki og vantraust atvinnulífsins á stjórnvöld vegna stöðugleikaleysis þeirra í löggjöf eru megin þættirnir. Traust í alþjóðasamfélaginu hefur að nokkru batnað, en þar hefur ríkisstjórnin ekki gert neitt. Það aukna traust má þakka þrem atriðum, Forsetanum, þjóðinni og bráðabyrgðarlögunum sem sett voru af fyrri ríkisstjórn. Forsetanum fyrir óþreytandi málflutning erlendis til hjálpar þjóðinni. Þakkir stjórnvalda fyrir þetta framlag hans hafa hins vegar ekki komið til, heldur hafa stjórnvöld oftar en ekki agnúast yfir því. Þjóðinni fyrir kjark til að fella icesave samningana, sem hefðu leitt þjóðina í endanlega glötun. Og bráðabyrgðalögunum sem sett voru haustið 2008, en þau hafa haldið lífi í þjóðinni og sannað fyrir alþjóðasamfélaginu að hér býr þjóð sem ætlar sér að komast út úr kreppunni.

Samstaða um stöðugleikamarkmið. Eitt af því mikilvægasta sem þjóð stendur frammi fyrir þegar erfiðleikar dynja á henni er samstaða. Fögur orð eru um þetta í sáttmálanum og talað um breiða sátt milli fjármálakerfisins, fyrirtækja, launþega og stjórnvalda.  Fjármálakerfið náði vissulega "sátt" við ríkisstjórnina, þ.e. þegar það æmtir hlaupa ráðherrar til hjálpar. Fyrirtækin mega sín lítils, á þau er ekki hlustað. Gerðir hafa verið tímabundnir samningar um aukna skattheimtu á þau fyrirtæki sem betur standa og þegar sá samningur hefur runnið út láta stjórnvöld sem ekkert sé og halda þessari sakttheimtu áfram. Þegar einhver sýnir kjark og þor til að efla sitt fyrirtæki eða stofna nýtt, er sá hinn sami samstundis settur undir smásjá og ef einhver minnsti hagnaður verður til er hann samstundis hirtur. Launþegar rituðu undir vísi að þjóðarsátt, sumarið 2009. Ekki var bleki þornað af þeirri sátt þegar stjórnvöld brutu hana. Kjarasamningar voru gerðir veturinn 2011, og undirritaðir þá á vordögum. Til að samningar næðust komu stjórnvöld að samningsborðinu með fagrar yfirlýsingar, reyndar var "þjóðarsáttin" frá sumrinu 2009 dregin fram aftur og henni bætt við kjarasamninginn. Efndir stjórnvalda voru þær sömu og áður, engar. Ríkisstjórnin hefur verið dugleg að lofa störfum og atvinnutækifærum. Þau loforð hafa þó ekki komist lengra en fram á varir stjórnarherranna. Efndir eru engar. Til fróðleiks má benda á að ef öll þau störf sem lofað hefur verið hefðu orðið til, væri hér stórkostlegur skortur á vinnuafli, jafnvel þó allar þær þusundir manna sem yfirgefið hafa landið, kæmu til baka. Ekki hefur staðið á loforðum frá ríkisstjórninni, efndir eru aftur eitthvað sem er henni óþekkt með öllu.

Úrlausn skuldavanda fyrirtækja og heimila. Í 16 mánuði náði ríkisstjórnin að humma þennan vanda af sér og gerði akkúrat ekki neitt. Það var ekki fyrr en við tunnuslátt fyrir framan Alþingishúsið og eggjakast í þingmenn, sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vöknuðu til lífsins. Náföl og skjálfandi af hræðslu steig forsætisráðherra í pontu Alþingis og boðaði stofnun nefndar til að finna lausn vandans. Nefndin var skipuð og fljótlega kom í ljós að fulltrúar fjármálafyrirtækja í henni ætluðu að yfirtaka þetta starf. Það tókst þeim og nærri fjórum mánuðum síðar koma "lausnin". Blendnar tillfinningar voru hjá þjóðinni yfir þessari "lausn", enda sáu flestir að hún var sniðin fyrir banka og lánastofnanir, ekki skuldug heimili eða fyrirtæki. Vissulega hafa þó orðið leiðréttingar á lánamálum sumra, en þar hefur ríkisstjórnin þó ekki komið að málum, heldur dómsvaldið. Gengistryggð lán voru dæmd ólögleg og þeir sem höðfu tekið slík lán sáu fram á leiðréttingu. Einhver ótrúlegasta atburðarás hófst í kjölfar þess að þessi lán voru dæmd ólögleg. Stjórnvöld fylktu sér að baki fjármálakerfinu og meira að segja voru sett lög því til hjálpar, lög sem síðar voru dæmd ólög af Hæstarétti. Þeir sem voru með verðtryggð lán hafa hins vegar enga leiðréttingu fengið. Það fólk situr uppi með stökkbreytt lán og veðin að baki eru komin að fulli í hendur bankanna. Þessi hópur er stór og innan hans fjölgar hratt þeim sem eru að komast í vanda. Þetta fólk hefur kroppað af sínum sparnaði til að standa í skilum af sínum lánum. Nú eru sjóðir þess að klárast og vonleysið eitt blasir við. Það er komið að þeirri stund að þetta fólk verður að velja á milli þess að borga af lánunum eða kaupa mat fyrir börnin sín. Einföld en skelfileg staðreynd. 

Velferðin.Í stjórnarsáttmálanum er tiltekið að velferðakerfið skuli varið. Heilbrigðis og menntastofnanir skuli settar í öndvegi. Það þarf ekki að fjölyrða mikið um hvernig til hefur tekist hjá stjórnvöldum á þessu sviði. Nægir að nefna að sjúkrahús út á landi hafa flest verið lömuð af fjárskoti og jafnvel svo að sum eru ekki lengur starfhæf. Vanda Landsspítlans þekkja allir landsmenn, eftir fréttir undanfarinna vikna. Engin lausn er sjáanleg í heilbrigðismálum, en vandinn tekur á sig nýjar myndir á hverjum degi. Þær síðust af fréttum um stórfelldar uppsagnir lækna.

Atvinnuleysið. Nokkuð er rætt í sáttmálanum um atvinnuleysið og hvernig leysa skuli þann vanda. Boðaðar voru bráðaaðgerðir og framtíðarlausn. Hluti þeirra bráðaaðgerða komi þó ekki til framkvæmda fyrr en nú um áramótin síðustu, þ.e. efld úrræði Vinnumálastofnunar til hjálpar þeim sem lengst hafa verið án vinnu. Allar aðrar tillögur, hvort heldur til bráða eða lengdar hafa ekki komist lengra en í stjórnarsáttmálann. Auðvitað sér hver hugsandi maður að eina lausn á atvinnuleysi er aukin atvinna. Engar aðrar aðgerðir hjálpa á því sviði. Þar hefur ríkisstjórnin ekki einu sinni verð hlutlaus, heldur tekið afstöðu gegn atvinnuuppbyggingu.

Fiskveiðistjórnun. Þarna kemur eitt af aðalmálum stjórnvalda. Settur var saman þverpólitískur hópur með aðkomu hagsmunaaðila til að finna lausn sem allir gætu sætt sig við. Þetta tókst og skilaði þessi hópur af sér tillögum til stjórnvalda. Síðan hafa rískisstjórnarflokkarnir barist hatrammlega um þetta mál og ljóst að það mun ekki ná í gegnum Alþingi fyrir kosningar, ekki vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar, heldur ásamstöðu innan stjórnarliðsins. Sem betur fer má segja, því allar breytingar sem gerðar hafa verið frá því þessi þverpólitíski hópur skilaði af sér, hafa verið harðlega gagnrýndar af fræðimönnum og sagðar stofna atvinnugreininni í voða. Þjóðin hefur ekki efni á að láta á það reyna, ef einhver efi er skal leggja málið til hliðar.

Umhvefi og auðlindir. Í þessum málaflokk hefur ríkisstjórninni orðið nokkuð ágengt. Reyndar má segja að ráðherra þessa málaflokks hefur orðið ágengt. Henni hefur tekist að koma mörgum málum í gegn, í nafni umhverfisverndar. Lítil sátt hefur þó verið innan stjórnarflokkanna um hennar aðgerðir og engin út i samfélaginu. Ráðherra hefur oftar en ekki farið offari og stundum engu líkara en vankunnátta stýri för. 

ESB. Eitt af aðalmálum Samfylkingar, reynda má sega eina málið, er aðild að ESB. Þetta var sett inn í stjórnarsáttmálann og strax hafist handa við að keyra það mál gegnum Alþingi. Beita þurfti bolabrögðum til að ná málinu í gagn og það tókst. Þjóðin var aldrei spurð um álit og fyrir liggur að vilji hennar til þessa hefur minnkað jafnt og þétt allt kjörtímabilið. Nú vill einungis um fjórðungur þjóðarinnar fara þessa vegferð. Ljóst er að eftir næstu kosningar eru meiri líkur en minni á því að þessi aðildarumsókn verði dregin til baka.

Stjórnarskrárbreyting var hluti aðildarumsóknarinnar. Ekki er hægt að klára það mál nema breyta stjórnarskránni. Án breytinga á henni geta stjórnvöld ekki undirritaða samning þar um og því getur þjóðin ekki fengið að segja sitt álit á þeim samning. Samfylkingin hefur verið dugleg að búa þetta mál sitt í þær umbúðir að stjórnarskrárbreyting sé nauðsynleg og gefur í skyn að bankahrunið sé afleiðing lélegrar stjórnarskrár. Engum hefur enn tekist að benda á nein ákvæði stjórnarskrárinnar sem styrkja þennan málflutning. Hitt er annað mál að auðvitað á stjórnarskrá hvers lands alltaf að vera til skoðunar og ef einhverjar greina þarf að bæta á að sjálfsögðu að gera slíkt. En að gera nýja stjórnarskrá til þess eins að gera nýja stjórnarskrá er í besta falli barnalegt.

Það sem er þó merkilegast við sögu þessarar ríkisstjórnar og hennar mistök, er að þau má öll rekja til sjálfra stjórnarflokkanna. Ósætti milli þeirra og innan þeirra, ásamt almennu getuleysi og aumingjaskap, hefur orðið til þess að öll stæðstu mál stjórnarsáttmálans hafa beðið skippbrot. Eina stór málið sem ríkisstjórnin hefur náð að berja gegnum þingið er icesave samningurinn. Þar tók þjóðin fram fyrir hendur stjórnvalda og felldi þau ólög, ekki einu sinni heldur tvisvar. Að ríkisstjórninskyldi ekki segja af sér eftir þær atkvæðagreiðslur er með öllu óskiljanlegt.

Fleira markvert var ekki tekið fyrir í stjórnarsáttmálanum, þó vissulega séu mörg og falleg orð þar að finna. Það er því ljóst að ríkisstjórninni hefur mistekist fullkomlega sitt ætlunarverk og það eina sem eftir er að nefna en kemur ekki fram í sáttamálanum, að þetta sé fyrsta tæra ríkisstjórnin sem endst hefur heilt kjörtímabil, er verulega í hættu. Af þessu hefur Steingrímur Jóhann hælt sér mikð og jafnvel gefið í skyn að öll mistökin meigi afsaka með þessu eina atriði. Enn eru nokkrir dagar eftir af störfum Alþingis og enn getur komið fram vantrausttillaga á ríkisstjórnina, er reyndar hótun um slíkt í loftinu núna. Því gæti svo farið að þessari tæru vinstri ríkisstjórn takist ekki að lifa eitt kjörtímabil.

 

Þar með er ósigurinn fullkominn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband