Skelfing Spánverja

Frá hausti 2008 hafa spænskir bankar tekið 400.000 heimili af fólki og þessi tala hækkar hratt!

Ríkisstjórn Spánar sótti um "aðstoð" frá björgunarsjóð ESB, ekki til hjálpar fólkinu í landinu sem missir sínar íbúðir, heldur til hjálpar bönkunum. Þeir hafa nú fengið 40 milljarða evra lán (6.668 milljarða íkr.). 

Þessi "lán" hafa bankarnir fengið án þess að þurfa að leggja mikið á móti, jafnvel fengið þau með niðurgreiddum vöxtum. Almenningur hefur aftur þurft að herða sultarólina verulega. Til að bankarnir geti fengið þessi "lán" þarf ríkisstjórnin að draga verulega saman í rekstri og leggja stór auknar álögur á fólk og fyrirtæki. Þetta hefur leitt til þess að enn fleiri sjá á eftir sinni vinnu og nú svo komið að atvinnuleysi á Spáni er orðið mun hærra en það nokkurntímann náði í kreppunni miklu í Bandaríkjunum. Menn eru farnir að tala um atvinnuleysið stefni í það sem varð undir lok Weimarlýðveldisins, rétt áður en Hitler tók þar völd.

 

Spænskir lántakendur þurfa ekki að spá í verðtryggingu, hún þekkist ekki þar. En þeir þurfa að horfa á eftir atvinnu sinni og húsum sínum.  Þannig virkar þetta í ESB. Þú færð hagstæð lán, svo hagstæð að hagkerfi landsins ræður ekki við það. Bankar lenda í vandræðum, þar sem stjórnendur þeirra hafa ekki skynsemi til að sjá meinið og lána hverjum sem vill. Þegar allt er komið í kalda kol er bönkunum hjálpað, en almenningur látinn blæða.

Það er vægast sagt skelfing sem ræður ríkjum á Spáni, skelfing vegna þess að fólk sér enga framtíð. Þannig var það í Weimarríkinu og það nýtti Hitler sér. Hann hefði aldrei komist til valda nema fyrir þá skelfingu og það vonleysi sem hafði grafið um sig meðal almennings. Þessi staða sem komin er upp á Spáni og reyndar í fleiri ríkjum evrunnar, er kjörinn jarðvegur fyrir öfgafólk. Það hefur þegar byrjað að plægja þennan jarðveg og einungis spurning hvenær uppskeran skilar sér, hvenær einhver öfgamaður eins og Hitler stígur fram á sviðið. Honum mun verða tekið fagnandi af píndum almenningnum. 

Þegar vonin hefur verið hrakin á brott, er auðvelt fyrir loddarana að ná tökum á fólki. Þetta sást vel í kosningunum á Ítalíu um helgina. Til allrar lukku var loddari þeirra kosninga ekki pólitískur refur eða einræðisherra, heldur gamanleikari. Það má kalla það lukku fyrir Ítali. Þetta hefði allt eins orðið á hinn veginn.

Stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að átta sig á sínu hlutverki. Þeir telja að fjármagnsöflin séu tannhjól þjóða. Svo er þó alls ekki. Það er fólkið sem eru tannhjólin. Án þess er engin þörf á bönkum. Því er hlutverk hvers stjórnmálamanns að sjá svo til að fólkið fái lifað og dafnað, þá lifa bankar einnig. Til að svo megi verða verður fólk að hafa atvinnu. Þegar þjóð býr við meira en fjórðungs atvinnuleysi og meir en helmingur ungs fólks er án vinnu, er grundvöllur hennar brostinn. Þá skiptir engu máli þó bönkum sé haldið gangandi einhverja mánuði í viðbót. Þeir munu sjálfkrafa fara sömu leið, sama hversu mörg "lán" þeir fá. Án þjóðar er enginn grundvöllur fyrir banka.

Skelfingin á Spáni er lýsandi dæmi rangrar stjórnunar. Hvernig væri ástandið þar í dag ef þessir 40 milljarðar evra (6.668 milljarðar íkr.) hefðu verið veittir til fyrirtækja og almenning í landinu, til að greiða niður skuldir. Vissulega væru einhverjir bankar komnir í þrot, en það má gera ráð fyrir að atvinnuleysið væri minna og að fleiri fjölskyldur hefðu haldið sínum íbúðum. Kannski væru þeir 4 sem tóku líf sitt í síðasta mánuði á Spáni, enn á lífi.

Sumir halda því fram að Ísland eigi sér eitthvað skjól í ESB. Ástandið á Spáni, í Grikklandi, á Ítalíu, á Írlandi, á Kýpur, í Frakklandi og fleiri löndum ESB ætti að vera næg sannindi þess að slíkt skjól er ekki til staðar.

Þjóðin ein getur byggt sér skjól og til þess að svo megi verða, verður fólk að kjósa þá til valda sem sýna að þeim er vænt um þjóðina, sýna að þeir setja þjóðina ofar fjármálsöflunum og sýna að þeir hafa kjark til að fara þá leið.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Orð að sönnu hjá þér Gunnar, það er alveg ljóst að stjórnmálafólk hvort sem það er á Íslandi eða í ESB löndunum eru ekki fulltrúar hinna vinnandi stétta.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 27.2.2013 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband