"Sleggju"dómur um verðtryggingu
18.2.2013 | 21:31
Einn ötulasti baráttumaður gegn verðtryggingu neytenda- og húsnæðislána er Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness.
Eftir að hann birti grein í Pressunni, 13. febrúar síðastliðinn, þar sem hann sýndi fram á, með aðstoð reiknivélar Landsbankans, að mismunur þess að taka vertryggt lán og óverðtryggt lægi nærri því að vera fjórföld upphafleg lánsfjárhæð. Þarna er einungis verið að tala um mismun þessara lánsforma og notaðar þær forsendur sem bankinn sjálfur gefur, auk þess sem meðaltals verðbólga frá upphafi mælinga var notuð sem grunnur að verðtryggða láninu.
Eftir að þessi grein byrtist, ritaði Kristinn H Gunnarsson, oftast nefndur Kiddi Sleggja, undarlega níðgrein gegn Vilhjálmi og sannaði þar hvaðan viðurnefni hans er komið. Þvílíkir sleggjudómar eru fáséðir. Lítið bar á rökstuðning í grein Kidda, enda ljóst að erfitt er að deila um staðreyndir. Helstu rök hans voru að Villi hefði notað rangar forsendur. Má vera, má vera. En hvaða forsendur átti hann að nota? Og hvers vegna hefur bankinn sett þessar forsendur í sína reiknivél?
Staðreyndin er að það eru því miður ekki til neinar forsendur sem afsanna skrif Villa og þar af leiðandi engar forsendur sem sanna mál Kidda.
Staðreyndin er, ef sama reiknivél er notuð og sama lánsupphæð, þurfa vextir af óverðtryggðu láni að vera 18,5% til að ná sömu heildarupphæð og verðtryggðalánið sem forsendur bankans gefa, m.v. 5,81% verðbólgu. Ef reiknivélin er látin reikna dæmið á hinn veginn, þ.e. óverðtryggða lánið látið halda sér m.v. forsendur bankans, þarf meðaltalsverðbólga yfir þau 40 ár sem lánið er tekið, að vera nálægt 1,8%, svo heildarafborgun þessara lána verði sambærileg.
Það sér því hver maður að meðaltalsverðbólga til 40 ára upp á 1,8% er óraunhæf, ekki bara á Íslandi, heldur hjá hvaða þjóð sem er. Það sér einnig hver maður að meðaltalsvextir til 40 ára upp á 18.5% ganga aldrei. Eins og Villi segir, þá myndu mafíósar veigra sér við að lána á slíkum ofurvöxtum.
Bylgjan sýndi þann sóma í morgun að ræða við þessa tvo menn samtímis, í beinni útsendingu. Þar náði Kiddi að nýta sér yfirburða reynnslu í stjórnmálum, enda fáir flokkar sem hann hefur ekki mátað, og hélt orðinu mestann tíma útsendingarinnar. Þetta var útvarpsstöðinni vansa og slapt af stjórnanda þátarins að geta ekki gefið báðum mönnum jafnan tíma.
En þetta kom svo sem ekki að sök, þar sem þau fáu orð sem Villi náði að koma fram voru markviss, en vaðallinn hjá Kidda aftur lítils virði.
Tvískinningur Kidda kom kannski besti í ljós þegar Villi las upp úr þingræðu sem Kiddi flutti veturinn 2006. Þar hélt þessi þáverandi þingmaður fram miklum rökum gegn verðtryggingunni og hversu slæm hún væri, hana bæri að afnema. Í morgun taldi þessi fyrrverandi þingmaður hins vegar að aðstæður væru aðrar nú en þá. Vissulega rétt.
Þá var verðtrygging þess valdandi að vextir héldust hér hærri en aðstæður að öðru leyti gáfu til kynna, rétt eins og nú. En þá var verðtryggingin kannski helst þröskuldur fyrir fjármálaheiminn, nú er hún sem ókleift bjarg fyrir fjölskyldur landsins.
Kiddi vill sem sagt afnema verðtrygginguna, bara þegar rétti tíminn er til þess og að hans mati er ekki rétti tíminn þegar almenningur hefur af því einhverja leiðréttingu, heldur er að hans mati rétti tíminn þegar fjármálakerfið hagnast.
Nú keppast menn við að túlka niðurstöðu frá fulltrúa ESB, sem sagði að framkvæmd verðtryggingar hér stæðist ekki tilskipun sambandsins.
Sumir vilja með þessari túlkun segja að verðtrygging sé heimil samkvæmt lögum ESB, en framkvæmdin hér sé ekki í lagi. Það hefur reyndar enginn sýnt fram á að lög ESB heimili verðtryggingu, þó þau kannski banni hana ekki. Þetta eru þó einungis lagalegar pælingar, segir ekkert til um sanngirni eða réttlæti verðtryggingar.
Það er nefnilega svo að þó hlutir séu ekki bannaðir, er ekki þar með sagt að neinum heiðvirðum manni detti í hug að framkvæma þá. Hugsanlega er verðtrygging ekki bönnuð innan ESB af þeirri einföldu ástæðu að engum dettur í hug að nokkur framkvæmi slíkt bull.
Í stað þess að velta sér upp úr því hvort verðtryggingin stangist á við lög, hvort heldur er innlend eða erlend, ættu stjórnmálamenn að ræða siðferðilega hlið málsins. Er verðtryggingin siðferðislega réttlætanleg.
Rökin fyrir verðtryggingu eru vægast sagt hæpin og ekki að sjá að þau haldi á neinn hátt. Ef Landsbankinn treystir sér til að lána óverðtryggt lán til 40 ára og fær ákveðna heildarupphæð fyrir það, er erfitt að réttlæta að bankinn þurfi sem svarar fjórfaldri upphaflegri lánsfjárupphæð til viðbótar, bara af því að á haus skuldabréfsins er ritað "verðtryggt lán".
Hins vegar er vitað að gallar þessa kerfis eru fjölmargir og kannski þeir sem mestu máli skipta eru getuleysi stjórnvalda til að stýra hagkerfinu. Verðtryggingin gerið það nánast útilokað, hvort sem um góðæri er að ræða eða kreppa. Í kreppuástandi er þessi vágestur hins vegar sem þjófur á eigum fjölskyldna landsins. Þannig ástand er nú og það er langt komið með að framkvæma hér nýtt hrun!
Það er sagt að allt sé mannan verk, að ekkert geti orðið nema fyrir tilstilli manna. Það er vissulega rétt, en stundum tekst mönnum að búa til ófreskju sem erfitt er að ráða við við. Verðbólgan er slík ófreskja, gerð af mönnum. Hún hefur í raun yfirtekið allt hagkerfi landsins og þeir sem ekki þora gegn henni eru einfaldlega gungur!!
Þessa ófreskju verður að kveða niður, meðan enn er möguleiki á því. Sá tími styttist hratt. Fjölskyldur landsins geta ekki beðið mikið lengur.
Athugasemdir
Mestu efnahgsmistök sem gerð hafa verið á Íslandi, eru þau að víxitalan hafi ekki verið tekin úr sambandi strax eftir Hrun allavega tímabundið. En í staðinn er búið að bera þúsundir fjölskyldna út úr íbúðum sínum,vegna ólöglegra gengisbundna lána, og verðtryggðra (ólöglegra lána)næst hlýtur að vera að sækja þá til saka sem stjórnuðu þessu,skaðinn sem þetta hefur valdið heimilunum er gífurlegur og þær hörmungar sem þessar fjölskyldur hafa orðið að þola.
Nú verður verðtryggingin að fá flýtimeðferð í gegnum dómskerfið, annað er algjörlega óásættanlegt.
13.gr. laga 38/2001 bannar að hlaða verðbótum og vöxtum ofan á höfuðstólinn, það á að verðbæta greiðsluna, því skil ég ekki afhverju FME sinni ekki starfskildum sínum.
Jón Ólafur (IP-tala skráð) 18.2.2013 kl. 22:34
FME er undirlægja bankanna, Jón. Þaðan er ekki að vænta neins.
Á Alþingi er nú verið að breyta lögum um verðtryggð lán. Breytingin virðist felast í því að "upplýsa" fólk um kostnað vegna þeirra, að lánastofnunum sé skilt að taka tillit til verðbólgu í sínum útreikningum.
Þetta gera þeir í raun nú þegar, í reiknivélum sínum. Málið er bara að bankarnir nota ekki þá verðbólgu sem er við lýði hverju sinni eða meðaltal einhverra undangenginna ára, heldur verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Það virðist ekkert vera í þessari lagabreytingu sem segir hvernig lánastofnanir skuli reikna verðbólguna inn, þannig að þeir geta í raun valið hvaða viðmið sem er, jafnvel lægri verðbólgu en markmið Seðlabankans segja til um.
Í stað þess að sóa tíma og kröftum í svona ganglausar breytingar, væri réttara að keyra í gegnum Alþingi lög sem einfaldlega afnema verðtrygginguna. Þannig er hægt að tryggja framtíðina.
Varðandi fortíðina er málið kannski flóknara, en engu að síður er vandinn fyrst og fremst þar. Þann vanda verður að leysa, að öðrum kosti mun koma annað hrun!
Gunnar Heiðarsson, 18.2.2013 kl. 22:59
Það á að tilgreina álega hlutfallstölu kostnaðar, út lánstímann,þannig að þetta er með öllu óframkvæmanlegt,
Og þessar fréttir frá efnahgs og viðskiptanefnd er bara eitt alshejar BULL.
Jón Ólafur (IP-tala skráð) 18.2.2013 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.