Staðreynd sem ekki verður flúin
16.2.2013 | 14:54
Lilja Mósesdóttir, sem hefur BBA gráðu í viðskiptafræði, MA gráðu í þróunarhagfræði og er doktor í hagfræði, núverandi þingmaður, hefur sennilega meira vit á því sem snýr að hagfræði en nokkur annar þingmaður þessa lands. Því er full ástæða til að hlusta á hennar orð, hversu illa sem mönnum líkar hennar boðskapur.
Það er staðreynd sem ekki verður flúin, að ástandið hér á landi mun verða alvarlegt ef ekkert er gert til hjálpar skuldsettum heimilum, graf alvarlegt. Greiðsluvilji er ekki eitthvað sem sett er inn í exelskjal, hann er huglægur og byggist á von og trú. Von til þess að geta komist út úr vandanum og trú á aðstæður til þess. Þegar hvorugur þessara þátta er fyrir hendi, brestur vilji til að halda áfram, sama hversu löghlýðinn og skilvís einstaklingurinn er. Og kannski er þessi hætta einmitt mest varðandi þá sem eru heiðarlegastir og skilvísastir. Þeir tóku lán sem voru vel innan getu þeirra, veðsettu húsnæðið hóflega og töldu sig vera í öruggum málum. Fyrir þetta fólk hefur veröldin hrunið. Nú skuldar það meira en það ræður við og á margt hvert ekki lengur neitt í þeirri eign sem það borgar af. Þegar þetta skilvísa og heiðarlega fólk fær síðan fingurinn í andlit sér, er hætt við að marga bresti þolinmæðin.
Það er fyrir löngu séð að núverandi ríkisstjórn ætlaði sér aldrei að koma þessu fólki til hjálpar, stæðstum fjölda þjóðarinnar. Nú bíður þetta fólk fram yfir kosningar og fyrstu viðbrögð nýrrar ríkisstjórnar mun skilja á milli þess hvort landið kemst upp úr þeirri kreppu sem það er í, eða ekki. Mun skilja á milli feigs og ófeigs þjóðarinnar.
Finni fólk að sama viðhorf verði við lýði áfram, mun skriðan koma. Því miður virðast viðtöl við formann Sjálfstæðisflokks ekki gefa mikla von. Hann sér ekkert að því að hundsa samþykktir eiginn flokks í þessum málum, þegar hann mætir í viðtöl hjá fjölmiðlum. Útlitið er því ekki gott.
En þeir sem ekki vilja afnema verðtrygginguna og þeir sem ekki vilja leiðrétta stökkbreytingu lána, verða þá að koma með einhverjar vitrænar lausnir á því hvernig þeir hyggjast ætla að bjarga landinu frá endanlegu hruni. Það er ekki nóg að vera á móti, það þarf þá að benda á aðra lausn. Enginn hefur treyst sér til þess, enginn hefur heldur treyst sér til að reikna út hvað það kostar að gera ekki neitt!
Ég taldi upp menntun Lilju Mósesdóttur hér fyrir ofan. En það þarf ekki menntun til að sjá hvert stefnir. Einungis heilbrigða skynsemi. Það þarf hins vegar menntun til að leita lausna á vandanum og mikla menntun til að finna lausn á því ef ekkert er gert fyrir skuldsett heimili landsins. Sú menntun er ekki til í landinu og sennilega hvergi í heiminum.
Ríkisstjórnin hælir sér af því að hafa gert svo og svo mikið fyrir lánþega. Staðreyndin er að ríkisstjórnin hefur nánast ekkert gert. Það voru lánastofnanir sjálfar sem komu fram með hugmyndina um 110% leiðina, sjálfum sér til hagsbóta. Það eru fáir ef nokkrir sem fengu lausn sinna mála í gegnum hana. Dómstólar sáu um að leiðrétta mál þeirra sem höfðu tekið gengistryggð lán og jafnvel þó bankarnir hafi haft stjórnvöld fast að baki sér við að reyna að komast framhjá þeim dómum, hyllir nú undir endanlegann sigur lánþega þar.
Núverandi ríkisstjórn þarf ekki að hafa áhyggjur af því að fá á sig enn einn dóminn vegna lánamála, þarf ekki að hafa áhyggjur af því að dómskerfið taki aftur af þeim völdin og dæmi verðtryggingu ólögmæta. Til þess er of skammt til kosninga. Ný ríkissjórn þarf hins vegar að hafa hugann við þetta. Ef hún ætlar ekki að láta dómstóla taka fram fyrir hendur sér, eins og núverandi ríkisstjórn hefur þurft að búa við, verða fyrstu viðbrögð hennar að vera rétt.
Það er klárt mál að ekki mun verða gengið til baka með þau dómsmál sem þegar eru komin í gang vegna verðtryggingarinnar. Líkurnar á að þau mál vinnist hafa aukist verulega. Hvort spá Lilju um að fólk geti ekki beðið þeirra dóma er rétt, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að ný ríkisstjórn mun standa eða falla eftir því hvort á það verði látið reyna.
Ef einhver getur bennt mér á lausn sem heldur landinu á floti, án þess að lánamál fjölskyldna landsins verði tekin til alvarlegrar skoðunnar og leiðréttinga, skal ég glaður hlusta. En sú lausn er ekki til staðar. Annað hrun mun koma og það verður margfallt verra en það fyrra.
Það skal enginn gleyma þeirri staðreynd að þjóðin er fólkið. Ef ekkert er gert fyrir fólkið er ekkert gert fyrir þjóðina. Það breytir engu hvort bankar og lánastofnanir eru vel settar, ef engin er þjóðin til að nýta þá!
Hætta á að greiðsluviljinn hverfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill Gunnar.
Það er ekkert vandamál þess eðlis að ekki finnist lausn.
Sigurbjörg Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 10:16
Varðandi erlendu lánin, ég varð reyndar aldrei vör við neina leiðréttingu á þeim !!!
Sigurbjörg Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.