ESB er orðið hundleitt á lýðræðinu
14.2.2013 | 16:29
Það er ekki EES samningurinn sem slíkur sem ESB er leitt á, heldur sú staðreynd að hann gefur ekki kommisörum sambandsins sama vald yfir þeim þjóðum sem þann samning hafa og hinum sem eru innan ESB. Þar liggur hundurinn grafinn.
En þessi orð utanríkisráðherra segja þó meiri sögu en hann vill láta, nema auðvitað hann sé að tala undir rós. Þessi orð segja að ESB sé leitt á öllum tvíhliðasamningum. Þau segja að engar samningsviðræður eru í gangi, heldur aðlögunarviðræður, eins og reyndar þeir sem á móti aðild hafa alla tíð bent á. Þarna er Össur að viðurkenna þá staðreynd.
EES samningurinn er hins vegar í gildi og sama hversu leiðir aðilar hans á honum eru, hann stendur þar til hann er tekinn upp, eða honum sagt upp. Engar yfirlýsingar af hálfu ESB hafa komið um að þeim samning verði sagt upp eða óskað eftir upptöku hans. Allar slíkar hugleiðingar hafa komið frá hinum aðila samningsins og þá helst Noregi. Við Íslendingar ættum að setjast á bekk með Norðmönnnum í þeim hugleiðingum.
Að óttast ESB vegna EES samningsins er óþarfi. Hins vegar er full ástæða að óttast hvernig ESB hefur verið að afbaka þann samning. Þar er þó ekki ESB um að kenna, heldur íslenskum stjórnvöldum og aumingjaskap þeirra. ESB teigir sig eins langt og það kemst, það eru stjórnvöld hér sem eiga að sjá til þess að ekki sé gangið lengra en samningurinn heimilar. Það er í þeirra valdi að láta ESB fara að samningnum, eins og hann var gerður, m.a. að sjá til þess að engar tilskipanir sem eru í bága við íslensku stjórnarskránna séu tekin hér upp. Þarna hafa núverandi stjórnvöld brugðist illa og fyrrverandi stjórnvöld eru heldur ekki saklaus.
Ef svo fer, sem Össur ýjar að, að ESB óski eftir að EES samningurinn verði felldur úr gildi, þurfa lönd EES ekkert að óttast. Einhliða uppsögn kemur aldrei til greina, heldur verður að fara í viðræður um hvað skuli koma í staðinn. Allt eins gæti það orðið tækifæri fyrir lönd EES.
Það er langt seilst þegar nota skal rök sem þessi til að ganga í ESB. Hræðslurök hafa seint gengið í Íslendinga og allra síst í samskiptum við aðrar þjóðir. Enda engin ástæða til hræðslu.
Utanríkisráðherra hefur upp á síðkastið verið tíðrætt um EES samninginn og lætur sem hann sé forsenda aðildar. Heldur því fram að Ísland muni geta haft einhver áhrif innan ESB og því sé betra að vera innan sambandsins en utan. Barnalegri getur málflutningurinn vart orðið.
Skoðum þau áhrif sem einstakar þjóðir hafa innan sambandsins. Þrjú lönd eru þar dómerandi, Þýskaland. Bretland og Frakkland. Þessi þrjú ríki hafa í gegnum tíðina skipst á um að mynda blokk tveggja ríkja gegn því þriðja, um hin ýmsu málefni sambandsins. Það er þó kannski einfaldara að segja að Þýskaland hefur skipst á um að mynda blokk með Bretum og Frökkum. Það fer svo eftir því hvorir ná fleiri löndum með sér, Bretar eða Frakkar, hvort þeir ná að mynda blokk með Þjóðverjum.
Aðrar þjóðir eru harla máttlausar innan ESB og minnkar styrkur þeirra hratt eftir því sem þau eru smærri. Nýlega kom í ljós að Kýpur, sem telur meir en þrisvar sinnum fleiri íbúa en Ísland, þykir of smátt fyrir björgunarsjóð ESB. Það vill þeim þó til happs að fjármagnsleg tengsl þess við Grikkland mun sennilega verða til þess að það mun verða blessað af sjóðnum. Hvernig stæði Ísland í slíku sambandi?
Þá vita allir að stjórnun ESB er byggð á hrossakaupum, þó ekki á truntum frá Rúmeníu, heldur pólitískum hrossakaupum. Til að fá eitthvað í gegn, þarf að láta eitthvað í staðinn. Hvað höfum við til að versla með í slíkum hrossakaupum? Við getum selt auðlindirnar, landið og hugsanlega eitthvað fleira. En það er ekki verslað með þetta nema einu sinni, eftir það erum við endanlega úr leik á skákborði kommisarana í Brussel.
Þær breytingar sem nú standa yfir innan sambandsins eru miklar. Allir vita hvert stefnt er, en ekki er víst að takmarkinu verði náð. Hvað gerist þá?
Sem hluti af þessum breytingum eru þær tillögur sem lagðar voru fram um breytingar á yfirráðum yfir sjónum umhverfis lönd ESB. Hingað til hafa aðildarþjóðirnar haldið 12 mílunum fyrir sig og ráðið hafsbotninum. Nú skal þetta afnumið og ESB skal fá full yfirráð yfir öllum sjó og öllum hafsbotni umhverfis þjóðríki sambandsins. Hvernig kæmi þetta út fyrir okkur?
Þó veiðireynslan sé okkur hagkvæm, er ljóst að við munum missa öll réttindi yfir hafsbotninum og því sem undir honum er. Flokkustofnar sem hingað eiga hugsanlega eftir að koma og við höfum enga veiðireynslu af, munu leiða til þess að skip frá Spáni, Írlandi, Bretlandi og fleirilöndum sambandsins, verða hér við veiðar, allt upp í landsteina. Það þarf enginn að halda að þau skip hafi getu til að veiða einungis þann fisk sem ætlað er, annar fiskur mun fylgja með. Þá verður auðvitað að minnka þann kvóta sem "veiðireynslan" átti að tryggja okkur. Það er jú bannað að kasta veiddum fisk aftur í sjó, svo til að þær þjóðir sem hafa veiðireynslu í einhverjum flökkustofn sem hingað kemur, geti elt hann á Íslandsmið, verður að úthluta þeim kvóta fyrir íslenska fiskinn einnig. Að lokum verða þau búin að mynda sér það mikla veiðireynslu á Íslandsmiðumað enginn fiskur verður eftir fyrir okkar skip.
Auðlindirnar okkar, sem fyrst og fremst liggja í orku og tæru vatni, munu fljótt verða yfirteknar. Þó einhver grein um eign þjóðarinnar á þessu verði sett í stjórnarskrá, þá er það lítils virði eftir aðild. Nú þegar er farið að tala um að leggja rafmagnssnúru til Evrópu og auðvitað væri rétt að láta skipið sem hana leggur, henda niður vatnsslöngu í leiðinni. Þá geta lönd Evrópu fengið bæði rafmagn og vatn. Við yrðum svo að sætta okkur við himinhátt raforkuverð og að okkar tæra íslenska vatn verðum við þá að kaupa á flöskum út úr búð og borga dýrum dómi. Hver einasta læjarspræna verður virkjuð til að seðja orkuhungur Evrópu og engu um það skeitt hvernig farið verður með landið okkar.
Ef við Íslendingar getum ekki fengið ESB til að standa við EES samninginn, sem gerður var og skrifað undir á síðustu öld, er tómt mál að halda að aðild gefi okkur einhver völd innan ESB. Það er barnalegt að halda slíku fram.
Lýðræðið er vissulega orðið stórt vandamál innan ESB, enda gerðar ítrekaðar tilraunir til að brjóta það á bak aftur. Þessi vandi ESB er þó ekki okkar vandi, ekki enn, ekki meðan við erum ekki aðilar að ESB.
![]() |
„ESB hundleitt á EES-samningnum“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær pistill, sem ég tek heilshugar undir. Það virðist sem Össur hafi fengið skell á bossann og verið ýtt til að flýta fyrir því að við förum inn með góðu eða illu. Þeir nenna sjálfsagt ekki að bíða lengur til að ná okkur inn. Burt með þennan svikara úr utanríkisráðuneytinu, þar sem hann nýtur ekki trausts nema Samfylkingar og VG sinna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2013 kl. 17:31
Össur er og verður alltaf einn af þessum "kafbátum" í stjórnmálum.
Hann veit aldrei hvort hann er að fara með lygar eða segja satt.
Hann hefur hvorki vilja eða greind að skilja þar á milli...
Jóhanna (IP-tala skráð) 14.2.2013 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.