Alsherjarráðherrann hælir sér
13.2.2013 | 10:45
Steingrímur J Sigffússon þreytist seint á að hæla sjálfum sér, bæði í ræðu og riti. Í Fréttablaðinu í dag ritar hann enn eina sjálfshólsgreinina undir fyrirsögninni "Viðburðaríkir dagar!". Það er merkilegt hversu fáir er til að hjálpa ráðherranum við þessi skrif, hversu fáir eru tilbúnir að hæla honum í sama mæli og hann sjálfur gerir.
Fyrir utan sjálfshólið, fer Steingrímur yfir hluta þess kosningavíxil sem stjórnvöld ákváðu að leggja á landsmenn. Kosningavíxil upp á 9,5 milljarða króna. Ekkert minnist hann á þann vanda sem landsmenn búa við, eða hversu illa hefur verið gengið að grunnstoðum þjóðfélagsins. Hann minnist ekkert á að aldrei í sögu þjóðarinnar hafa verið fleiri nauðungaruppboð og á seinni hluta síðasta árs. Hann nefnir ekki að hjálparstofnanir eru að kikna undan matargjöfum og þurfa orðið að vísa fólki frá. Hann nefnir ekkert að sjúkrahús landsins, einkum Landspítalinn, eru að grotna niður, bæði hús og innviðir. Nei Steingrímur talar ekki um staðreyndirnar, eingöngu þá veröld sem hann sér úr sínum fílabeinsturni.
En ekki meir um það sem Steingrímur nefnir ekki og yfir í það sem hann ritar um.
Hann talar um vandann í löndunum í kringum okkur og bendir réttilega á að þau hafi áhrif hér. Að Ísland sé ekki eyland heldur hluti af samþættum heimi. Í næstu setningu talar hann um að efnahagsvandi Íslands sé heimatilbúin. Þessi öfugmæli eru nokkuð undarleg.
Steingrímur dáist af niðurstöðu EFTA dómstólsins en harmar þó þann tíma sem icesave málið hefur tekið. Það verður að segja að stórkallalega geta menn látið. Steingrímur Jóhann er einn aðalhöfundur þessa máls og þó hann hafi fengið einhvern arf frá fyrri ríkisstjórn, var hann ekki bundinn honum. Auk þess mátti Steingrímur hlusta á þjóðina þegar icesave II var fellt í atkvæðagreiðslu. Þá átti hann að stand upp sem maður og segja við erlendu kröfuhafanna að þjóðin ætlaði sér ekki að greiða þennan reikning, nema sýnt yrði fram á að hann væri lögbundinn og færa það í hendur kröfuþjóðanna að sækja málið fyrir dómi. Þær hafa ekki enn þorað að fara þá leið og því lét eftirlitsstofnuni reyna á lögmætið. Icesave dómurinn er fyrst og fremst dómur á getuleysi og aumingjaskap Steingríms Jóhanns Sigfússonar.
Ekki ætla ég að ræða um kosningavíxil ríkisstjórnarinnar, þó Steingrímur hafi mörg orð um suma þætti hans í sinni grein. Stjórnmálamenn sem slíka pólitík stunda ættu að skammast sín, sérstaklega á tímum þegar ríkissjóður er rekinn fyrir lánsfé og grunnstoðir þjóðfélagsins eru á brauðfótum. Kosningavíxill ríkisstjórnarinnar mun ekki gefa stjórnarflokkunum mörg atkvæði, til þess er íslensk þjóð of skynsöm.
Lokaorð Steingríms eru súrealísk:
"Meginniðurstaðan er að Íslandi er borgið, við erum að komast fyrir vind eftir ótrúlegan ólgusjó af mannavöldum. Spurningin er aðeins hverjum við treystum fyrir framhaldinu, þeim sem stýrðu á strandstað eða hinum sem stýrðu út úr brimgarðinum aftur. Hve langt til baka man þjóðin?"
Það er langt í fjarri að Íslandi sé borgið. Meðan fjölskyldur landsins berjast í bökkum, meðan fyrirtækin strögla við að halda sér gangandi, meðan heilbrigðisþjónustan er á brauðfótum og meðan allt grunnkerfi landsins er við það að hrynja, er landinu ekki borgið. Hitt er annað mál að bönkum og fjármagnsfyrirtækjum er borgið, enda var rest vegleg sjaldborg utanum þá starfsemi.
Sá ólgusjór sem Steingrímur nefnir er vissulega af mannavöldum. Hverra manna má deila um, en allt er jú mannana verk.
Síðan kemur rúsínan í frekar súrum pilsuenda Steingríms. Hann spyr hverjum skuli treysta, þeim sem stýrðu á strandstað eða þeim sem stýrðu út úr brimgarðinum aftur. Vissulega væri þeim sem stýrðu til baka betur treystandi, en þeir hafa bara ekki fengið að reyna sig enn. Staðreyndin er að undir skipsstjórn Steingríms og Jóhönnu hefur þjóðarskútan velkts um í brimgarðinum og hvert skipti sem þau hafa tekið í stýrið, hefur verið silgt á enn eitt skerið. Þeim hefur aldrei tekist að finna rétta kúrsinn, enda virðast þau hafa sitthvorn áttavitann og báðir kolrangir. Nú er skútan orðin svo lek að óvíst er hvort hægt verður að sigla henni á lygnan sjó. Það er ljóst að undir sömu skipsstjórn mun skútan sökkva.
Steingrímur spyr síðan hversu langt til baka þjóðin man. Hún man lengra og betur en Steingrímur vill. Hún man eftir stórorðum og skeleggum karli norðan úr Þistilfirði, sem oftar en ekki lét menn heyra það í pontu Alþingis, gjarnan með hnefann á lofti. En þjóðin man einnig nær sér, man þegar þessi sami maður tók við embætti fjármálaráðherra, man þegar hann ætlaði að fá þingmenn þjóðarinnar til að skrifa undir samning um fjárkröfur erlendra stórríkja, án þess að fá að lesa þann samning. Þjóðin man þegar þessi maður sveik sína kjósendur með umsókn að ESB. Þjóðin man þegar þessi sami skeleggi maður lagðist í drulluna fyrir erlendum vogunarsjóðum og gaf þeim tvo af þrem stæðstu bönkum landsins. Þjóðin man hvernig þessi maður gerði í þrígang aðför að þjóðinni, til að þóknast Bretum og Hollendingum.
Þjóðin man Steingrímur, þú getur verið viss um það. Hún man bæði eftir skelegga þingmanninum norðan úr Þistilfirði, sem oft var skorinorður í ræðustól Alþingis og hún man einnig eftir fjármálaráðherranum sem lagðist flatur fyrir fjármálaöflin, bæði innlendum og erlendum. Hún man líka eftir þingmanninum að norðan, sem fórnaði flokk sínum fyrir ráðherrastól. Sjálfshól og hálfsagður sannleikur mun engu breyta um það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.