Förum að vilja þeirra sem mættu í skoðanakönnunina.
12.2.2013 | 08:23
Síðast þegar Valgerður Bjarnadóttir sagði í sambandi við stjórnarskrármálið að "ýmsu væri hrósað og einhverjar athugasemdir gerðar", var eftir að lögfræðinefnd hafði farið yfir tillögur stjórnlagaráðs. Þetta sagði hún áður en almenningur fékk að líta þær athugasemdir. Allir vita hver niðurstaða lögfræðinefndarinnar var og því spurning hvort álit Feneyjarnefndarinnar sé jafn svart.
Þetta mun væntanlega koma fram á allra næstu dögum. Bráðabyrgðarálit Feneyjanefndarinnar hlýtur að verða opinberað.
Reyndar benda þessi orð formanns stjórnskipunar og eftirlitsnefndar til að eitthvað svart sé að finna í þessu bráðabyrgðaráliti. Bæði þau sem að ofan segja og einnig hitt sem hún heldur fram við fréttamann, að það sé alltaf pólitísk ákvörðun Alþingis sem ráði.
Ef einhver sannleikeikur er um að Feneyjanefndin telji það frumvarp um nýja stjórnarskrá, sem nú liggur fyrir Alþingi, innihaldi flókin ákvæði sem gætu leitt til pólitísks þráteflis og óstöðugleika, er það næg ástæða til að staldra við.
Þá hefur Feneyjanefndin staðfest málflutning þeirra sem vilja að unnið verði að breytingu stjórnarskrá á grundvelli innihalds hennar og tilgangi, í stað þess að byggja einhver ímynduð minnismerki fyrir stjórnmálamenn sem yfirgefa Alþingi nú í vor. Þá hefur Feneyjanefndin staðfest að breytingar á stjórnarskrá eru meira mál en svo að hægt sé að hafa það í flimtingum.
Það er vissulega margt gott í tillögum stjórnlagaráðs, enda samþykkti meirihluti þeirra sem mættu á kjörstað í skoðanakönnun ríkisstjórnarinnar um þær tillögur, að rétt væri að nota þær sem grundvöll undir frekari vinnu á breytingu stjórnarskrárinnar. Sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá geta þessar tillögur aldrei orðið, ekki í þeirri mynd sem ráðið leggur fram.
Förum að vilja þeirra sem kusu og vinnum að breytingu stjórnarskrárinnar á vandaðann hátt, með tillögur stjórnlagaráðs sem grunn. Hættum þessu þrátefli og tökum málið af dagskrá fram yfir kosningar. Það er ekki vænlegt að ætla að gera breytingu á stjórnarskrá lands, meðan kosningabarátta er í fullum gangi.
Mismunandi túlkun á Feneyjaáliti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er einmitt málið eins og þú bendir á, þeir sem tóku þátt í þessari dýrustu skoðanakönnun sögunnar hér á landi samþykktu með meirihluta að stuðlað skuli að því að stjórnarskráin yrði endurskoðuð út frá þeim sjónarmiðum sem fram komu í tillögum stjórnlaganefndar (þetta var ekki stjórnlagaráð þar sem þær kosningar voru ólöglegar og því skipaði alþingi nefnd að tillögu ríkisstjórnarinnar). Það var aldrei spurt um það hvort þessar tillögur ættu að vera stjórnarskráin, heldur hvort þær hugmyndir sem þar komi fram ættu að mynda grunn að endurskoðuninni. Það er mjög margt gott í þeim tillögum sem frá stjórnlaganefnd kom og margt sem við ættum að hafa til hliðsjónar við endurskoðunina þannig að stefnt verði að því að stjórnlagabreyting endurspegli þá hugsun og hugmyndir sem þar koma fram.
Það virðist hins vegar vera lítill hópur ofsatrúarmanna sem telja að allt sem frá stjórnlaganefndinni kom séu guðspjall sem ekki megi hrófla við. Jafnvel þótt allir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti, lögfræði og öðrum þeim greinum sem lúta að stjórnskipan og stjórnarskrá hafi gagnrýnt þessar tillögur eins og þær eru núna. Álit þessara sérfræðinga virðist engu skipta fyrir þessa ofsatrúarmenn og þeir vera staðráðnir í að steypa landinu í eina alsherjar réttaróvissu eftir næstu kosningar.
Nei það er kominn tími til að jafnaðarmenn sýni jafnaðarmennsku sína og hætti þessu ofstæki og vinni af einurð að þeim breytingum sem hægt er að gera fyrir næstu kosningar og eru til bóta. Og taka sér síðan tímann fram að næstu kosningum eftir 4 ár til að vinna að restinni. Ef þeir geta hins vegar ekki látið af þessu ofstæki sínu neyðumst við "þjóðin" til að taka af þeim völdin sem við getum gert á tvennan hátt, annars vegar með því að kolfella stjórnarskrárfrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða með því að kjósa viðkomandi ofstækinga út í ysta hafsauga í kosningunum. Þjóðarinnar er valdið hvað það varðar.
Annars kemur það mér verulega á óvart að við þjóðin megum ekki fá að sjá álit Feneyjarnefndarinnar á frummálinu. Einhverra hluta vegna þarf að þýða álitið fyrst og þá auðvitað læðist sú spurning að manni: á að laga álitið eitthvað áður en það kemur fyrir sjónir þjóðarinnar eða jafnvel fella eitthvað brott úr því.
Ég skora á fjölmiðlana að krefjast þess að fá frumritið af þessu áliti og það strax ekki einhvern tíma síðar, því eins og formaður stjónskipunar- og eftirlitsnefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, er alltaf að leggja áherslu á þá er þessi vinna skv. ákvörðun og kröfu þjóðarinnar, þannig að hún Valgerður getur nú varla neitað þjóðinni um aðgang að frumritinu.
Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 13:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.