Frekar sorglegt

Það er frekar sorglegt að horfa á þessar eyðslutölur. Þessir bílar áttu að vera von og framtíð bílaiðnaðarins, drifnir áfram af rafmagni sem framleitt er með sprengimótor, sumir samnýta sprengimótor og rafmótor til drifrásar. Hver útsetningin nákvæmlega er skiptir ekki máli, heldur hitt að þarna átti að vera komin hin fullkomna lausn. Þessir bílar eru auglýstir sem rafbílar án þeirra takmarkana sem hreinn rafbíll hefur, skort á drægni.

Að sá bíll af þessari gerð bíla sem minnsta eyðslu hefur skuli eyða 4,7 l/100km, er sorglegt. Nú þegar er hægt að fá fjölda bíla með sprengimótor sem eyðir mun minna, bæði bensín og dísel. Volkswagen, Ford og Volvo bjóða allir bíla sem eyða undir 4 l/100km, bíla sem eru jafnvel stærri og rúmbetri en Príus C.

Og þróunin er hvergi nærri hætt. Nú hefur VW boðað að þeir muni koma með á markað á þessu ári dílelvél sem jafnvel er talin geta farið undir einn líter á hundraðið. Þeir segja reyndar að raunhæft sé að gera ráð fyrir að sú vél muni eyða eitthvað yfir líterinn, en þó vera vel innan tveggja lítra.

Þá eru Ford verksmiðjurnar á fljúgandi siglingu með sínar EcoBoost vélar og Volvo hefur náð undraverðum árangri. Fleiri framleiðendur hafa einnig náð ótrúlegum árangri á þessu sviði.

Það er því sorglegt að horfa upp á að tvinn bílarnir skuli vera orðnir úreldir, löngu áður en þeir urðu samkeppnishæfir. Framleiðslukostnaður þeirra er nánast að vera helmingi hærri en hefðbundins bíls af svipaðri stærð og héldu menn því fram að sá kostnaður myndi minnka eftir því sem salan eykst. Víða erlendis greiða stjórnvöld með þessum bílum, t.d. greiðir Bandaríkjastjórn $10.000 með hverjum seldum bíl sem búinn er þessum búnaði. Hér á landi eru vörugjöld mun lægri og nánast engin af þeim. Sennilega mun aldrei verða vitað hvort sú staðreynd er rétt að framleiðslukostnaður þessara bíla geti orðið samkeppnishæfur hefðbundnum bílum.

Tvinnbílar eru misheppnað hliðarhopp. Framtíðin liggur í rafbílum, en enn er nokkuð langt í að þeir geti tekið að fullu við af sprengimótornum. Þangað til mun hann verða ráðandi og með aukinni tækni verður eyðslu og mengun þeirra náð niður, auk þess sem vistvænna eldsneyti fyrir þá mun aukast.

Þessi þróun sprengimótorsins á allra síðustu árum er í sjálfu sér ekkert undarleg. Þessi vél hefur verið framleidd nánast óbreytt í yfir hundrað ár. Lítil þróun átt sér stað. Því er í sjálfu sér ekkert undarlegt þó þarna sé hægt að ná árangri. Á þetta stefna nú flestir bílaframleiðendur.

Ástæða þess að tvinnbíllinn mun aldrei geta keppt við hefðbundna bíla, er sá aukni þungi búnaður sem hann kallar á, þungar rafhlöður og í raun tvöföldu aflkerfi. Þá er framleiðslukostnaður þeirra langt frá því að vera ásættanlegur og enn hefur lítil umræða farið fram um hinn mikla kostnað við úreldingu þeirra.

 

 


mbl.is Tíu sparneytnustu tvinnbílarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband