SA duglegt að flytja sitt mál

Ekki hvarflar að mér að efast um tölur SA, að launahækkanir hér á landi hafi verið um 21,5% á sama tíma og meðaltals launahækkanir á hinum norðurlöndunum var 8,7%. Samtök eins og SA munu aldrei láta hanka sig á slíku smáatriði.

En þessi fullyrðing segir bara ekki neitt. Fyrir það fyrsta er það tímabil sem SA velur ekki réttlátt. Dæmið lítur öðru vísi út ef lengra tímabil er tekið, farið afturfyrir bankahrunið. Það má ekki gleyma þeirri staðreynd að hér varð bankahrun og það hrun olli kaupmáttarskerðingu upp á um 40%!

Þá segir ekkert að bera einungis saman launahækkanir en sleppa því að bera saman aðra tengda hluti, eins og t.d. verðbólgu, stökkbreytingu húsnæðislána, stór aukinni þáttöku fólks í kostnaði vegna grunnþjónustunnar, bæði heilbrigðisþjónustu sem menntunarþjónustu og síðast en ekki síst óraunhæfar og ósanngjarnar hækkanir á töxtum á allri þjónustu ríkis og bæja og fyrirtækja í þeirra eigu.

Það gera allir sér grein fyrir því að seint munum við ná sama kaupmætti og síðustu ár fyrir bankahrunið. Það gera einnig flestir sér grein fyrir því að mörg fyrirtæki berjast í bökkum og ástæða þess er að stjórnvöld hafa ekki staðið að því að hlúa að þeim eins og lofað var við gerð síðasta kjarasamnings. En það vita allir þeir sem eitthvað spá í raunveruleikann að fjöldi fyrirtækja er vel í stakk búinn til launahækkana. Þar má nefna fyrirtæki í sjávarútvegi og önnur þau fyrirtæki sem afla sinna tekna í erlendum gjaldeyri.

Sú stefna sem forseti ASÍ tók í samráði við forystu SA, í upphafi gerð síðustu kjarasamninga, þar sem geta verst stöddu fyrirtækjanna var látin ráða launahækkunum allra landsmanna, var röng og óréttlát. Það er aldrei svo að allar greinar atvinnulífsins séu á sama róli hvað varðar getu til launahækkana. Ef sú stefna verður ofaná að alltaf skuli miða við þau fyrirtæki sem verst standa mun Ísland sjálfkrafa verða láglaunaland, þar sem fátækt og örbyrgð verður talið eðlilegt ástand.

Því er mikilvægt í hverjum kjarasamningum að leggja áherslu á að sækja launahækkanir til þeirra fyrirtækja sem sannarlega geta hækkað laun. Hin látin bíða þar til betur árar hjá þeim. Einungis með þessari aðferð mun launafólk njóta hluta þess arðs sem það skapar og með þessari aðferð næst friður á vinnumarkaði.

Að sækja launahækkanir til fyrirtækja sem ekki hafa burði til að hækka laun, er eins og að pissa í skó sinn. Sú launahækkun er tekin af fólki með verðbólgu, enda eina leið þeirra fyrirtækja að velta þeim yfir í verðlag.

Svo er alltaf spurning hvenær fyrirtæki er í raun óstarfshæft, vegna þess að það getur ekki greitt mannsæmandi laun. En það er önnur saga.

Þau skemmdarverk sem forysta ASÍ vann á launþegahreyfingunni í síðustu kjarasamningum munu seint verða bætt. Fyrsti liður þess er þó að viðurkenna að sú stefna sem þá var tekin upp var röng.

En það er vart von til þess að ASÍ viðurkenni þau mistök og ástæða þeirrar ákvörðunar er einföld. Að baki henni liggja engin sannindi eða vísindi. Að baki þeirri ákvörðun liggur hugur barns, sem ekki getur viðurkennt eigin mistök af þeirri ástæðu að "óvinurinn" hélt uppi hörðum mótmælum gegn þeirri stefnu. Í þessu tilviki er "óvinurinn" ekki mótaðilinn við samningsborðið, heldur kemur hann úr herbúðum ASÍ, einn ákveðinn formaður verkalýðsfélags, sem hefur tekið þá stefnu að standa vörð sinna félagsmanna. Þroski forystu ASÍ er einfaldlega of takmarkaður til að skilja slík gildi.

Væringar innan launþegahreyfingarinnar mun aldrei skila árangri, sérstaklega þegar þær væringar skapast vegna þess að forystan tekur afstöðu gegn umbjóðendum sínum.

En aftur af frétt frá SA. Auðvitað halda þeir uppi öflugum áróðri gegn launahækkunum en ætla að sætta sig við að standa við samninginn, af "góðmennsku sinni". Þetta er þekkt og kemur engum á óvart. Að hluta til hafa þeir nokkuð til síns máls, því eins og áður segir stóðu stjórnvöld ekki við sinn hlut síðasta kjarasamnings, hlúðu ekki að rekstri fyrirtækja svo þau gætu staðið við gerða samninga.

En þó SA haldi uppi áróðri, er lágmarks krafa að þeir flytji sitt mál af sanngirni, að ekki sé vísvitandi og augljóslega verið að flytja mál með þeim hætti að vantrú fólks aukist á samtökunum.

Það er svo forystu launþega að benda á hversu rangur og ósanngjarn málflutningur SA er. Ekkert heyrist frá forystu ASÍ, einungis "óvinurinn" af Akranesi lætur frá sér athugasemdir við málflutning SA!!

 

 

Bara til að upplýsa þá sem hugsanlega átta sig ekki hver "óvinur" forystu ASÍ er, þá er ég auðvitað að tala þar um Vilhjálm Birgison, fomanns Verkalýðsfélags Akraness, einn örfárra verkalýðsforkálfa sem lætur umbjóðendur sína ganga fyrir og ber hag þeirra fyrir brjósti.

 


mbl.is SA: Miklar hækkanir falla hugsanlega niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband