Útúrsnúningar stjórnlagaráðsliða

Það er sorglegt að fylgjast með því fólki sem Alþingi skipaði í stjórnlagaráð, hvernig það bregst við gagnrýni og lítur sig stórt.

Nú stígur hinn góði læknir og ágætis manneskja, Katrín Fjelsted fram á völlinn og telur að gagnrýni sem fram hefur komið á afurð stjórnlagaráðs vera útúrsnúninga. Þar vísar hún t.d. til ummæla Gunnars Helga  Kristinssonar, stjórnmálafræðings. Hann byggir sína gagnrýni út frá sínum fræðum, stjórnmálafræðum. Sennilega þætti Katrínu skrítið ef einhver færi að gagnrýna hennar umfjöllun um læknisfræðileg málefni, jafnvel þó hinn sami væri skipaður í nefnd af Alþingi til að fjalla um slík málefni.

Hinir ýmsu hafa gagnrýnt störf og afurð stjórnlagaráðs, bæði leikir og lærðir. Þessi gagnrýni er ekki að hefjast núna, hún hefur staðið allt ferlið. Eðli málsins samkvæmt hefur sú gagnrýni á hverjum tíma snúið að þeim gjörðum sem gerð eru hverju sinni. Lengst af hefur sú gagnrýni snúst að umgerðinni. Það er erfitt að gagnrýna ógerða hluti, því var ekki hægt að gagnrýna efnið fyrr en það lág fyrir.

Afurð stjórnlagaráðs, var ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en nú á haustdögum, eftir yfirferð og breytingar frá þeim eina faghóp sem fékk að koma að því máli, lögfræðihóp. Engir aðrir fræðihópar fengu að segja sitt álit á þessari afurð. Því gat ekki hafist raunveruleg gagnrýni á hana fyrr en endanleg niðurstaða lá fyrir, þó vissulega margir hafi gagnrýnt afurðina hráa frá ráðinu, eftir að það sjálf hafði opinberað hana. 

Það er hægt að deila um hversu opið ferlið var og hversu gott aðgegni að stjórnlagaráði fólk hafði. Vefsíða þess var sannarlega opin, en einginn hafði vissu fyrir því hvort athugasemdir þess yrðu teknar til efnislegrar umfjöllunar. Því má kannski segja að ferlið hafi verið opið á annan veginn, að hægt hafi verið að fylgjast með því sem frá ráðinu kom, en engin vissa fyrir því að það sem til þess fór hafi komist til skila.

Læknirinn talar um útúrsnúninga, en sjálf leyfir hún sér að snúa út úr orðum stjórnmálafræðingsins, þegar hún talar um umboð stjórnlagaráðs. Þar var stjórnmálafræðingurinn að tala um þá fullyrðingu að störf stjórnlagaráðs væru í umboði þjóðarinnar. Það var ráðið vissulega ekki, heldur í umboði 30 þingmanna Alþingis, ekki einu sinni meirihluta þess. Það er með öllu útilokað að halda því fram að einhver sem kosinn er til ákveðins verks, hafi umboð til þess frá þeim sem kusu, eftir að æðsti dómstóll landsins hefur úrskurðað þá kosningu ógilda. Það þarf ekki að hafa lagt stund á nám í lögfræði, stjórnmálafræði né læknisfræði til að skilja þá einföldu staðreynd. Stjórnlagaráð starfaði í umboði Alþingis, ekki þjóðarinnar. Þetta var það sem stjórnmálafræðingurinn sagði. þó læknirinn kjósi að snúa út úr þeim orðum hans.

Þá hefur læknirinn uppi útúrsnúning varðandi það hvort um nýja stjórnarskrá sé að ræða. Ekki er víst að allir meðlimir ráðsins séu henni þar sammála. Hún segir að margar greinar í afurð stjórnlagaráðs séu orðréttar úr gildandi stjórnarskrá. Orðréttar eru þær ekki, en efnislega líkar eru sumar greinar. Væntanlega hefur læknirinn áttað sig á þeim afglöpum sem stjórnlagaráð gerði þegar það ákvað að gera nýja stjórnarskrá frá grunni. Í lögum sem sett voru af Alþingi um stjórnlagaþing og stjórnlagaráði gert að fara eftir, er skýrt hvert umboð stjórnlagaþings, síðar stjórnlagaráðs voru. Þar voru talin upp ákveðin efnisatriði sem átti að fjalla um og skoða sérstaklega, með tiliti til gildandi stjórnarskrár. Að lokinni þeirri upptalningu var síðan gefin heimild til að skoða fleiri greina gildandi stjórnarskrár, ef þingið/ráðið taldi þurfa. Hvergi í þessum lögum er veitt heimild til að semja nýja stjórnarskrá frá grunni. Því eru þessir aumu útúrsnúningar læknisins til að segja að ekki sé endilega hægt að tala um nýja stjórnarskrá, aumkunarverð afrsökun á því að hafa brotið þau lög sem ráðinu var gert að vinna eftir.

Ummæli læknisins um gagnrýni Sigurðar Líndals, dæma sig sjálf. Þau sýna kannski berst hver hugur stjórnlagaráðsmanna eru til þeirra sem reyna að nota þau fræði sem þeir hafa numið til að benda á ágalla þeirrar afurðar sem stjórnlagaráð hefur sent frá sér, reyna að benda á hverjar afleiðingar sú afurð getur leitt af sér. Þar er ekki svarað efnislega, ekki reynt að rökstyðja sitt mál og sýna fram á að þær ábendingar eigi ekki við rök að styðjast, heldur kastað fram frösum eins og "auðskiljanlegt öllum almenningi".

Þeir sem byggja sinn málstað á slíkum málflutning eru síst til þess fallnir og hafa síst efni á að væna aðra um úrtúrsnúninga!

Um tafirnir sem læknirinn nefnir mætti skrifa annan og lengri pistil. Það má þó benda lækninum á þá einföldu staðreynd að sú töf sem hefur orðið á þessu máli er hvorki stjórnlagaráði né Alþingi að kenna og vissulega ekki fræðimönnum eða þjóðinni. Þar liggur öll sök hjá stjórnvöldum og stjórnvöldum einum!

Sú staðreynd að það skuli hafa liðið meir en ár, nærri eitt og hálft, frá því stjórnlagaráð lauk sínum störfum þar til afurð þess var lögð fyrir Alþingi er stór undarleg. Stjórnlagaráð fékk fjóra mánuði til að vinna það verk að yfirfara stjórnarskrá landsins og nú á Alþingi bara að samþykkja þá yfirferð þegjandi og hljóðalaust. Ríkisstjórnin lá hins vegar á þessari afurð í nærri eitt og hálft ár án þess að vinna neitt að henni!

Þetta er virkilega umhugsunarefni. Við erum að tala um æðstu lög landsins, lög æðri öllum öðrum lögum. Sjálfa stjórnarskránna. Að úthluta einungis fjóra mánuði til skoðunar og breytinga á þessum æðstu lögum landsins er út í hött, að ætla svo alþingi nánast engann umræðurétt um málið er algjör vanvirða við lýðræðið.

Hver orsök þess er að stjórnvöld ákváðu að svæfa þetta mál í svo langann tíma sem raun ber vitni er óskiljanlegt. Einn helst er þó að sjá að valdhafar kæri sig ekkert um að breyrting verði gerð á sjórnarskránni, ekki á neinn hátt. Að þau séu að koma málinu þannig fyrir að það nái ekki fram á Alþingi fyrir þinglok og ætli síðan að kenna stjórnarandstöðunni um það, til að vinna sér atkvæði í komandi kosningum.

Læknirinn telur "ýmsa" vera að tefja framgang þessa verk og vera með útúrsnúninga. Varðandi töfina þá eru þessir "ýmsu" sjálf stjórnvöld. Að það fólk sem Alþingi skipaði í stjórnlagaráð skuli tala um útúrsnúninga þegar einhver gagnrýnir þeirra afurð, er vægast sagt svíviða. Það er enginn óskeikull, jafnvel þó hann hafi setið í stjórnlagaráði. Í ljósi þess stutta tíma sem ráðið fékk til sinnar vinnu, er nánast óhugsandi að afurð þess sé gallalaus og því ber að hlusta á alla þá sem koma fram með ábendingar, jafnt lærða menn sem leika.

Ef vilji er til nýrrar stjórnarskrár, er sá tími sem Alþingi telur sig þurfa til, notaður til þessa verks og leitað umsagna sem flestra um málið. Þeir sem vilja keyra þetta mál áfram af offorsi, vilja alls engar breytingar á stjórnarskrá. Þeir eru einungis að búa sér til hráefni fyrir næstu alþingiskosningar, búa sér til málefni sem þeir telja að hægt sé að veiða atkvæði á!

 


mbl.is Reynt að tefja og snúa út úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband