Stórfrétt sem fjölmiðlar virðast hafa lítinn áhuga á
20.12.2012 | 12:05
Í frétt Fréttablaðsins í gær kemur fram Bandaríkin hóta að setja íslensk skip niður um öryggisflokk ef ekki verði betur staðið að öryggi hafna hér á landi. Þetta kemur fram í bréfi frá nefnd sem hingað kom og skoðaði þessi mál, fyrir nokkrum vikum. Fyrstu viðbrögð innanríkisráðherra eru vægast sagt undarleg.
Ástæða þessara athugasemda bandarísku nefndarinnar er sú staðreynd að hér eru gerðar ýtrekaðar tilraunir svokallaðra hælisleitenda til að komast sem laumufarþegar í skip, sem héðan fara vestur um haf. Stjórnvöld virðast ekki hafa getu eða vilja til að taka á því máli sem skyldi.
Þarna er um tvennskonar mál að ræða, annarsvegar alþjóðlega samninga um siglingavernd, sem Ísland er aðili að og hins vegar hvernig Bandaríkjamenn vilja skilgreina sína landvörn í gegnum þann samning.
Hinn alþjóðlegi samningur um siglingavernd kom til fljótlega eftir árásina á tvíburaturnana í New York og er ætlaður til að auka varnir þjóða gegn ólöglegum flutningum fólks milli landa, auka varnir gegn hryðjuverkaógn og samhliða þessum samning er samningur um farmvernd sem er liður í því sama auk varna gegn smygli. Samningurinn tók gildi 1. júlí 2004. Þessi samningur er í eðli sínu mjög strangur, þó nokkuð misjafnt sé hvernig hann er framkvæmdur í hverju landi fyrir sig. Bandaríkjamenn hafa túlkað þennan samning mjög þröngt.
Hvernig hvert land hagar svo sínum landvörnum er auðvitað í þess valdi. Í Bandaríkjunum eru landvarnir frá sjó miklar og nýta þeir því þennan alþjóðasamning til að sporna gegn innflutningi ólöglegra innflytjenda, þá leiðina. Auk þess er þessi samningur stór liður hjá þeim til varnar hryðjuverkaöflum. Þetta er þeirra val og það hafa þeir vissulega og þeir sem hyggjast þangað sækja verða einfaldlega að virða það. Ekki er um oftúlkun samningsins að ræða af þeirra hálfu.
Það myndi valda miklum skaða fyrir landið ef Bandaríkin tækju þá ákvörðun að fella íslensk skip niður um öryggisflokk. Sú ávörðun leiðir til þess, eftir stöngust túlkun samningsins, að hver sú höfn sem skip í verndarflokk 2 kemur að, mun falla um flokk einnig og hvert það skip sem síðan kæmi í þá höfn sem skilgreind er í verndarflokk 2, mun einnig falla um flokk. Því er ljóst að skip sem felld eru um verndarflokk í einu aðildaríki þessa samnings, mun ekki geta lagt að höfn í neinu öðru ríki sem aðild hefur að samningnum. Landið gæti því orðið nánast sambandslaust við umheiminn, sjávarleiðina!
Þetta er graf alvarlegt mál og léttúð innanríkisráðherra nánast óskiljanleg. Hann segist hafa sannfærst fyrir sitt leyti að þessi mál séu í góðu farvegi hér á landi. Hann segist eiga erfitt með að skilja strangar aðfinnslur Bandaríkjamanna. Það kemur bara málinu ekkert við hver persónuleg skoðun ráðherans er eða skilningsleysi hans á málinu. Það sem skiptir máli er að Bandaríkin telja að ekki sé staðið að þessum vörnum hér á landi samkvæmt þessum alþjóðlega samning! Á því verða stjónvöld að taka.
Menn geta haft hinar ýmsu skoðanir á þessum samning, hvort hann sé réttlætanlegur, hvort hann sé of strangur, jafnvel hvort Ísland eigi að vera aðili að honum. En þessi samningur var gerður og Ísland gerðist aðili að honum. Því verðum við að uppfylla þennan samning og ef einhver aðildarþjóð hans krefst þess að stöngustu túlkun sé fylgt, verður bara svo að vera. Eina leiðin til að breyta því er að fá samningnum breytt, á þeim vettvangi sem það er gert.
Áhugaleysi fjölmiðla á þessu máli er þó eftirtektarverð. Verið getur að fréttafólk átti sig ekki á alvarleik málsins, en líklegra er þó að enginn þori að taka það upp. Vandinn hér er ekki vegna hryðjuverkaógnar, eða stórfellds smygls á ólöglegum eiturlyfjum. Vandinn hér snýr einkum að því að héðan reynir fólk að komast sjóleið vestur um haf, ólöglega. Þetta mál er einkum viðkvæmt í fjölmiðlum af þeirri ástæðu að þeir sem þetta hafa reynt, eru svokallaðir hælisleitendur. Og einhverra hluta vegna er umræðan um það vandamál tabú.
En vandin er til staðar, ekki einungis að hælisleitendur reyni að flýja hér land, heldur að sömu einstaklingar hafa verið uppvísir af síendurteknum tilraunum til þess.
Umræaðn um þennan vanda hefur oftar en ekki snúist upp í einhver annarleg sjónarmið, gjarnan talað um rasisma og útlendingahatur. Sú staðreynd að það eru einungis útlendingar sem eru gerendur í þessu máli hefur litlu breytt þar. Því virðist sem fjölmiðlar hafi einfaldlega tekið þá ákvörðun að tjá sig ekkert um þessi mál, af ótta við slíkan rasista eða útlendingahaturs stimpil. Þegar ekki erhægt að ræða vanda sem snýr að einhverjum ákveðnum hóp, án þess að eiga á hættu að vera vændur rasisma, er einfaldast að þegja.
Þögnin hefur þó aldrei leyst neitt vandamál, eins og best sést nú, þegar landið er á barmi þes að verða einagrað, vegna þagnar, viljaleysis og getuleysis stjórnvalda til að taka á þessum vanda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.