Reykjavík, borg allra landsmanna ?

Höfuðborg Íslands er Reykjavík, um það deilir enginn. Það segir að Reykjavík er borg allra landsmanna. Samt er það svo að einungis íbúar borgarinnar fara með völd innan Reykjavíkur og geta ákveðið allt sem innan borgarmarkanna er gert, eða ekki gert. Skiptir þar engu máli þó um mikilvæg mál fyrir aðra landsmenn sé að ræða, þeir fá engu um þetta ráðið.

Það má kannski taka tvö stór mál þessu til staðfestingar, tilvonandi Háskólasjúkrahús og innanlandsflugvöllurinn í Vatnsmýrinni.

Tilvonandi Háskólasjúkrahús mun verða byggt og borgað af öllum landsmönnum, enda fyrir alla landsmenn. Það er hins vegar í valdi Reykjavíkurborgar hvar þessi stofnun mun fá stæði, innan borgarmarkanna og þegar hefur verið tekin sú ákvörðun um að það muni verða í sunnanverðu Skólavörðuholtinu. Ein megin röksemdin er nálægð við innanlandsflugvöllinn í Vatnsmýrinni.

Á sama tíma vilja borgarbúar þennan flugvöll burtu, telja mýrlendið sem hann er byggður á betur fallið undir íbúðabyggð. Landsmenn, utan íbúa Reykjavíkur, geta ekkert við því gert. Þeir hafa engan kosningarétt í Reykjavík, borg allra landsmanna. Nú hefur tekist að ná meirihluta fyrir sölu á landi ríkissins í Vatnsmýrinni, þ.e. því landi sem liggur utan flugvallargirðingar. Eign ríkisins á landi í Vatnsmýrinni, bæði innan og utan flugvallargirðingar, er eini varnaglinn sem landsmenn hafa, er eina bremsan sem til er svo koma megi í veg fyrir brotthvarf vallarins úr mýrinni. Með sölu hluta þess er verið að veikja þennan varnagla.

Það er undarleg ráðstöfun að velja fyrst risa stóru háskólasjúkrahúsi staðsetningu í þröngri íbúðabyggð, vegna nálægðar við innanlandsflugvöll, en ætla á sama tíma að leggja niður þann flugvöll. Það er eitthvað þarna sem ekki gengur alveg upp. Ef þetta risasjúkrahús verður reyst við sunnanvert Skólavörðuholtið og flugvöllurinn síðan aflagður, mun öll umferð sjúklinga á þetta hátækni sjúkrahús þurfa að fara nánast í gegnum alla borgina og enda í þröngum götum Skólavörðuholtsins.

Því hefði verið betra að velja þessu risa hátæknisjúkrahúsi, sem reyndar er svo stórt að það verður örugglega orðið úrelt og húsakosturinn úr sér genginn þegar þjóðin loks nær þeim fjölda er þetta risa sjúkrahús hæfir, staðsetningu austar í borginni. Þar er víða nægt pláss og gatnakerfið mun betra en niðri á Skólavörðuholtinu.

Það er vandi að búa í höfuðborg lands. Íbúar slíkrar borgar hafa mikil völd, sem skipta alla landsmenn oft miklu máli. Því liggur vandi íbúa slíkra borga fyrst og fremst í því að líta ekki einungis í eiginn barm við ákvarðanir, heldur hafa hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi. Íbúar Reykjavíkur virðast oft gleyma þessu hlutverki sínu, sérstaklega þegar kemur að umræðunni um innanlandsflugvöll.

Það er því virkilega spurning hvort allar þær ákvarðanir sem borgarbúar þurfa að taka og snúa að landsmönnum öllum, verði teknar af þjóðinni í heild.

 


mbl.is Vilja selja land við flugvöllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Það er verið að þétta byggð.

Gagnast landsmönnum gríðarlega vegna m.a minni mengun og minni gjaldeyri úr landi í bensínkaup.

til hamingju ísland

Sleggjan og Hvellurinn, 28.11.2012 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband