Til hvers eru gerðir samningar ?
16.11.2012 | 12:33
Enn tíðkast svindlið og sérhagsmunastefnan, jafnvel hér upp á Akranesi! Árni Múli Jónasson, fráfarandi bæjarstjóri fær nú laun í sex mánuði en þarf einungis að skila einum þeirra í vinnu. Hvað er í gangi?
Forsagan er sú að Árni Múli varð leiður á "sumum bæjarfulltrúum" og taldi því best bara að hætta. Þá harmar hann að hafa ekki vald til að skipta þessum fulltrúum út, telur það hefði verið betra svo hann sjálfur gæti áfram verið í starfi. Þetta sýnir fyrst og fremst hroka mannsins, en einnig og kannski það sem mest er um vert, að hann sjálfur ákveður að hætta. Tekur reyndar sérstaklega fram að enginn ágreiningur hafi verið milli hans og forystumanna bæjarstjórnar, heldur einungis einhverja ótiltekna bæjarfulltrúa.
Fram kemur í frétt Skessuhorns að í ráðningasamningi Árna Múla við bæjarstjórn Akranes hafi verið þriggja mánaða gagnkvæmur uppsagnafrestur. Hvers vegna var sá samningur ekki látinn halda? Þriggja mánaða gagnkvæmur uppsagnafrestur er ekki flókin grein og því ekkert sem hamlar því að hún hefði verið látin standa.
Þar sem Árni Múli sagði starfi sínu lausu rétt eftir síðustu mánaðarmót, ætti uppsögn að taka gildi frá og með 1. des. næstkomandi og starfslok að vera 28. febrúar 2013. Þar með ætti launagreiðslum til hans að ljúka. Nú kemur einnig fram að starfskylda Árna Múla sé einungis til áramóta. Hvort það er að hans ósk kemur ekki fram, en ef svo er má einnig deila um hvort launagreiðslum skuli ekki ljúka þá. Ef það er krafa bæjarstjórnar að hann vinni ekki lengur, ber vissulega að greiða honum laun út febrúar.
Nú er það svo að hluti minna launa fer til bæjarsjóðs Akraness, í formi útsvars, fasteignagjalda og fleiri skatta. Þarna er því verið að fara með mitt fé. Það er þó ekkert sem ég get gert til að stöðva þessa vitleysu. Þarna er klárlega verið að brjóta samninga sem forysta bæjarins hafa gert, ráðningasamning við Árna Múla. Frá honum er horfið án frekari rökstuðnings og ákveðið að greiða manninum laun í þrjá mánuði til viðbótar. Ekki eru neinar foremdur til þess að gera slíkt. Árni Múli hlýtur að hafa vitað hver hans réttur var þegar hann ákvað að segja upp sínu starfi og vissulega hlýtur bæjarstjórn að vita hverjar skyldur ráðningasamningurinn setti á herðar bæjarsjóð vegna þeirrar uppsagnar. Ef þessi mál vefjast eitthvað fyrir bæjarstjórn, er einhver besti forystumaður í verkalýðshreyfingunni með aðsetur á Akranesi og hefði hæglega verið hægt að leita ráða hjá honum. Reynnsla hans af uppsögnum sinna umbjóðenda er mikil og þekking hans góð á því sviði, þó reyndar hans vinna felist oftast í því að sækja réttindi þeirra, ekki að standa vörð um að þeir fái of mikið.
Til hvers að gera samninga, hvort sem um ráðningasamninga eða aðra er að ræða, ef ekki er ætlunin að halda þá? Er hægt að treysta því að bæjarstjórn Akraness haldi aðra samninga sem gerðir hafa verið, eða er kannski gert mat á því hverju sinni hvort slíkir samningar skuli gilda? Að þar séu sérhagsmunir og fyrirgreiðsla látin ráða?
Það er vakna vissulega upp spurningar um hæfi bæjarstjórnar þegar svo er staðið að málum!
Á launum til 31. maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.