Hengingargálgar evrunnar

Það eru rúm þrjú ár síðan Írland varð fórnarlamb evrunnar, stuttu síðar Portúgal og Grikkland. Þessi lönd hafa öll dottið niður um fallhlera hengingargálga evrunnar, en þau fengu þó stólkoll sem þau gáti tillt löppunum á, svo snaran hertist ekki að hálsi þeirra. Í meir en tvö ár hafa svo þeim löndum evrunnar fjölgað sem eru komin með snöruna um hálsinn, þó fallhlerinn sé enn lokaður undir þeim. Þar er Spánn næstur því að hlerinn verði opnaður, en einnig má nefna önnur lönd, s.s. Möltu, Ítalíu og ekki þar langt undan, Frakkland.

Þessi þrjú ár hafa verið notuð til fundahalda. Hver fundurinn af öðrum, sumir neyðarfundir aðrir minni. Einstaka sinnum hefur þó verið gert hlé á þessum fundum, einkum ef einhver ríki hafa sýnt tilburði til lýðræðis. Þá hafa viðkomandi leiðtogar umsvifalaust verið teknir til bæna og þeim gert að láta af allri slíkri vitleysu, hið snarasta, annars hlyti þeir bágt fyrir.

Ekki hafa þessir fundir skilað neinu, hvorki neyðarfundir né aðrir. Stólarnir sem settir voru undir þær þjóðir sem þegar hafa fallið niður um fallhlerann, eru einu úrræðin.

Írland fékk sinn stól á tiltölulega gott undirlag, en nú þegar þeir vilja að hann verði hækkaður örlítið, til að hvíla tærnar, er sagt að það sé hægt, EN þá verði þeir að verða leiðitamari og hækka skatta á fyrirtæki. Þessu geta Írsk stjórnvöld illa gengið að, enda samningsbundin mörgum fyrirtækjum. Þeir munu því enn um sinn standa á tánum.

Grikkir voru heldur óheppnari. Þeirra stóll var settur á gljúpan sand og reglulega, þegar snaran er farin að herða mjög að, vegna þess að stóllinn sekkur í sandinn, er honum lyft örlítið. Þeir eiga enga von og bíða milli vonar og ótta hvenær hætt verði að lyfta stólnum, hvenær snara evrunnar verður látin herðast endanlega. Ekki er víst að neinir stólar verði tiltækir þegar Spánn, Malta og Ítalía falla niður um hlerana.

Nú heldur frú Merkel því fram að evrukreppunni muni ljúka eftir fimm ár. Eftir þriggja ára getuleysi er erfitt að leggja trúnað á slíkt, í það minnsta verður hún þá að fara að sýna einhvern árangur. Svo er ekki og eina lausnin virðist felast í því að búa til alræðisstjórn Evrópu, stjórn sem ekki verður kosin heldur skipuð. Slík afturför á lýðræðisrétti íbúa þessara landa mun ekki verða liðin og ljóst að friðarverðlaunahafinn ESB mun þá loga í styrjöld!

Frú Merkel hefur áhyggjur af því að erlendir fjárfestar trúi því ekki að evrulönd geti staðið við sín loforð. Þegar sífellt er lofað en engar efndir verða, leiðir það oftast til vantrúar. Þetta er óumflýjanleg staðreynd og ætti ekki að koma frú Merkel á óvart. Þetta segja staðreyndir, enda flótti fyrirtækja frá evrulöndum nú meiri en nokkur hefði getað gert sér í hugarlund. En það eru ekki bara erlendir fjárfestar sem draga sig út frá evrulöndum, innlend fyrirtæki eru í stórum stíl einnig að flytja sína starfsemi, að hluta eða öllu leyti, annað.

Vera má að þessi fullyrðing frú Merkel gangi í eyru héraðsstjóra kristilegra demókrata í Þýskalandi, en ljóst er að þær þjóðir sem nú hanga í snöru evrunnar og þau lönd sem bíða þess að fallhlerinn verði opnaður undir þeim, taka lítið mark á slíkri fullyrðingu. Fjárfestar svara á þann hátt sem þeim er lagið og greinilegt að meira þarf til að fá þá til að TRÚA, en einhver orð frá frú Merkel. Þeir horfa á hengingargálgann, sjá hversu hratt þeim fjölgar og forða sér því burtu!!

 


mbl.is Merkel: Fimm ár í lok skuldakreppunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband