Lenging vinnuviku ?

Frakkar hafa haft 35 tíma vinnuviku í rúmann áratug. Fyrir kosningarnar síðasta vetur, þar í landi, var eitt af baráttumálum Sarkozy að lengja vinnuvikuna, en Holande og hans fólk tók harða afstöðu gegn slíkri breytingu. Nú hefur forsætisráðherra Frakklands gefið út að sjálfsagt sé að skoða þessa leið, þrátt fyrir fyrri loforð. Það er þá ekki bara hér á Íslendi sem vinsrti pólitíkusum er ekki treystandi, það er einnig í Frakklandi og kannski um allan heim. Það er eins og loforð séu eitthvað sem vinstri pólitíkusar telji bráðnauðsynlegt að svíkja.

En aftur að styttri vinnuviku. Nú má endalaust deila um hversu löng vinnuvikan skuli vera, hver hinn heilagi sannleikur lengdar hennar er. Það er þó ljóst að ef vinnuvika er lengd, ætti hver starfsmaður að skila meira verki. Að lengja hana úr 35 tímum í 39, eins og forsætisráðherrann gefur í skyn, þýðir um 10% aukið vinnuframlag hvers launamanns. Þetta er auðvitað nokkuð gott og ætti öllum að líka slík breyting. Eða hvað? Ekki kemur fram í fréttinni hvort laun fólks eigi að hækka til samræmis, líklegt þó að það sé ekki ætlunin. Ef laun hækka til samræmis, breytir þetta í raun engu nema atvinnuleysi eykst, en ef ætlunin er að fólk leggi þessa auknu vinnu á sig án launahækkunar til samræmis, er hagnaður atvinnurekenda augljós.

Ef vinnuvikan er lengd um 10%, mun hver launamaður skila meira vinnuframlagi. Þetta hefur augljóslega þann fylgikvilla, þar sem vinna er í takmörkuðu boði, að fjöldi atvinnulausra eykst. Og ef ætlunin er að þessi aukning á vinnuframlagi sé lögð fram án aukinna launa, mun ríkissjóður tapa skattfé. Þá er verið að leggja fram vinnu án launa, kallast hér á landi "svört vinna". Á sama tíma mun ríkissjóður Frakklands þurfa að standa undir enn fleiru atvinnulausu fólki.

Það er sama hvernig þessu máli er velt, öll rök mæla gegn því, sérstaklega í landi sem býr við mikið atvinnuleysi. Reyndar ekki alveg rétt hjá mér að öll rök mæli gegn þessu, þar sem atvinnurekendur munu græða.

Þessi hugmynd er jafn heimsk og hugmyndir um lengingu starfsaldurs. Báðar þessar hugmyndi leiða til aukins atvinnuleysis og það aukna atvinnuleysi mun fyrst og fremst bitna á því fólki sem er að reyna að koma sér inn á vinnumarkað, unga fólkinu. Það kemur svo sem ekki á óvart að slíkar hugmyndir skuli koma frá vinstri væng stjórnmála, því fólki sem sækir sín atkvæði til þeirra sem minna mega sín. Þar eru atkvæði sótt á einn stað en unnið fyrir aðra!

Ef þjóð byggi við skort á vinnuafli, ekkert atvinnuleysi væri til staðar, væru þessar leiðir réttar. En í löndum þar sem atvinnuleysi er rótgróið og er að aukast stórum skrefum, eru þessar hugmyndir fáráðnlegar og í reynd með öllu óskiljanlegt að nokkur skuli láta slíka vitleysu frá sér. Þeir sem slíkt gera hljóta að fá vel greitt frá atvinnurekendum, hljóta að vera á launum hjá þeim við að koma þessum málum í gegn.

 


mbl.is 35 tíma vinnuvikan undir í Frakklandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Hvers vegna heldur þú að atvinnuleysi sé landlægt í Evrópu? Hvers vegna heldur þú að atvinnuleysi meðal ungs fólks sé jafn mikið og raun ber vitni? Óheppni? Bara kreppunni að kenna? Nei!

Yfirleitt skrifar þú fína pistla en í þessum ferðu heldur betur út af sporinu. Annars er þessi frétt svo óljós að erfitt er að átta sig á því hvað á eiginlega að gera. Hitt veit ég að Frakkar nálguðust þjóðargjaldþrot verulega þegar þeir kusu yfir sig Hollande sem ætlar sér að endurtaka mistök sem oftsinnis hafa verið gerð. Sósíalistar kunna bara að búa til efnahagslega vandamál, þau kunna þeir ekki að leysa.

Málið er að þegar stjórnmálamenn og hið opinbera fara að leysa vandamál sem ekki eru til staðar er voðinn vís. Tveimur mánuðum eftir hrunið mikla 1929 náði atvinnuleysi hámarki, 9%. Næstu sex mánuði minnkaði það í rykkjum og var komið niður í 6% þegar ameríska ríkið ákvað að leysa vanda sem þegar hafði leyst sig sjálfur. Eftir "hjálp" frá stjórnmálamönnum varð atvinnuleysið alltaf í tveggja stafa tölu allan fjórða áratuginn (fór á tímabili uppí um 20%) og ameríska ríkið safnaði miklum skuldum. Þá eru ótalin félagslegu vandamálin sem stjórnmálamenn bjuggu til með sínum afskiptum. Lexían: Halda stjórnmálamönnum eins langt frá efnahagsmálum og hægt er.

Sama má segja um húsnæðisbóluna, stjórnmálamenn sögðu að allir ættu að hafa efni á eigin húsnæði og að húsnæði væri of dýrt. Þetta sögðu þeir þó raunverð húsnæðis í USA hefði farið lækkandi árin á undan. Svo þvinguðu þeir banka til að lána fólki sem ekki gat borgað. Restina þekkja margir.

Störf verða ekki til nema verðmæti séu sköpuð. Staðan í Evrópu er m.a. því að þakka að verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn ákváðu að gera vinnandi fólki bjarnargreiða. Þar er t.d. svo erfitt að losna við ónothæfa starfsmenn að atvinnurekendur ráða helst ekki fólk.

Kostnaður er íþyngjandi og nýsköpun vart til staðar í Evrópu. Svo er búið að klína alls kyns gjöldum á atvinnurekendur fyrir þá starfsmenn sem þeir eru með í vinnu hjá sér. Þetta dregur líka úr ráðningum. Þetta vill hins vegar enginn heyra.

Ef fólk vinnur meira hefur það meira á milli handanna til að eyða. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér að launum eða vinnutíma. Þegar NAFTA fór í gegn voru margir hræddir um að störfum í USA myndi fækka á kostnað starfa í Mexíkó. Vissulega fjölgaði störfum í Mexíkó en líka í USA vegna þess að kaupmáttur Mexíkana jókst og samfara því líka neysla þeirra. 

Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr í framleiðni og samkeppnishæfi. Að gera ekkert er því ekki valmöguleiki. Af hverju heldur þú að atvinnuleysi innan ESB sé nú að meðaltali 11% en hafi verið 10% í fyrra? Að lengja vinnuvikuna mun fjölga störfum því meiri verðmæti verða til.

Ef Hollande og félagar skella 70% skatti á alla þá sem hafa yfir milljón evrur í árslaun mun atvinnuleysi aukast enn meira vegna fjármagnsflótta. Svona skattheimta er ekki ný á nálinni og hún hefur ALLTAF reynst illa!

Ríkisstjórnir á Vesturlöndum elska ný störf en hata þá sem þau búa til. Afleiðingarnar af þessu sjáum við alls staðar í kringum okkur! Evrópu bíður ekkert nema hnignun :-(

Helgi (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 22:01

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er ekki neitt launungarmál að lág laun og þar með langur vinnutími eru meginorsök lágrar FRAMLEIÐNI hér á landi.  Mér er alltaf minnistætt viðtal við Pólskan verkamann hér á landi, fyrir mörgum árum.  Hann var meðal annars spurður að því hvort honum þætti Íslendingar ekki vinna mikið?  Hann þagði góða stund en sagði svo:"Þeir eru mikið  í  vinnunni"............ Það er nefnilega ekki samhengi milli langs vinnutíma og mikilla afkasta.

Jóhann Elíasson, 30.10.2012 kl. 22:05

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka góða athugasemd, Helgi.

En ég var ekki að skrifa um stjórnun eða stjórnhætti, að öðru leiti en því er snýr að lengingu vinnuviku. Ég tek ekki afstöðu til hversu löng hún eigi að vera, einungis hver áhrif á lengingar hennar.

Þá tek ég ekki afstöðu til eða skilgreini á neinn hátt hvers vegna atvinnuleysi er landlægt í Frakklandi og nefni hvorki Evrópu, Mexíkó né USA í mínum pistli.

Að öðru leiti get ég verið nokkuð sammála þinni athugasemd, þó hún eigi í raun ósköp lítið skilt við minn pistil.

Hann var fyrst og fremst um það hver áhrif styttingar vinnuviku hefur.

Gunnar Heiðarsson, 30.10.2012 kl. 22:12

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá þér Jóhann, það er ekki endilega samasemmerki milli lengri vinnutíma og aukinna afkasta. En varla er meiningin hjá ráðamönnum í Frakklandi að lengja vinnuvikuna til þess eins að fólk sé lengur í vinnu, það hlýtur að vera meiningin að auka afköst hvers starfsmanns.

Hitt er svo aftur annað mál að engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng vinnuvikan ætti að vera svo afköst séu hámörkuð. Það væri kannski rétt að byrja á slíkri rannsókn og festa síðan lengd vinnuviku við þann tíma sem gefur mest af sér.

LEIÐRÉTTING við fyrri athugasemd mína; þar átti auðvitað að standa "lengingar" í síðustu setningu.

Gunnar Heiðarsson, 30.10.2012 kl. 22:20

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Án þess að hafa vissu fyrir því, er það mitt álit að við ættum að halda okkur við 40 stunda vinnuviku og að launin fyrir þann tíma ættu að vera þannig að fólk geti lifað af því.  Fyrir nokkrum árum bjó ég í Noregi og þar datt engum heilvita manni í hug að vinna yfirvinnu, bæði vegna þess að þá fóru 80% launanna í skatta og svo vegna þess að menn gátu bara lifað þokkalegu lífi á dagvinnunni.  Þar er FRAMLEIÐNI líka mun hærri en hér á landi.  En auðvitað þyrftu að fara fram almennilegar rannsóknir á því hversu löng vinnuvika væri hagkvæmust...............

Jóhann Elíasson, 30.10.2012 kl. 23:44

6 Smámynd: Bragi

Litla þjóðfélagið okkar hefur örugglega eitthvað að gera með lága framleiðni. Hér skreppur fólk reglulega frá vinnu vegna þess að stutt er að skreppa. Slíkt bitnar á vinnuframlagi. Einnig eru margir vinir sem vinna saman vegna smæðar þjóðfélagsins, sem gæti hugsanlega haft þau áhrif að fólk telji sig ekki vera í jafn mikilli hættu á að verða atvinnulaust jafnvel þó það vinni ekki jafn mikið.

Einnig má t.d. nefna að við erum afar langt á eftir öðrum þjóðum þegar kemur að rafrænni þjónustu. T.d. er rafræn stjórnsýsla hér á landi skammarleg. Það hefur líka áhrif á framleiðnina. Hugsanlegt er að þetta muni taka við sér á næstu misserum þar sem stöðnun hefur ríkt í þessum málum sl. 4 ár vegna hrunsins.

Ég er á því að stytting vinnuviku hér á landi myndi leiða til hærri framleiðni vinnuaflsins og einnig ef það væri tekið harðar á þessum "skreppum" úr vinnu. Rafræni þátturinn myndi einnig auka framleiðnina eitthvað.

Bragi, 31.10.2012 kl. 01:15

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hér á landi er vinnuvikan í flestum tilfellum 37t og 25 mín. þó enn séu nokkrir hópar sem þurfa að skila 40 tímum á viku. En þetta segir ekki alla söguna, þar sem meðaltals stundarfjöldi sem skilað er hér á landi er mun meiri. Kannski þar sé einhver skýring á minni framleiðni hér miðað við sum önnur lönd.

Hvort þessi fjöldi, 37:25 sé hinn rétti vil ég ekki dæma, en það hlýtur þó að skipta máli hvernig vinnu um er rætt. Það er t.d. ljóst að þeir sem vinna vaktavinnu ættu að hafa styttri vinnuviku en þeir sem vinna einungis dagvinnu.

Hver svo sem sá tími sem talinn er bestur í vinnuviku, ætti sá tími að gefa næg laun til að lifa af. Það er ekki eðlilegt að reka fyrirtæki, hvað þá heilt þjóðfélag eins og hér á landi, þar sem fólk verður að vinna einhvern ótiltekinn fjölda yfirvinnutíma til þess eins að halda lífi. Þetta er skaðlegt fyrir launþegann, þetta er skaðlegt fyrir fyrirtækið og þetta er skaðlegt fyrir þjóðfélagið.

Þá ætti einnig að setja mörk á það hversu löng hver vinnutörn er. Þeir sem vinna dagvinnu vinna fimm daga, þurfa að skila 37:25 tímum í dagvinnu og síðan einhver fjöldi yfirvinnutíma. Vinnutörn þeirra er í flestum tilfellum einhversstaðar á milli 40 - 50 vinnustundir.

Það er hins vegar algengt að þeir sem vinna vaktavinnu skili af sér um og yfir 80 stunda vinnutörnum. Það er varla hægt að kalla slíkt vinnu og ljóst að svo löng vinnutörn er ekki að skila mikilli framleiðni.

Gunnar Heiðarsson, 31.10.2012 kl. 03:39

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Án þess að hafa stúderað þetta sérstaklega, held ég að hugmyndin sé einfaldlega að atvinnurekendur geti fjölgað þeim klukkustundum sem þeir greiða dagvinnu fyrir um 4.

Það þýðir ekki að allir þurfi að vinna 4. klukkustundum meira fyrir sömu laun, heldur fyrir sama tímakaup.

Þ.e. hafi menn krónu á tímann, þá hafa þeir fengið 35kr fyrir. Verði vinnustundum fjölgað, þá hefðu atvinnurekendur heimild til að láta menn vinna 39 stundir og borga þeim 39 krónur fyrir.

Eitt af vandamálum Fransks iðnaðar er að kostnaður þar er meiri en t.d. í Þýskalandi. Bílaframleiðendur í Frakklandi hafa talað um u.þ.b. 14% mun.

Ef yrði af þessri breytingu, þá gæti það leiðrétt þann mun að hluta til.

G. Tómas Gunnarsson, 31.10.2012 kl. 09:52

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef þetta er hugmyndin G.Tómas, væri eins hægt að fjölga starfsmönnum um einn á móti hverjum níu og greiða þeim dagvinnulaun. Það ætti að koma í sama stað niður og það liggur í augum uppi hver áhrif slík fjölgun hefði á atvinnuleysi.

Við erum að tala um ákveðið vinnuframboð. Ef því er sinnt með lengri vinnuviku hlýtur það að draga úr fjölda þeirra sem þetta ákveðna vinnuframlag skila.

Gunnar Heiðarsson, 31.10.2012 kl. 18:38

10 identicon

@9:

Þetta snýst um hagkvæmni, án hagkvæmni verða ekki til verðmæti. Íslenskur sjávarútvegur gæti auðvitað bætt við sig störfum en það kæmi niður á hagkvæmninni, framleiðni per starfsmann myndi minnka sem myndi ýta upp verði og draga úr eftirspurn sem aftur veldur fækkun starfa.

Ef fólk vill hærri laun ætti það ekki að snúa sér til SA eða verkalýðsleiðtoga sinna heldur hins opinbera og krefjast tafarlausrar lækkunar allra opinbera gjalda. Hið stóra opinbera bákn hér heldur niðri launum fólks og fjölgun starfa. Hið sorglega er að fólk skuli ekki vita það :-( 

@8: Athyglisverðar upplýsingar frá þér um þennan 14% kostnaðarmun!

Helgi (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 06:56

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Málið er ekki svo einfalt að það sé það sama að fjölg fólki og fjölga tímum.  Hvert "vinnupláss" kostar.  Ef þú vilt framleiða fleiri bíla, er einfaldara að vinna fleiri stundir heldur en að stækka "færibandið", ef það er yfirhöfuð mögulegt.

Stundum er hægt að setja á aðra vakt, en stundum er það of mikið og betra að lengja þá frekar.  Ekkert er einhlítt.

Eitt af því sem gerði Islenska frystitogara svo hagkvæma, og skapaði þeim gríðarlegt forskot gagnvart landvinnslu, var gríðarlega góð nýting á fjárfestingu.

Þar er unnið 24 tíma á sólarhring alla daga vikunnar og stutt stopp í landi.  Dýr "vinnupláss" eru nýtt til hins ýtrasta.

Hvort 35, eða 39 stundir, eða einhver önnur tala er rétta viðmiðið til að tryggja hámarks framleiðni per klukkustund, er svo önnur vísindi sem ég ætla ekki að fullyrða um.  En ef unnið er of lengi, hættir framleiðni oft til að detta niður.

G. Tómas Gunnarsson, 2.11.2012 kl. 06:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband