Rammaáætlun
29.10.2012 | 18:58
Svo stjórnvöld fái notið sanngirni, þá er ljóst að það ferli sem þau lögðu af stað með varðandi rammaáætlun um orkunýtingu og vernd náttúrunnar, mjög gott. Þar var farin sú leið sem oftar mætti sjá, settur saman hópur allra þeirra sem telja sig hagsmuna hafa að gæta. Þessi hópur komst að niðurstöðu, þó auðvitað ekki væru allir sammála að fullu, en sátt náðist og hún lögð í hendur stjórnvalda.
Nokkuð er síðan þessu ferli lauk og málið sett í hendur stjórnvalda, til afgreiðslu á Alþingi. En þá skeði það ótrúlega, skeði það sem ekki hafði hvarflað að nokkrum manni. Þessi sátt sem hafði verið unnið að, var tekin af einum ráðherra ríkisstjórnarinnar og hent í ruslakörfuna! Ráðherrann sagði í fréttum við það einstaka tækifæri, að henni þætti þessi sátt ekki viðunandi, að hún ætlaði sér að láta sína pólitísku réttsýni ráða þessu máli!
Auðvitað fór málið allt í eitt allsherjar uppnám. Bæði þeir sem vildu frekari vernd sem og þeir sem villdu frekari nýtingu, töldu þarna að ráðherra hefði gengið brotlega gegn þeirri vinnu sem hafði verið unnin og snerust gegn henni, hvor á sinn hátt. Þó ráðherra gæfi í skyn að hennar pólitíska réttsýni lyti að frekari verndun, þóttu verndarsinnum það ekki duga, þeir vildu nú enn frekari vernd.
Loks, eftir langa bið, komu svo tillögur ráðherra fyrir Alþingi og ljóst að engin samstaða var um málið, ekki við stjórnarandstöðuna og enn síður milli stjórnarþingmanna. Málið var svo afgreitt til nefndar og virðist vera sem sú nefnd hafi nú gefist upp. Málið skal afgreitt til Alþingis án þess að meirihluti stjórnarliða liggi fyrir. Reyndar ekki tryggur meirihlutu fyrir málinu, yfirleitt.
Þarna var farið vel af stað og málið unnið í sátt. Sú vinna skilaði árangri. Ráðherra kastar þeirri sátt fyrir róða og setur málið í algjört uppnám. Nú skal það lagt fyrir Alþingi, upp á von og óvon og reynt að mynda einhverskonar meirihluta svo það verði afgreitt sem lög!
Ef eitthvað málefni er viðkvæmt er það hvernig skuli nýta þær náttúruauðlindir sem landið okkar býður. Með hvaða hætti skal að því staðið og hvaða náttúruauðlindir skal standa vörð um. Því er rammaáætlun svo mikilvæg.
En slík áætlun er einskisvirði ef hún er keyrð gegnum Alþingi í ósátt við stórann hluta þess, keyrð í gegn með minnsta mögulega meirihluta. Slík áætlun er einskisvirði ef hún er samþykkt frá Alþingi í ósátt við flesta eða alla þá sem málið skipta. Því var sú leið sem fyrst var farin svo aðdáunarverð og hún skilaði vissulega árangri.
Það var því sárt að sjá heimsku ráðherrans, þegar hún kastaði þeirri vinnu á glæ!
Því miður er þetta ekki eina dæmið um heimskuleg vinnubrögð stjórnvalda, þar sem vel er farið af stað en málið síðan rifið í tætlur á stjórnarheimilinu. Stjórn fiskveiða er einn alsherjar farsi sem byggði á sömu vinnuaðferð.
Varla samþykkt samhljóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.