Að loknum næstu kosningum
15.9.2012 | 21:59
Ekki er í dag hægt að segja neitt um hvernig niðurstaða næstu þingkosninga muni fara, samt eru stjórnmálaflokkar farnir að sverma hver í annan, eins og lóða tíkur.
Formaður VG nudar sér utaní Framsóknarflokkinn og býður honum að stjórnarborðinu með Samfylkingu. Ekki er víst að mikill vilji sé innan Framsóknar fyrir slíku samstarfi og ekki heldur víst að hugur Samfó sé á þann veg heldur. Framsóknarflokkur varði minnihlutastjórn VG og Samfó, frá 1. feb. 2009 fram yfir kosningar þá um vorið. Reynsla flokksins af þeim stuðning var vægast sagt slæm, þar sem stjórnarflokkarnir stóðu ekki við þau fáu skilyrði sem Framsókn setti. Þá er þekkta að höfuðóvinur Samfylkingar hefur ætið verið Framsóknarflokkur og borin von til að það muni breytast.
Innan Samfylkingar er æ stærri hópur sem vill í samstarf við Sjálfstæðsflokk, vekja upp gömlu hrunstjórnina. En Sálfstæðismenn brenndu sig illa á síðasta samstarfi þessara flokka og þeim svikum sem á eftir fylgdu. Landsdómsmálið og hvernig Samfylking reyndi að þvo sínar hendur af hruninu, með því að benda á samstarfsflokkinn og hvernig forusta flokksins hefur talað um Sjálfstæðisfólk í heild, er varla grunnur að samstarfi þeirra á milli. Þó eru til innan Sjálfstæðisflokks fólk sem ekkert vildi frekar en að slíkt sjórnarsamstarf yrði að veruleika, en það fólk er í röngum flokki, það á einfaldlega heima í Samfylkingu. Þetta eru þeir örfáu ESB sinnar sem enn eru innan flokksins.
Þessar hugleiðingar manna miða að sama marki, að halda Samfylkingu við stjórn áfram. Þarna eru menn að leita leiða til að viðhalda aðildarviðræðum áfram. Það verður einungis tryggt með því að Samfylking fái inni í stjórnarráðinu.
Það er því brýnt, hvar í flokki sem menn standa en eru andvígir aðildarviðræðum við ESB, að hugsa rökrétt í næstu kosningum. Það verður einungis gert með því að kjósa Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk. Einungis með því stjórnarsamstarfi er hægt að halda Samfylkingu utan stjórnarráðsins, en það er lykillinn að því að sú helför sem nú er gengin til Brussel, verði stöðvuð. Það er lykillinn að því að aldrei verði lagt aftur í slíka för, nema með samþykki þjóðarinnar.
Það er sama hveru illa mönnum hugnast að fá þetta stjórnarmynstur aftur, þetta er einfaldlega eini raunhæfi möguleikinn. Forusta VG hefur gefið út að hún muni ekki ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokk og þar með útilokað fyrir andstæðinga ESB aðildar að kjósa þann flokk. Reyndar hefur þessi sama forusta sýnt það í verki að loforð eru lítils virði, svo allt eins gæti skeð að henni snúist hugur að loknum kosningum, þ.e. ef þeir á annað borð ná inn einhverjum þingmanni.
Aðildarumsókn okkar að ESB er eitthvað stæðsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, sama hvernig á það er litið. Þetta er spurning um sjálfstæði landsins, spurning um hvort við viljum setja okkar eigin lög, eða hvort Alþingi á að verða afgreiðslustofnun fyrir Evrópuþingið. Þetta er spurning hvort við viljum vera fullgild meðal allra þjóða heims, eða hvort við viljum verða sem lítið hérað í lokaðri Evrópu!
Öll önnur málefni falla í skugga þessa máls, enda sama hvað við samþykkjum eða gerum nú, eftir aðild verður sú vinna öll fyrir bý. Þá mun lagabálkur ESB taka yfir. Fiskveiðistjórnunarkerfið, sem stjórnvöld eru svo umhuguð að breyta, mun verða afnumið og tekin upp rányrkjustefna ESB í staðinn. Stjórnarskrármálið mun engu skipta eftir aðild, þar sem lög ESB eru stjórnarskrám landa þess yfirsterkari. Svona mætti halda áfram að telja, þau mál sem nú brenna mest á þjóðinni eru sem hjóm eitt samanborið við aðild að ESB.
Því verða næstu kosningar óneitanlega fyrst og fremst um það mál og því mikilvægt að kjósendur vegi og meti þær út frá þeirri staðreynd. Allar aðrar skærur verða að víkja og þeir sem eru umhugað um sjálfstæði landsins verða að sameinast um þá raunverulegu kosti sem fyrir liggja svo helferðin verði stöðvuð!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.