Endalokin nálgast
5.8.2012 | 12:42
Fyrir um 60 árum síðan, árið 1952, tók Kola og stálbandalag Evrópu til starfa og voru Beneluxlöndin, ásamt Frakklandi, Vestur Þýskalandi og Ítalíu, stofnendur þess. Viðræður höfðu staðið milli Frakklands og Vestur Þýskalands frá stríðslokum um þessa stofnun.
Það var svo við samþykkt Rómarsáttmálans, 1957, sem Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) var stofnað. Árið 1967 tók svo gildi samrunasáttmálinn, en hann setti EBE undir einn hatt.
Maastricht samningurinn var svo undirritaður árið 1993 og þá varð til Efrópusambandið (ESB)
Síðasta stórbreyting sambandsins var svo við gildistöku Lissabonsáttmálans, 1. des. 2010. Þar varð í raun um grundvallarbreytingu að ræða. Völd stofnana ESB voru stóraukin auk þess sem völd hinna stærri ríkja sambandsins verða aukin á kostnað hinna minni. Neitunarvald einstakra ríkja innan framkvæmdarstjórnar og ráðherraráðs verður einnig afnumið, en það hefur í raun verið eina vopn hinna smærri ríkja sambandsins.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, heldur því nú fram að ef evran hrynur þá muni ESB einnig hrynja. Hann talar um evruvandann sem einhverja sjálfstæða persónu, með sjálfstæðum vilja.
Evruvandinn er mannana verk, tilkominn vegna þeirrar ákvörðunar stjórnmálamanna, í andstöðu við alla þá hagfræðinga sem kynntu sér málið, að taka upp einn gjaldmiðil yfir mörg hagkerfi. Það er því mannana verk að leiðrétta þessa vitleysu. Hver ástæða liggur að baki þess að álit hagfræðinga voru hundsuð er mönnum hulið, en það er jú svo um mörg verk stjórnmálamanna.
Hvernig gat samvinna ríkja Evrópu, fyrst í KsE, síðan í EBE og loks ESB, gengið í 50 ár án sameiginlegs gjaldmiðils, ef hún mun svo hrynja við fall þessa gjaldmiðils, eftir 10 ára tilveru?
Það er auðvitað svo að það er algerlega undir ráðamönnum ESB ríkjanna komið hvort sambandið lifir af fall evrunnar. Þeir geta auðvitað séð svo um að það muni falla með evrunni og eru reyndar á góðri leið með þá vegferð, eins og fréttin greinir frá, en þar er haft eftir Monti:
Álagið, sem hefur fylgt evrusvæðinu undanfarin ár, er þegar farið að bera einkenni sálfræðilegrar sundrungu í Evrópu.
Þessi orð segja mikið, einkum þó að evran er orðinn mikill baggi á ríkjum evrulanda og elur á sundrungu og reiði milli þeirra. Það er því spurning hvort ekki væri rétt, til bjargar samvinnu Evrópulanda, að afnema þennan skaðvald, sem ekki einu sinni er að leggja hvert ríki þess í fjárhagslega auðn, heldur einnig að skapa úlfúð og sundrung milli þeirra ríkja sem gjaldmiðilinn hafa?
Hvort ekki væri rétt að grípa inní áður en það er orðið of seint, áður en stríðsástand skapast? Eða eru þessir stjórnmálamenn kannski hræddir við þann óskapnaðurinn sem þeir skópu?
Það er hverjum ljóst sem vill vita að evrunni verður ekki bjargað úr þessu. Til þess er einfaldlega ekki til nægt fé. Bara sú aðstoð sem talin er þurfa sem fyrsta hjálp Spánar, er upp á 650 milljarða evra (nærri 100.000 milljarða íslenskra króna - 100.000.000.000.000.kr). Þetta er bara fyrsta hjálp til Spánar, en ekki endaleg lausn. Þá er Grikkland enn í miklum vanda og í raun búið að afskrifa þá þjóð, með mús og manni. Irland og Portugal hafa lítið verið í fréttum undanfarið, en ástandið í þeim löndum er slæmt og ljóst að þau þurfa frekari aðstoð. Þetta eru þau lönd sem þegar eru komin í alvarleg vandræði vegna evrunnar.
Ítalía er talið koma næst. Hagkerfi þess er þó mun stærra en Spánar og því má búast við að sú aðstoð sem þangað þarf að senda verði enn hærri. Frakkland er á bjargbrúninni og gæti allt eins orðið á undan Ítalíu.
Samhliða þessu er þessum ríkjum svo settar slíkar skorður og kröfur um samdrátt, að vandinn getur einungis magnast.
Það er því deginum ljósara að hvorki er til fjármagn til björgunar evrunni, né eru aðgerðir ráðamanna evrulanda til þess fallnar að björgun geti átt sér stað. Evran mun falla.
Það er svo undir ráðamönnum evruríkja komið hvort samvinna og friður mun haldast innan Evrópu, hvort þeir legg sig fram um að halda lífi í ESB, eftir fall evrunnar.
Ef Evrópa sundrast verður það ráðamönnum ríkja evrunnar um að kenna, ekki sjálfum gjaldmiðlinum. Ábyrgð þeirra er því mikil!
Evruvandinn geti sundrað Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af þessu. Ég ætla að poppa, fá mér svo sæti og fylgjast með öllu draslinu hrynja. Hvar nákvæmlega ég fæ sæti er ekki ákveðið af mér, því miður.
Ásgrímur Hartmannsson, 5.8.2012 kl. 21:03
Það er ekki rétt að það séu ekki til nægir peningar til að bjarga Evrunni. Þá er hægt að "prenta" út í hið óendanlega.
Hins vegar er ekki til næg verðmætasköpun í Evrópu til þess að bjarga þessu skrípi.
www.umbot.org
Egill Helgi Lárusson, 6.8.2012 kl. 07:46
Það er rétt Egill, það er hægt að prenta peningaseðla út í hið óendanlega. En þegar prentaðir eru seðlar án innistöðu, þá minnka verðmætin að baki þeim, verður gengislækkun eða gengisfall.
Þýskaland, það land sem dóminerar yfir öðrum löndum evrunnar, mun aldrei samþykkja það. Það er í raun sama og að samþykkja að greiða niður skuldir annara ríkja.
Svo geta menn deilt um skilgreiningu á orðinu "peningar". Er það pappírinn sem fólk hefur milli handa sér, eða verðmætin sem að baki pappírnum liggur. Samkvæmt síðari skilgreiningunni er daginum ljósara að ekki eru til peningar til bjargar evrunni, alls ekki innan evrulanda og sennilega ekki vilji alþjóðasamfélagsins til að láta slíka fjármuni af hendi.
Þetta eru manngerðar hörmungar sem á evrulöndum herja. Því miður, eins og svo oft með hörmungar, þá mun heimsbyggðin ekki fara varhluta af þeim hörmungum og allra síst við Íslendingar.
Það er spurning hversu lengi á að láta ráðamenn evruríkja leika sér að evrudraumnum, hvenær tímabært er að alþjóðasamfélagið grípi inn í, til að forða enn meiri skelfingu.
Gunnar Heiðarsson, 6.8.2012 kl. 09:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.