Vestfirðirnir heilla

Í síðustu viku ferðaðist ég um Vestfirðina. Fór fyrst um suðurfirðina og síðan norður yfir og endað á bryggjuhátið á Drangsnesi. Frábær ferð í alla staði.

Þegar ekið er vestur Barðaströndina kemur upp sá tímapunktur að malbikinu sleppir og við taka malarvegir. Það er eins og að fara nokkra áratugi aftur í tímann. Rykið, grjótharðir vegirnir og þvottabrettin minnir mann á hvernig þjóðvegir landsins voru fyrir margt löngu og maður fékk þá tilfinningu að vera kominn í eitt risastórt minjasafn.

Blessað rykið, sem allstaða smýgur og leggur sína mjúku hönd yfir allt og alla og gerir allt svo fallega grátt, var í öllu sínu veldi, enda vegirnir orðnir sérlega harðir sökum skorts á ofankomu. Á miðvikudag gerði þó smá rigningu og rykið hvarf, eða réttara sagt umbreittist í aðra afurð, drullu, sem vakti einnig gamlar minningar. Það má því með sanni segja að þetta hafi verið upplifun og afturhvarf til gamalla tíma.

En Vestfirðir bjóða upp á fleira en malarvegi. Tignarleg fjöllin, tær sjórinn og hinar fallegu hvítu strendur eru auðvitað einkenni þessa hluta okkar fagra lands. Þá eru fuglalífið einstaklega skemmtilegt og svo ónefnd söfnin sem gaman er að skoða og nóg er af þar vestra. Mannlífið er einstakt og sama hvar drepið var niður, allstaðar var manni vel tekið og gestrisni Vestfirðinga alveg einstök.

Fjöllin, með sína þverhníptu kletta til himins og þar fyrir neðan snarbrattar skriður í sjó fram, þar sem vegirnir hanga utaní þeim, er svo tignarlegt að auðvelt er að gleyma sér við að dást að sköpunarverkinu.

Hinn tæri sjó og fallegu strendur í fjörðum milli fjallana minna helst á fallegustu baðstrendur erlendis, þó sjórinn sé sjálfsagt eitthvað kaldari.

Þá er Lundinn á Bjartöngum svo spakur að nánast er hægt að klappa honum.

Mörg söfn eru á Vestfjörðum og of langt að telja þau öll upp. Sennilega, án þess þó að gera lítið úr öðrum, eru þó tvö sem standa upp úr, minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti og safn Samúels Jónssonar í Selárdal. Dugnaður og elja Egils, við að safna hlutum til sín, er ómetanleg og mun verða ómetanlegt um alla framtíð. Þá verður hver maður ríkari sem skoðar safn Samúels Jónssonar, litsamannsins með barnshjartað.

Þó vissulega sé gaman að komast svona aftur í tímann og reyna sig við malarvegi, er ég alls ekki að mælast til að þeir verði áfram við líði. Það er eitt að vera ferðalangur, annað að búa á svæðinu og þurfa að aka þessa vegi af nauðsyn. Það er vissulega kominn tími á þessa vegi og brýn þörf á gera stór átak í að útrýma þeim. Manni verður oft hugsað til allra þeirra peninga sem notaðir hafa verið annarstaðar, meðan svo virðist sem þessi landshluti sé utan þjónustusvæðis.

Það er gaman að ferðast um Vestfirðina og ættu allir að láta þann draum rætast. Þó vegirnir séu kannski ekki upp á það besta, gerir það ekkert til. Ánægjan og upplifunin verðir yfirsterkari og móttökurnar sem ferðafólk fær þar vestra ógleymanlegar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband