Þeir sem potuðu áttu að vita að svona umræða færi af stað !
15.6.2012 | 22:30
Það eru fleiri en Vörður, félag ungra sjáfstæðismanna á Akureyri sem harma þessa umræð, en hún er staðreynd engu að síður. Þessi umræða er tilkomin vegna þess að kjördæmapot var vissulega stundað. Það var gengið á svig við vegaáætlun til að koma að framkvæmd sem vissulega er hægt að segja að sé þörf, en það eru bara svo margar aðrar framkvæmdir þarfari. Þetta orkar ekki neins tvímælis um kjördæmapot, þetta er klárt kjördæmapot, enda viðurkenna Varðarmenn það með því að tala um brýnustu aðgerð í samgöngumálum í kjördæminu!
En er það svo, er þetta brýnasta aðgerð í samgöngumálum í kjördæminu, eða líta Varðarmenn á sem Norðausturkjördæmi nái bara um Akureyri og nágrenni? Nú er það svo að Norðausturkjördæmi nær frá Siglufirði og austur til Djúpavogs. Að halda því fram að Vikurskarð sé hættulegasti vegakaflinn á því svæði öllu er auðvitað nokkuð langt seilst. Að halda því fram að varðandi gangnagerð í Norðausturkjördæmi, sé mest þörf á að losna við að fara yfir Víkurskarð er nokkuð langt seilst. Að halda því fram að vegagerð sem kostar um eða yfir 9 milljarða króna, til styttungar á ferðatíma um 9 mínútur, sé þjóðhagslega hagkvæmt, er nokkuð langt seilst.
En það er eftir nokkru að seilast, þó einungis fyrir þingmenn kjördæmisins. Það vill nefnilega til að stæðsti byggðarkjarninn í Norðausturkjördæmi er Akureyri, þar eru atkvæðin flest. Það er ljóst að þingmenn kjördæmisins telja vænlegra að sækja sér atkvæði á því svæði en t.d. til Austfjarða, þar sem þó er að mati allra sem skoða þessi mál, er mun meiri þörf á vegabótum, bæði uppbyggingu vegakerfisins sem og í gangnagerð.
Á Norðfirði er sjúkrahús sem ætlað er að sinna Austfirðingafjórðungi. Það sjúkrahús getur þó enginn nýtt sér í fjórðungnum nema fara um erfiðann fjallveg sem nær í 632 metra hæð, nema auðvitað íbúar Norðfjarðar. Hinumeginn þessa fjallgarðs er svo stæðsti og sennilega hættulegasti vinnustaður fjórðungsins. Þarna á milli þarf vissulega að laga samgöngubætur, þó ekki væri nema vegna staðsetningar fjórðunssjúkrahússins.
Til Seyðisfjarðar koma tugir þúsunda, ef ekki hundruð, ferðamanna á hverju ári með Norrænu. Það fyrsta sem þessir ferðamenn verða að berjast við, eftir komna til landsins, er að komast yfir Fjarðarheiði. Hæð hennar er 620 metrar yfir sjó og oft válind veður þar langt fram á ferðamannatímann. Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær þarna verður alvarlegt slys. Víkurskarðið er einungis 325 metra yfir sjó, eða nærri helmingi lægra en Fjarðarheiðin.
Þá eru ótaldir fjöldu annara samgöngubóta um fjórðunginn, sem allt of langt mál væri að telja, en nefni sem dæmi Hellisheiði eystri. Þar mætti vissulega stinga gat undir.
Það er því rangt hjá Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, að Vaðlaheiðagöng séu brýnasta framkvæmdin í vegamálum í Norðausturkjördæmi, þó kannski megi segja að þetta geti verið að einhverju leiti brýn þörf fyrir Akureyri og nágrenni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið hlynntur einkaframtakinu og litið svo á að það skili meiru en ríkisframkvæmd. Um þetta er ekki nema gott eitt að segja, svo fremi að varlega sé farið. Það er hægt að fara offari þar eins og annarstaðar, eins og nýleg dæmi sanna.
Vörður fagnar því að Vaðlaheiðagöng séu einkaframkvæmd og harma að aðrir þingmenn flokksins en þeir sem í kjördæminu búa, skuli ekki hafa verið þessu framtaki hlynntir. Menn leggja auðvitað misjafnan skilning í hvað telst einkaframkvæmd. Fyrirtæki sem er í meirihluta eigu ríkisins og aðrir hluthafar eru m.a. sveitarfélög, er að flestra mati ríkisfyrirtæki, að minnsta kosti ekki einkafyrirtæki. Þegar svo framkvæmdir á vegum þessa fyrirtæki eru fjármögnuð og ábyrgð af ríkinu er ekki með neinu móti hægt að tala um einkaframkvæmd, sama hversu mikill vilji er til þess. Þar breytir engu þó rukka eigi veggjald af aksti um göngin, þau eru hrein og tær ríkisframkvæmd.
Það hlýtur að vekja margann sjálfstæðismanninn til umhugsunar þegar ungir flokksmenn eru komnir svo nærri hinni kommúnisku hugsun, sem skín úr ályktun Varðar. Það er hætt við að fari um margann eldri manninn í þeim flokki að sjá hvernig það fólk hugsar sem mun með tíð og tíma taka við kefli þeirra eldri!!
Það má vissulega harma þessa umræðu um kjördæmapot, en það hefðu þeir sem potuðu átt að hugsa áður en þeir greiddu sitt atkvæði fyrir þessari ríkisframkvæmd.
Svona til að setja málið í smá samhengi, þá er atkvæðafjöldi á Akureyri og nágrenni nálægt því að vera um 17.000, meðan atkvæði í Fjarðarbyggð er undir 1.300.
Víkurskarð nær í 325 metra hæð yfir sjó, meðan Fjarðarheið nær í 620 m. og Oddskarðið fer upp í 632 metra yfir sjó!!
Svo væri auðvitað hægt að rita enn lengri pistil um vegamál með því að fara út úr Norðausturkjördæmi, en þar sem Vörður taldi Vaðlaheiðagöng brýnustu framkvæmd í því kjördæmi, er þessi pistil markaður við það. Hugsanlega koma fleiri pistlar síðar um önnur kjördæmi, það er vissulega af nógu að taka!!
Harma umræðu um kjördæmapot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk Gunnar, mjög ágætt. Þeir Varðarfélagar ættu að huga að sóma sínum, vilji þeir teljast marktækari en ráðherrann þeirra.
Hrólfur Þ Hraundal, 15.6.2012 kl. 23:24
Bara svo að menn geri sér grein fyrir staðreyndum sem hér eru nefndar að framan, þá hef ég tekið saman helstu heiðarvegi landsins skv. gögnum Vegagerðarinnar.
Þegar það er skoðað, þá er Víkurskarð í 23 sæti af hæðstu heiðarvegum á vegakerfi landsins á stofnvegum. Ef við horfum bara á hringveginn, þá er Víkurskarð í 9 sæti af 10 sem þar eru nefnd. Einungis vegurinn við Vík í Mýrdal er lægri. Allar aðrar heiðar á hringveginum eru hærri, þar með talið Hellisheiði syðri.
Efst á listanum trónir Oddskarð í 632 m. hæð. Þá koma Fjarðaheiði 620m., næst kaflar á Möðrudalsöræfum 600m. og síðan Hrafnseyrarheiði og Öxnadalsheiði. Víkurskarð er einungis 325 m. og því með lægstu heiðarvegum landsins.
Ekki skorar þetta nú hátt í forgangslistanum fyrir Vaðlaheiðargöngum frekar en nokkuð annað. Ég hef hvergi séð nokkurn skapaðan hlut sem lyftir þeirri framkvæmd ofan en neitt, hvort sem það er ofan sjávar eða neðan...
Næsta sem mönnum dettur sjálfsagt næst í hug til að toppa Vaðlaheiðargöng er að grafa göng til tunglsins. Það er örugglega þjóðhagslega hagkvæmt í hugum þeirra alþingismanna sem samþykktu þessa vitleysu.
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.6.2012 kl. 23:40
Sæll Gunnar, pistillinn þinn er góður eins og aðrir pistlar sem þú skrifar og án allra öfga.
Það má nefna það að Vaðlaheiðargöng eru boðin út sem eiginframkvæmd Vaðlaheiðarganga.
Ég tek það samt fram að ég er hlynntur gerð þeirra og er það á þeim forsendum að innheimt verur veggjald.
En það er langt frá því að Víkurskarð sé slæmur vegur og alls ekki sá hættulegasti.
En ef eitthvað er að veðri að vetri til verður oftast blindbylur að vestanverðu og fljótt að teppast og oft sleppa menn með skrekkinn þó ekki verði alveg ófært.
Svo mngir sjálfstæðismenn oft íhuga betur það sem þeir láta frá sér.
Stefán Stefánsson, 17.6.2012 kl. 12:20
Það vantaði hf.... átti að vera Vaðlaheiðargöng hf.
Þetta sést ef farið er inn á www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/2819
Stefán Stefánsson, 17.6.2012 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.