Rangt mat hjá Birni
2.5.2012 | 08:48
Björn Snæbjörnsson telur vanda verkalýðshreyfingarinnar vera fyrst og fremst skærur meðal þeirra sem hana draga. Þetta er ekki rétt hjá honum.
Vandi verkalýðshreyfingarinnar er af tvennum toga. Annars vegar vegna þess að flestir forustumenn stéttarféla og sérstaklega forusta heildarsamtaka þeirra, hafa fjarlægst grasrótina, launafólkið. Hins vegar eru þessir sömu menn í mörgum tilfellum flæktir í pólitíska flokka og láta í sumum tilfellum hagsmuni sinna flokka ganga fyrir hagsmunum launafólksins.
Af þessu leiðir að þeir sem vilja standa vörð launþega, þeir sem neita að taka þátt í pólitískum hráskinnsleik og þora að viðra þá sínar skoðanir, þora að verja hag sinna félagsmanna, eru á stundum harðorðir. Þetta er þó ekki vegna þess að þeir séu að rægja samstarfsaðila sína, þó vissulega þeir séu að deila á þá. En sá sem ekki þolir ádeilu á ekkert erindi í forsvar fyrir launafólk!
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að formenn eru fyrir félögin, félagsmenn. Það er ekki svo að stéttarfélögin séu fyrir formennina! Þessari staðreynd virðast sumir hafa gleymt!! Í stað þess að hlusta á félagsmenn og reyna að vinna á þann veg sem þeir vilja, eru margir formenn sem telja sig geta sagt félagsmönnum hvers þeir eigi að krefjast. Að settar séu fram kröfur í þröngum hóp formanna og yfirstjórnar ASÍ og síðan telja formennirnir að þeirra verk sé fyrst og fremst að sannfæra félagsmenn um að þetta sé það sem þeir eigiað krefjast. Þegar einhver mótmælir því, er hann lagður í einelti og að honum ráðist.
Pólitísk afskipti forsvarsmanna launafólks er með öllu ólíðandi og ætti ekki að þekkjast. Því miður er þó þannig komið fyrir mörgum stéttarfélögum að þau eru notuð sem leiksoppur pólitískra afla, þetta á þó sérstaklega við um heldarsamtök launafólks, ASÍ!
Nei Björn, vandi verkalýðshreyfingarinnar er ekki deilur milli forsvarsmanna hennar. Þær deilur skapast vegna hins raunverulega vanda, sambandsleysis margra formanna við sína félagsmenn og þess pólitísks hráskinnsleik sem sumir þeirra stunda!
Framtíð SGS að skýrast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.