1. maí - dagur verkalýðsins
1.5.2012 | 14:58
1. maí
Í skugga krepunnar heldur verkafólk upp á frídag sinn, fjórða árið í röð. Hvað hefur áunnist á þessum tíma frá því allir stæðstu bankar landsins féllu eins og spilaborg?
Kjör fólks stórskertist við bankahrunið, laun lækkuðu, vinnutími skertist, þúsundir misstu vinnuna og húsnæðislánin stökkbreyttust. Litið sem ekkert hefur verið gert til að leiðrétta þetta óréttlæti sem launafólk varð fyrir, þvert á móti hefur því verið gert að taka á sig þær byrgðar sem fjárglæframenn sköpuðu. Þeir hafa hins vegar margir hverjir fengið milljarða afskrifaða og sumir sitja enn í sínum fyrirtækjum og taka þar sín ofurlaun, eins og ekkert hafi ískorist!
Stjórnvöld
Vorið 2009, meðan fólk var enn ekki búið að átta sig á skelfingunni og fáir vissu þátt stjórnmálastéttarinnar í hruninu, var efnt til kosninga. Á þing voru kosnir margir megngaðir af undanfara hrunsins. Til valda komst fyrsta "tæra" vinstri stjórn landsins. Margur launþeginn hélt þá að nú væri honum borgið. Stjórnarherrarnir, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J Sigfússon. En þessi stjórn var einnig menguð.
Jóhanna hafði jú ætíð sagst bera velferð fólksins fyrir brjósti, að fyrst kæmu fjölskyldur, aldraðir og sjúkir, síðan aðrir. Hún lofaði skjaldborg um heimili landsins.
Steingrímur hafði verið ómyrkur í andstöðu sinni við fyrrum valdhafa og oftar en ekki gagnrýnt fylgispekt þeirra við fjármálaöflin.
Nú var komin stjórn fólksins, ríkisstjórn sem hægt var að treysta.
En hvað skeði? Hefur þessi ríkisstjórn staðið undir væntingum? Var reist skjaldborg um heimili landsins? Er hægt að treysta stjórnarherrunum? Svarið er einfallt; NEI!
Fylgispekt ríkisstjórnarinnar við fjármálaöflin hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt nú, þegar hin "tæra" vinstristjórn er við völd. Það hefur verið staðið tryggilega við bak fjármálastofnana en heimilin látin lönd og leið. Það litla sem að heimilunum hefur fallið, hefur komið gegnum dómskerfið. Og jafnvel fyrir þeim hafa stjórnvöld staðið að baki fjármálafyrirtækjunum!
Enn er því atvinnuleysi í hæðstu hæðum, enn eru launakjör til skammar fyrir vestrænt þjóðfélag, enn er vinnutími margra langt undir eðlilegum mörkum og enn eru lánakjör fólks að herða ólina um háls þess!! Á sama tíma krefjast stjórnvöld sífellt meira af launþegum, krefst þess að þeir beri uppi þann skaða sem fjárglæframenn urðu valdandi að!!
ASÍ
Og hvað gera samtök launþega í málinu, ASÍ? Ekkert, akkúrat ekkert!! Fyrst í stað og reyndar allt fram undir þennan dag hefur forusta ASÍ tekið þátt í hráskinnsleik stjónvalda, þó einstaka stuna hafi heyrst undir það síðasta. Forusta ASÍ hefur ekki tíma til að hugsa um velfrerð launþega, hugsa um þá sem þeim ber. Hún er of upptekin við að góna til Brussel!!
Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, hefur verið duglegur við að grafa undan krónunni og þá um leið kjörum launafólks. Þetta gerir hann þrátt fyrir að hann viti, eða ætti að vita, að upptaka evru er ekki á dagskrá nærri strax. Jafnvel þó allir landsmenn myndu sameinast um að gefa eftir sjálfræði þjóðainnar til að fá þann gjaldeyri, tæki nokkur ár að fá aðgang að því samstarfi. Á meðan erum við með krónuna sem lögeyri og kjör launafólks eru bundin henni. Hitt er þó ljóst að meirihluti landsmanna og eftir því sem best verður séð, sum lönd ESB einnig, eru á móti þessari vegferð, svo líkurnar á upptöku evru eru í raun mjög litlar. Að forseti ASÍ skul með þessum hætti grafa undan kjörum sinna umbjóðenda er nánast óskiljanlegt!!
ESB aðild er efst í huga Gylfa og er hann duglegur að nota ASÍ til að koma þeim boðskap sínum á framfæri. Til þess notar hann 12 ára gamla samþykkt miðstjórnar um að skoða bæri kosti og galla aðildar. Þetta er þó ekki skoðun hjá Gylfa, heldur bein þáttaka. Þó hafa launþegar sjálfir aldrei verið spurðir um þetta mál, hvorki árið 2000, né nú!! Þarna hefur Gylfi farið langt yfir strikið, svo langt að stór hluti launþega tekur ekki lengur mark á honum, fyrir því er þessi maður ómerkingur og það sem verra er, samtökin eru einnig orðin marklaus!!
Þó ekki sé yfir mörgu að fagna hjá launafólki, má búast við að fólk fari í sína kröfugöngur í dag. Þ.e. það fólk sem hefur efni á að vera í fríi í dag. Ég skora á göngufólk að krefjast þess að gerð verði uppstokkun innan ASÍ, að forseti og stjórn samtakanna víkji tafarlaust og lýðræðið fá að ná tökum á því. Að stjórn samtakanna verði kosin af launafólki landsins, í stað þess að það val fari fram í þröngum hópi sem að mestu samanstendur af fólki sem sjálf stjórnin hefur valið umhverfis sig.
ASÍ á í alvarlegri tilvistarkreppu. Samtökin hafa beðið stórann skaða af störfum forseta þeirra og stjórnar. Hvort sá skaði er varanlegur mun tíminn einn skera úr um. Óbreytt geta þau ekki starfað áfram, lýðræðið verður að aukast. Aðkoma launafólks að þessum samtökum er foremnda fyrir framhaldslífi þeirra!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.