Hefur fólk ekkert þarfara að gera?

Þegar þjóðin er að berjast við að komast út úr kreppunni eru starfskraftar Hagstofunnar notaðir til að gera skýrslu um tilgangslausar upplýsingar, upplýsingar sem allir ættu að vita. En kannski sannar þetta enn einu sinnu hversu aðildarsinnar virðast utan raunveruleikans og hversu illa upplýstir þeir eru. Þeir þurfa að láta Hagstofuna taka saman fyrir sig gögn sem öllum öðrum eru ljós.

Það varð bankahrun hérna haustið 2008, ef aðildarsinnar hafa ekki orðið varir við þá skelfingu. Í kjölfari þess var gengi gjaldmiðils okkar fært niður til raunveruleikans, það háa gengi sem bankarnir höfðu haldið uppi með froðufé sínu, stóðst ekki skoðun. Við að leiðrétta gengið til samræmis við getu þjóðarbúsins, til samræmis við raunverulega verðmætasköpun þess, hækkuðu auðvitað allar innfluttar vörur. Það gefur auga leið, þó það vefjist kannski fyrir aðildarsinnum.

Á móti kom að innlendur iðnaður varð samkeppnishæfari og jafnvel þó stjórnvöld stundi látlausar árásir á hann, hefur tekist að halda atvinnuleysi hér langt innan þeirra marka sem ESB telur ásættanleg. Að vísu hefur flótti fólks frá landinu verið töluverður og hjálpað til við að halda atvinnuleysinu niðri, en jafnvel þó sá fjöldi sé lagður saman við fjölda atvinnulausra erum við langt undir því marki sem er innan margra ríkja ESB.

Þá kemur einnig á móti að verð útflutningsvara hefur hækkað og hjálpað til við að koma okkur gegnum vandann. Þetta hefur leitt til þess að viðskiptajöfnuður okkar við úlönd er okkur í hag og einungis þannig getur þjóðin lifað.

Staðreyndin er einföld, gengi gjaldmiðils hverrar þjóðar ákvarðast af getu hagkerfisins til að standa undir honum. Fyrir hrun höfðu bankarnir skekkt þessa mynd töluvert, einkum vegna froðufésins sem þeir voru að höndla með. Við hrun þeirra kom í ljós að engin innistæða var fyrir þessari skráningu gengisins.

Það er varla að maður þori að spá í hvernig ástand væri hér ef við hefðum verið innan ESB með evru sem lögeyri, við hrun bankanna. Sú mynd er svo skelfileg. Þá hefði t.d. ekki verið hægt að setja þau neyðarlög sem björguðu okkur frá alsherjarhruni, þá hefði ekki verið hægt að færa gengið að raunverulegri getu þjóðarbúsins. Þess í stað hefðum við þurft að ábyrgjast allar skuldbindingar einkarekinna banka sem farið höfðu offari, þess í stað hefðu fyrirtæki landsins nánast öll lagt upp laupana, þess í stað væri atvinnuleysi hér í tveggja stafa tölu með 2 eða 3 sem fyrri staf, þess í stað hefðu ekki orðið launahækkanir heldur launalækkanir í síðustu samningum. Reyndar hefði ekki verið um neina samninga að ræða, einungis tilskipun frá Brussel um hversu mikið laun skyldu lækka.

En kannski hefði innfluttar vörur bara hækkað um 5 - 6%, en það hefði engu skipt þegar þjóðin væri komin á hausinn, þegar fjölskyldur landsins væru allar komnar á götuna og sætu þar í kuldanum og horfðu inn í tómar íbúðir bankanna, sem þá væru að sjálfsögðu allir komnir í hendur erlendra aðila!

Það er alveg ljóst að krónan okkar og sjálfstæði okkar í gjaldmiðilsmálum bjargaði þjóðinni frá algeru hruni þegar bankarnir féllu. Það kostar okkur nokkuð að hafa eigin gjaldmiðil en sá kostnaður er samt hverfandi miðað við þann kostnað sem við hefðum orðið fyrir ef það sjálfstæði hefði ekki verið fyrir hendi. Hvort einhverntímann í framtíðinni komi upp sú staða að okkur væri hagstæðara að taka upp annan gjaldeyri verður tíminn að leiða í ljós, en sá tími er langt undan. Fyrst verðum við að ná tökum á eigin málum, ná tökum á hagstjórn okkar. Þegar það hefur náðst og við sýnt að við ráðum vel við það verkefni, er hugsanlega hægt að skoða hvort við gætum eitthvað grætt á því að skipta um gjaldmiðil, ekki fyrr.

Hættum að níða krónuna okkar, hættum að berja á þeim þætti sem bjargaði okkur frá algerri skelfingu. Þökkum heldur fyrir að við skulum hafa þetta hagstjórnartæki til að taka við þeim sveiflum sem við verðum fyrir. Ekki er betra að færa þær yfir á atvinnustigið og launakjörin. Þökkum fyrir að geta stjórnað okkar hagkerfi eftir getu þjóðarbúsins, í stað þess að þurfa að stjórna því eftir getu Þýskalands, Frakklands eða Kanada. Að vísu þarf að taka aðeins í lurginn á þeim sem veljast á Alþingi og fá þá til að sýna örlítið meiri ábyrgð.

Það kostar að halda sjálfstæði þjóðar, en það kostar enn meira að fórna því!

 


mbl.is Margfalt meiri verðhækkanir hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hárrétt hjá þér! Flott pistill!

Sonur minn sem býr í þýskalandi er hér í heimsókn og hann segir matinn hér ekki dýrari en í Stuttgart! Hann borðar oft Sushi og þar, kostar Sushi-bakki 12 evrur, en hér 8 evrur. Brauð og aðrar nauðsynjavörur af sömu gæðum eru á svipuðu verði.

Það er ekki hægt að taka meðaltalið úr 27 löndum og bera það saman við verð í 320.000 manna þjóð. Halló?

Í EVRÓPUSAMKURLINU búa 500.000.000 manns (Fimmhundruð milljónir) og þetta eru þversummur af verðlagi hjá öllum þessum þjóðum. Borið saman við Ísland?

Ef við tækjum bara þýskaland og bærum það saman við okkur, eða bara Spán og Ísland, þá væri útkoman önnur! 

anna (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband