Snúum dæminu við
29.11.2011 | 23:05
Fyrir það fyrsta er ekki rétt hjá Guðbjarti að lengst sé fyrir konur á Þórshöfn að fara til að fæða börn á sjúkrahúsi. Konur á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði þurfa að fara mun lengri leið. Um 400 km eru á milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur!
Ef við snúum dæminu við og segðum að konur úr Reykjavík þyrftu að fara þessa vegalengd til að geta átt börn á sjúkrahúsi, þá þyrftu þær að fara til Akureyrar, Ísafjarðar eða Hafnar í Hornafirði. Það væri jafnvel styttra fyrir þær að fara norður í Norðurfjörð á Ströndum, en þangað er "einungis" 335 km úr Reykjavík.
Ef, hins vegar tekin er talan sem Guðbjartur gefur sér, þyrftu konur úr Reykjavík samt sem áður að fara á Blönduós, Drangsnes eða Kirkjubæjarklaustur. Leiðin frá Reykjavík til Nýjadals á Sprengisandi er jafnvel styttri leið en konur á Þórshöfn þurfa að fara til að fæða sín börn.
Það er stundum ágætt að snúa dæminu við svo fólk átti sig á vegalengdum. Þó vissulega sé alltaf jafn langt í báðar áttir, er eins og fólkinu á stór Reykjavíkursvæðinu átti sig ekki alltaf á þeim vegalengdum sem landsbyggðarfólkið býr við. Að þurfa að sækja eðlilega þjónustu sjúkrahúss um 400 km leið, jafnvel þó aðeins sé að ræða 250 km, er þetta með öllu óásættanleg þjónusta. Það er einmitt það fólk sem býr við þessar ástæður sem verður fyrir mestum skerðingum á þjónustu í aðgerðum stjórnvalda.
Fólk sem býr við þær aðstæður að geta notið eðlilegrar sjúkraþjónustu innan tíu mínútna, skilur ekki að sumir búa við það að þurfa að aka hundruði kílómetra leið til læknis og oft um fjallveg að fara. Á vetrum er oft ekki um annað að ræða en að fá þyrlu til að komast milli staða, með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.
Á góðum sumardegi tekur það konuna á Patreksfirði um fimm og hálfa klukkustund að komast til Reykjavíkur og konuna á Þórshöfn um þrjár og hálfa klukkustund að komast til Akureyrar! Á veturna er þessi tími oft mun meiri, ef á annað borð er fært.
Þetta eru þær staðreyndir sem þetta fólk býr við!
250 km á næstu fæðingardeild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.