Gamalt vín á nýjum belgjum

Það breytir litlu þó skipt sé út þjóðkjörnum stjórnmálamanni fyrir kommissar frá Brussel, vandi Ítalíu er enn sá sami. Skuldir þeirra eru svo miklar að nánast útilokað er að vinna úr þeim.

Að vísu eru þessar skuldir að stórum hluta sagðar innlendar, en það breytir þó litlu þegar gjaldmiðlinum er deilt með öðrum þjóðum, þá skiptir engu hvort skuldirnar eru að mestu innlendar eða hjá öðrum þjóðum þess sama gjaldmiðils.

Hagkerfi Ítalíu er stórt, mjög stórt og skuldirnar eru því miklar á evrópskan mælikvarða. Að seðlabanki Evrópu og björgunarsjóður þess ráði við þær skuldir er með öllu óhugsandi, því verður að koma utanaðkomandi aðstoð. Þetta veit fjármálaheimurinn og er því ekki ginnkeyptur fyrir því þó ESB hafi komið sínum manni að í stað þess þjóðkjörna.

Vandi evrunnar er langt frá því leystur, Þjóðverjar gera kröfur á aðrar þjóðir en vilja ekki leggja fram nema lágmark sjálfir. Þarna liggur vandinn að stórum hluta. Þegar ákveðið var að taka upp evruna þorðu menn ekki að ganga alla leið. Einungis var tekin upp sameiginlegur gjaldmiðill en grunnurinn undir honum var látinn liggja á mörgum mismunandi hagkerfum.

Þetta hefur orðið til þess að Þjóðverjar hafa grætt verulega á þessu samstarfi á meðan jaðarríkin hafa tapað. Nú þegar leiðrétta þarf skekkjuna, eru þeir hins vegar ekki tilbúnir að taka á sig sinn skerf, heldur ætlast til að allir aðrir komi til hjálpar.

Hvernig sem allt snýst, þá er vandi evru tilraunarinnar búinn að smita sér um allan heim. Því veltur mikið á að ákvarðanir verði teknar sem fyrst, ákvarðanir sem duga. Einungis tvær leiðir eru í stöðunni, að fórna evrunni eða sameina evruríkin undir eitt ríki. Annað er ekki í boði.

Hvor leiðin sem verður farin, mun kosta þjáningar. Sameining evruríkja er mun líklegri kostur. Bæði Merkel og Sarkozy hafa íjað að þessari leið og einnig að ekki sé víst að öll núverandi evruríki komist í það stórríki, a.m.k. ekki til að byrja með. Hvort þessi leið sé enn fær eru reyndar skiptar skoðanir á. Þá er ekki ljóst hvernig þegnar þeirra ríkja sem að evrusamstarfinu standa taki því að þurfa að fórna því litla sem eftir er af sjálfstæði þeirra.

Hvor leiðin sem valin verður, þá verður að vinna hratt og markvisst. Því miður er ekki að sjá að núverandi valdhafar innan ESB séu færir til þess. Vandræðagangur og dugleysið sem hefur einkennt störf þeirra hingað til benda ekki til bjartsýni, því miður.

Á meðan séð verður hvort og þá með hvaða hættti evran lifir, með séð verður hver þróun ESB mun verða, á að sjálfsögðu að hætta öllum leikaraskap með aðildarviðræður. Þegar séð verður hvernig vandinn verður leystur og þegar séð verður hvernig ESB mun líta út, er hægt að taka umsóknina upp aftur, ef vilji þjóðarinnar er fyrir því.

 

 


mbl.is Álag á ítölsk skuldabréf rúm 7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband