Vegur sem ber nafn með rentu
31.10.2011 | 10:09
ÞRÖSKULDAR, vegurinn sem lagður var fyrir nokkrum árum, ber vissulega nafn með rentu. Þessi vegur er sannarlega þröskuldur í vegakerfi okkar Íslendinga.
Þetta er einn af þeim vegum sem fyrstur verður ófær vegna snjóa. Jafnvel í fyrravetur, þegar varla sást snjór á þjóðvegum landsins, voru stöðugar féttir af því að Þröskuldar væru lokaðir vegna snjóa.
Þetta kemur heimafólki ekki á óvart, það vissi að Arnkötludalur og Gauksdalur væru mjög snjóþungir, en Þröskuldar liggja milli þessara dala. Þegar sú hugmynd kom upp að leggja veginn eftir þessari leið voru margir sem bentu fræðingum vegagerðarinnar á þetta, að þessi vegur yrði ófær vegna snjóa strax og snjókomu væri spáð. En fræðingarnir þóttust vita betur og hlustuðu ekki á heimafólk.
Vegurinn um Þröskulda var ákveðinn af tveim ástæðum, til að stytta veginn milli norðurhluta Vestfjarða og suð-vesturhornsins. Og til að fá veg sem lægi lægra í landinu en hinn illræmdi Ennisháls, sem er oft erfiður á vetrum.
Vegstyttingin er vissulega staðreynd, vegalengdin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styttist um heil 10%, rúma 40 km, það gerir styttingu á ferðatíma um hálfa klukkustund. Þeirri vegstyttingu hefði þó verið hægt að ná með örum leiðum.
En hvað með hitt atriðið, að Þröskuldar komi í stað Ennisháls. Skoðum nokkar myndir eftirlitskerfi vegagerðarinnar.
Myndirnar hér fyrir neðan sýna svart á hvítu hvor leiðin er snjóþyngri. Dagsetning og tími er á myndunum svo auðvelt er að bera þær saman. Neðstu tvær myndirnar eru frá því í morgun en efstu tvær eru níu daga gamlar. Það er ljóst á þessum myndum hvor leiðin er snjóþyngri.
Ennishálsinn er engu að síður erfiður farartálmi á vetrum, en staðreyndin er sú að þeim farartálma hefur ekki verið eytt, enn verða þeir sem leið eiga vestur að fara hann, ef einhver snjór er, því þá eru Þröskuldarnir ófærir. Því á enn eftir að finna leið framhjá Ennishálsinum, nú eða hreinlega undir hann. Sú lausn og þverun Kollafjarðar, sem er auðvelt að gera vegna grynninga fremst í honum, hefði verið mun skynsamari leið og sennilega ekkert svo mikið dýrari. Alveg örugglaega ódýrari til lengri tíma litið.
Fastur á Þröskuldum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það mátti líka bæta veginn yfir Ennisháls með því að fara sunnar yfir hann. Þá lægi vegurinn upp á hálsinn nokkru sunnan við Bræðrabrekku og hinumegin yrði í stað þess að fara svona bratt upp hálsinn eins og gert er, haldið áfram inn eftir dalnum. Kunnugir segja að það sé hvorki eins snjóþungt né eins veðrasamt eins og nær sjónum. Vegagerðin hefur aldrei fengist til að hlusta á þetta. Varðandi veginn upp frá Gautsdal, sem er víst það erfiðasta á leiðinni yfir svokallaða Þröskulda, þá kusu verkfræðingar Vegagerðarinnar að sprengja veginn inn í hlíðina að suðaustan, nokkurra kílómetra kafla, í stað þess að fylla upp eitt gildrag að norðanverðu. Verkfræðingar VÍ eru með fóbíu gagnvart uppfyllingum. Heimamenn eru sammála um að þetta hefði gjörbreytt snjóalögum á veginum og sennilega alls ekki dýrara, hefði þessi leið verið valin.
Ellilífeyrisþegi (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 11:05
Fyrsta ferð mín um Þöskulda var að sumri til, kom að norðan á leið suður. Mig blöskraði hvernig vegurinn var lagður, neðst í Gautsdalum, hefur kostað mikla peninga að sprengja allt sem sprengt var fyrir honum.
Þá hef ég eftir manni sem ekur þennan veg nánast daglega allt árið (þegar vegurinn er opinn!) að hönnun við ræsi ofarlega á veginum valdi því að í roki fjúki vatn á veginn og í frosti myndist þar stórhættuleg hálka.
Gunnar Heiðarsson, 31.10.2011 kl. 11:26
Fróðlegt væri að fá nánari skilgreiningu á setningunni hér að neðan, sérstaklega í því ljósi að það voru fyrst og fremst heimamenn í Steingrímsfirði sem vildu þennan veg.
"Þetta kemur heimafólki ekki á óvart, það vissi að Arnkötludalur og Gauksdalur væru mjög snjóþungir, en Þröskuldar liggja milli þessara dala. Þegar sú hugmynd kom upp að leggja veginn eftir þessari leið voru margir sem bentu fræðingum vegagerðarinnar á þetta, að þessi vegur yrði ófær vegna snjóa strax og snjókomu væri spáð. En fræðingarnir þóttust vita betur og hlustuðu ekki á heimafólk."
Vegur (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 14:06
Auðvitað vildu Steingrímsfirðingar fá styttingu vegar til Reykjavíkur og losna við Ennishálsinn, rétt eins og Ísfirðingar og reyndar allir íbúar á norðan verðum Vestfjörðum.
Það var þó alls ekki óskastaða hjá þeim að leiðin um Arnkötludal yrði fyrir valinu, margar aðrar leiðir voru taldar betri. Á það bentu heimamenn. En þegar staðan var orðin þannig að einungis sú leið var í boði, fögnuðu þeir auðvitað, enda nokkur stytting og góður sumarvegur.
Það er fleira við þessa leið sem gerir hana óspennandi á vetrum. Svínadalur er með allra snjóþyngstu leiðum landsins. Hann var að vísu byggður upp og bættur, fyrir mikið fé.
Brattabrekka sem var nánast einungis sumarvegur, var einnig byggð upp. Þar voru gerð mistök í hönnun. Allar beygjur eru látnar hall inn í sig, miðað við akstur á níutíu km hraða. Þetta er væntanlega gert eftir "stöðlum". Vörubílstjórar með aftanívagna geta því ekki notað þann veg í hálku nema járna bíl og vagn fyrst. Það kemur enginn á lestuðum vörubíl á níutíu km hraða í efstu brekku af mörgum, í hálku. Menn aka lúshægt af stað í slíka brekku. Þá kemur upp það vandamál að vagninn tekur að skríða undan hliðarhallanum.
Uppbygging Svínadals og Bröttubrekku er fyrir stærra svæði en bara norðanverða Vestfirði og því kannski ekki rétt að blanda þeim vegaframkvæmdum inn í umræðuna um Þröskulda. Það kallar á annan pistil sem kemur kannski seinna. Þar er margt hægt að gagnrýna.
Gunnar Heiðarsson, 31.10.2011 kl. 20:41
það þarf að halda því til haga að það voru fyrst og fremst íbúar í Steingrímsfirði, með hjálp sýslumannsins í Leið ehf, sem þrýstu á veg um Gautsdal og Arnkötludal. Vegagerðin lagði lengst af upp með endurbyggingu á veginum úr Hrútafirði yfir í Steingrímsfjörð.
Gaman væri að fá upplýsingar um hvaða (margar) aðrar leiðir heimamenn bentu á í stað vegar milli Gautsdals og Arnkötludals.
Rétt er að nefna að umhverfismat fyrir þennan veg var unnið af einkaaðila (Leið ehf), eins var hönnunin unnin á verkfræðistofu.
Endurbygging vegar í Svínadal var tiltölulega ódýr.
Í framtíðinni munu íbúar á norðanverðum Vestfjörðum, að öllum líkindum, fara um Vestfjarðaveg til að komast út af Vestfjörðum, þ.e. þegar uppbyggingu Vestfjarðavegar verður lokið (Þorskafjörður - Gufufjörður, Vattarfjörður - Kjálkafjörður, Dynjandisheiði og jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar). Þess vegna mun vegur úr Steingrímsfirði hafa lítið að segja fyrir meginhluta umferðarinnar.
Vegur (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.