Angela fær enn að vera með í sandkassa ESB
7.10.2011 | 01:42
Það verður ekki ofsögum sagt að lýðræðið í ESB er frekar framandi, að minnsta kosti fyrir okkur Íslendinga.
Grikkland, Írland og Portugal hafa öll lent í meiriháttar efnahagslegum vandræðum og Spánn og Ítalía stefna sömu leið. Hvernig var svo tekið á vandamáli þessara landa? Var lausna leitað á evrópuþinginu? Var leitað lausna innan ráðherraráðsins? Nei aldeilis ekki. Lýðræði ESB virkar ekki þannig.
Í stað þess að stofnanir ESB eða ráðherrar þeirra landa sem að því standa, taki slíkar ákvarðanir, komu leiðtogar tveggja landa ESB saman, Angela Merkel og Nicolas Sarkozy og lögðu á ráðin, undir leiðsögn Jean- Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans. Þetta tríó kom sér saman um leiðir til hjálpar, leiðir sem þó hafa engu skilað enn.
Svona var þetta lengi framanaf, tríóið hélt fundi og tók ákvarðanir og leiðtogar annara ríkja urðu að una þeim ákvörðunum. En nú fyrir nokkru varð þarna breyting á. Sarkozy var rekinn úr hópnum og í stað hans kom José Manuel Barroso, forseti framkvæmdarstjórnar ESB.
Sarkozy varð að láta sér þetta gott líka, enda ljóst að vandi Frakklands var meiri en áður hafði verið haldið og ljóst að franska bankakerfið stendur á brauðfótum.
Nú eru það Angela, Trichet og Barroso sem stjórna ESB og allir aðrir verða að fara að þeirra vilja. Reyndar er Trichet að hætta sem bankastjóri seðlabanka Evrópu og spurning hvort hann stígi til hliðar úr tríóinu fyrir arftaka sínum, eða hvort hann heldur stöðunni í tríóinu áfram. Staða Angelu Merkel hefur verið sterk hingað til, en hugsanlega verður henni skipt út. Mario Drachi arftaka Trichet í seðlabankanum verður kannski hennar eftirmaður. Að tríóið verði þá skipað Trichet, Barroso og Drachi, að það verði þeir sem ráði framtíð Evrópu.
Það er undarlegt lýðræði sem byggist á því að þrjár persónur skuli fara með allt vald yfir ákvörðunum um framtíð yfir 500 miljón manna. Þrjár persónur sem sumar hafa aldrei verið kosnar af þegnum ESB ríkjanna til eins eða neins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.