Og hvað á að gera ef tillaga stjórnlagaráðs verður felld ?
4.10.2011 | 20:24
Það virðist vera einbeittur vilji nokkurra þingmanna að ganga á svig við stjórnarskrá og hefur forsætisráðherra tekið undir það sjónarmið, eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Þessi skoðun er runnin undan rifjum stjórnlagaráðs og hefur sérstaklega einn ráðsmaður sem kallar sig "prófessor", farið fremstur í flokki þeirra við að halda uppi þeirri skoðun. Hann hefur m.a. sagt í fjölmiðlum að tillaga ráðsins kom ekki Alþingi við!
Það er ljóst að stjórnarskrármálið er löngu farið úr böndum. Sá offorsi sem var á málinu í upphafi og leiddi til óvandaðra vinnubragða, sem svo aftur leiddi til afskipta Hæstaréttar á málinu, skemmdi málið mikið. Þegar úrskurður Hæstaréttar lá fyrir átti að sjálf sögðu að taka málið aftur á upphafsreit og vinna það betur. Stjórnvöldum bar þó ekki gæfa til að breyta rétt í því máli, frekar en öðrum. Áfram var haldið með stórskaddaðann málstað og meira en hálfa þjóðina á móti.
Skipað var stjórnlagaráð og til þess valið fólk sem hafði verið kosið í ólöglegri kosningu til stjórnlagaþings. Sá sem flest atkvæði fékk hafði um 3% atkvæða að baki sér, aðrir minna.
Verkefni stjórnlagaráðs var þó sama og stjórnlagaþings. Það var mjög skýrt og skorinort. Verkefnið var að fara yfir gildandi stjórnarskrá og skoða hvort, hvar og hvernig mætti bæta hana, auk þess var veitt heimild til að koma fram með tillögu að nýrri stjórnarskrá ef sú gamla væri talin svo gölluð að ekki væri hægt að betrumbæta hana. Megin verkefni stjórnlagaráðs var að koma fram með tillögur fyrir Alþingi, enda það eina stofnunin sem getur og má vinna það verk að breyta stjórnarskrá landsins.
Eitthvað skolaðist þó til í haus ráðsmanna hvers væri ætlast til af þeim. "Prófssorinn" hefur í fjölmiðlum farið mikinn og sagt að þessi vinna ráðsins komi þinginu ekkert við, það sé fólkið í landinu sem eigi að ráða. Undir þetta hafa ýmsir mætir menn tekið og auðvitað er þetta falleg hugsun. Það er að segja ef vel og rétt hefði verið staðið að málinu af hálfu stjórnvalda og EF GILDANDI STJÓRNARSKRÁ HEIMILAÐI. En þar stendur hnífurinn í kúnni, gildandi stjórnarskrá heimilar ekki slíka málsmeðferð. Þetta mál er á hendi Alþingis og verður svo þar til stjórnarskrá hefur verið breytt eða ný samþykkt.
Í tillögu þeirri sem nú hefur verið lögð fyrir Alþing er reynt að klóra yfir skítinn með því að leggja til að tillaga ráðsins verði rædd á Alþingi og fari fyrir nefnd sem yfirfari hana. Ef farið er að þeirri leið og einhverjar breytingar gerðar, mun ekki lengur vera um tillögu ráðsins að ræða og hætt við að "Prófessorinn" og félagar verði fljótir að þvó hendur sínar. Þá mun verða lagt fyrir þjóðina tillaga Alþingis að nýrri stjórnarskrá og þjóðin kjósi um hana.
Ef sú tillaga Alþingis til nýrrar stjórnarskrár fær fylgi þjóðarinnar verður Alþingi eftir sem áður að samþykkja breytinguna, rjúfa þing og boða til nýrrar kosninga og hið nýja þing að samþykkja hana einnig. Samþykkt þjóðarinnar væri einungis táknræn og hefði enga lagalega bindingu.
En hvað ætlar Alþingi að gera ef tillaga þess til breytingar á stjórnarskrá verður felld af þjóðinni? Vissulega getur það samþykkt breytinguna og rofið þing, boðað til kosninga og treyst á að nýtt þing samþykki hana einnig.
Staðreyndin er einföld, það er sama hvort þjóðin samþykkir eða fellir tillögu um breytingu á stjórnarskrá, hvaðan sem sú tillaga er komin. Það er alltaf Alþingi sem á síðasta orðið og sá varnagli sem þjóðin fær eru kosningar til nýs þings. Við höfum orðið illilega ámynnt um að það er vart hægt að treysta stjórnmálamönnum að loknum kosningum. Þingmenn VG hafa staðfest það svo ekki verður lengur um villst.
Það gæti því hæglega farið svo að þjóðin felli tillögurnar, Alþingi samþykki þær og nýtt Alþingi einnig. Hver hefði trúað því fyrir síðustu kosningar að sá eini flokkur sem var með yfirlýsta stefnu gegn aðild að umsókn um aðild að ESB yrði lögð fram, gerði það að sínu fyrsta verki að loknum kosningum og standi nú manna harðast að þeirri vegferð, með einni undartekningu!
Að þingmenn leggi fram þingsályktunartillögu sem gengur í bága við gildandi stjórnarskrá er í sjálfu sér alvarlegt mál. Þegar forsætisráðherra tekur undir slíka málsmálferð er hins vegar allt of langt gengið.
Svo er þetta fólk á Alþingi hissa á að almenningur skuli ekki bera virðingu fyrir því. Hvernig er hægt að bera virðingu fyrir þeim sem finnst sjálfsagt að ganga á svig við lög landsins?
Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samála ég ber ekki virðingu fyrir þeim sem yfirgefa Þinghúsið eins og rottur varðir af lögreglu! Það er mikið að hjá okkur og ekkert gert í þessu húsi til að laga ástandið!
Sigurður Haraldsson, 4.10.2011 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.