Guðmundur ætlar að róa á vænleg mið.

Það var undarlegt viðtalið við þá félaga Guðmund og Jón á RUV í gærkvöldi. Þar fífluðust þeir og virtist vera voða gaman hjá þeim. Fréttamenn voru hálf hvumsa í fyrstu og í stað þess að halda áfram að spyrja mennina spurninga, eins og þeir reyndu í fyrstu, fóru þeir að taka þátt í fíflalátunum. Voðalega gaman!

En Guðmundur er þó lævísari en svo að hann ætli að láta Gnarrinn gnarra sig. Alvaran hjá honum er meiri.

Og Guðmundur veit hvaða málefni leggjast best í fólk:

Þetta er ekki flokkur, heldur "afl". Þar með er hann að vísa í að þetta framboð verði betra en gömlu flokkarnir.

Við erum öll víðsýn. Enn er róið á mið óánægju kjósenda með stjórnmálastéttina.

Við erum ekki á vegum sérhagsmunaaðila og viljum almannahagsmuni og heiðarleika í fyrirrúm. Eitthvað sem allir stjórnmálaflokkar halda einnig fram.

Við erum friðarins fólk. Halda ekki allir því fram að þeir séu friðarins fólk? Meira að segja Gaddafi heldur þeirri fullyrðingu fram um sjálfann sig.

Við erum alþjóðlega sinnuð og viljum ESB aðild. Þarna er verið að halda því fram að ekki sé hægt að vera alþjóðlega sinnaður án aðildar að ESB. Þetta er þó alger andhverfa, þeir sem eru alþjóðlega sinnaðir forðast að tengjast einu sambandi föstum böndum og færa því öll völd um tengsl okkar við umheiminn.

Við erum umhverfissinnuð. Þarna er verið að höfða til einhvers allra mesta poppúlista sem til er. Reyndar gera allir flokkar sem nú eru á þingi þetta einnig.

Þá ræddi Guðmundur um aðildarumsóknina og sagði það forræðishyggju og andlýðræðislegt ef fólk fengi ekki að kjósa um aðildarsamning. Hvar var lýðræðið þegar ákvörðun um umsókn var tekin? Þeir sem stóðu að þeirri gerræðisákvörðun hafa manna síst efni á að tala um lýðræði, svo freklega sem þeir fótum tróðu það vorið 2009!

Það er ljóst að þetta "afl" eins og Guðmundur kýs að kalla það, ætlar að róa á þau mið sem best ganga í kjósendur. Vandi þeirra er þó að þessi mál eru tekin fyrir í öllum flokkum nú þegar. Að vísu er eitt af þeim málum sem Guðmundur telur upp bundið við einn flokk, ESB aðild og annað atriði, "afl", er eitthvað sem erfitt er að festa hönd á, en önnur atriði eru keimlík eða eins í öllum flokkum Alþingis. 

Stjórnmálaflokkur eða stjórnmálaafl er í raun tvö orð á sama hlutnum. Besti flokkurinn byrjaði sem afl í Reykjavík en er nú orðinn flokkur. Borgarahreyfingin byrjaði sem afl fyrir síðustu Alþingiskosningar en endaði sem flokkur og þingmenn þessa afls gengu úr flokknum og stofnuðu nýtt afl, sem nú er flokkur. Þetta er orðaleikur, en hann gengur vissulega í augu fólks.

Það er þó fjarri lagi að hægt sé að taka þetta framboð sem einhverskonar grín. Hugsanlega horfir Gnarrinn á það þeim augum, en Guðmundi er full alvara.

Því verða fjórflokkarnir að taka þetta "afl" alvarlega, þeir verða að taka til hjá sér. Sumir hafa gert nokkuð vel í þeim efnum, en betur má ef duga skal. Geri þeir ekkert, gæti allt eins farið í næstu Alþingiskosningum eins og í síðustu borgarstjórnarkosningum, að "afl" dulbúið sem grín, nái yfirhöndinni. Þá er ESB aðild ráðin.

Ísland má síst við því nú í dag.

 


mbl.is Áhugi víða fyrir nýju framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband