"Sagnfræðingurinn" Már Guðmundsson
30.8.2011 | 20:58
Það voru undarleg viðtölin við Má Guðmundsson í fréttum í kvöld. Annars vegar um sölu á Sjóvá og hins vegar um verðtryggingu lána. Einna líkast var að verið væri að ræða við sagnfræðing sem væri að hanna söguna, svona til að fá rétta niðurstöðu. Þessi aðferð er þekkt, sérstaklega á fyrri tímum þegar sigurverarar í stríðum létu sína sagnfræðinga hanna rétta sögu fyrir framtíðina.
Varðandi sölu á Sjóvá þá er ljóst að ríkið tapaði milljörðum á verkum Más í því sambandi. Um það verður ekki deilt, jafnvel þó Már telji að mun "betri" niðurstaða hafi fengist.
Um verðtryggð lán og svar Seðlabankans um þau, þá svarar bankinn ekki spurningunni; hvaða lagastoð bankinn styðjist við. Már telur hins vegar að bankinn fari að lögum. Þó seðlabankastjóri telji að lögum sé framfylgt þá dugir sú skoðun ekki ein og sér, hann verður að geta bent á þau lög. Það gerir hann hins vegar ekki.
Um fullyrðingu Más og þá væntanlega hagfræðinga SÍ, að sama hvor aðferðin sé notuð, alltaf komi sama niðurstaða, þá er alvarlegt ef þetta fólk telur virkilega að svo sé. Ekki þarf mikla kunnáttu í lestri og reikningi til að sjá að þetta er rangt. Því hlýtur ástæða Más að vera að slá ryki í augu almennings.
Spurningin er um hvort heimilt sé að verðtryggja höfuðstól eða einungis afborgun hans. Það sjá allir að þarna á milli er mikill munur.
Deilt er um reikniaðferð, hvort reikna skal verðbætur fyrir eða eftir útreikning vaxta. Þar er einnig mikil munur.
Deilt er um hvort verðbætur skulu greiddar jafn óðum eða leggjast við höfuðstól. Það þarf ekki snilling til að átta sig á að ef verðbætur leggjast við höfuðstól verða verðbæturnar verðbættar mánuð seinna og síðan þær verðbættu verðbætur verðbættar í næsta mánuði þar á eftir og svo koll af kolli. Þetta kallast sjálfvirkt okur.
Og loks er deilt um hvort Seðlabankinn fari að lögum. Svar við þeirri spurningu hefur ekki komið fram enn.
Reyndar ætti umræðan ekki að snúast um hvort verðtryggð lán séu lögleg eða ekki, allir sjá hversu röng þau eru. Öll áhætta er færð á herðar lántakenda en lánveitandi er tryggður í bak og fyrir og jafnvel þó bankanum takist að fara á hausinn þrátt fyrir að bera enga ábyrgð útlánum sínum, þá þurfa þeir ekki að óttast, þeim er þá bjargað með peningum skattgreiðenda. Umræðan ætti að snúast um það hveru hratt sé hægt að afnema þetta rugl.
Verðtrygging lána ætti einfaldlega að vera bönnuð. Ef hins vegar menn telja nauðsyn verðtrygginga á sú verðtrygging að taka mið af verðþróun þess sem lánað er til. T.d. ef veitt er 25 ára lán til húsnæðiskaupa er tekið upphafsverð húsnæðisins og það tengt fasteignamati þess húsnæðis. Síðan væri reiknað út greiðsla þannig að lántakandi greiði sem nemi þeirri upphæð að eftirstöðvar eftir hvert ár hafi lækkað um einn tuttugasta og fimmta í árs lok. Þá ætti viðkomandi helming eignarinnar eftir tólf og hálft ár.
En megin málið hlýtur þó að vera að ábyrgð fjármála sé á höndum beggja aðila, lántakanda og lánveitanda. Eins og staðan er hér á landi þá getur dæmið aldrei gengið upp til langframa. Meðan lánveitendur þurfa ekki að bera neina ábyrgð gerða sinna mun þjóðin reglulega verða fyrir fjárhagslegum skakkaföllum.
Fjármálaumhverfið hér á Íslandi er einstakt og þekkist hvergi meðal þjóða heims neitt í líkingu við það. Þó er það svo að svona fjármálaumhverfi er vel þekkt, en það er eingöngu stundað meðal mafíuósa og glæpasamtaka.
Sumir kenna smæð landsins um þetta en nær er að kenna um hugsanahætti stjórnmálamanna og fjármálaelítunnar. Hugur margra íslenskra stjórnmálamanna, allra fjármálamanna og margra hagfræðinga liggur mun nær hugsunum og stjórnkænsku mafíuósa en leiðtoga og stjórnenda þjóða. Núverandi stjórnvöld hafa þó slegið öll fyrri met á þessu sviði og hefur Már í Svörtuloftum ekki látið sitt eftir liggja.
Telur lagastoð fyrir útreikningi verðbóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Það kom dáldið uppá"!
Þetta er það sem Jóhanna segir.
Þetta er það sem Már segir.
Þetta er það sem Seingrímur segir.
"En hvað kom uppá"? spyr fólk.
"Eeeeh... sossum ekki neitt.... allavega ekkert sem ég má segja frá"!
Óskar Guðmundsson, 30.8.2011 kl. 21:49
Þetta er langur og lélegur pistill hjá þér Gunnar og lítið varið í hann.
Þú segir:
"Reyndar ætti umræðan ekki að snúast um hvort verðtryggð lán séu lögleg eða ekki, allir sjá hversu röng þau eru. Öll áhætta er færð á herðar lántakenda en lánveitandi er tryggður í bak og fyrir og jafnvel þó bankanum takist að fara á hausinn þrátt fyrir að bera enga ábyrgð útlánum sínum, þá þurfa þeir ekki að óttast, þeim er þá bjargað með peningum skattgreiðenda. Umræðan ætti að snúast um það hveru hratt sé hægt að afnema þetta rugl."
Ég sé ekki hversu röng verðtryggðu lánin eru. Þau hafa reynst mér vel og reyndar svo vel að ég væri að öllum líkindum búinn að missa mitt húsnæði ef ég hefði verið með óvertryggt lán á breytilegum vöxtum.
Áhætta lánveitandans er alltaf fyrir hendi, sama hvort lánið er verð eða óverðtryggt. Áhættan felst í því hvort hann fær lánið endurgreitt eða ekki. Með verðtrygingunni er lánveitandinn bara tryggður fyrir því að fá sömu verðmæti til baka og hann lánaði + vexti, ef hann fær greitt á annað borð.
Það gleður mig hinsvegar að heyra, ef það er þá ekki bara sama bullið og hitt, að bönkunum verði bjargað. Ég átti nefninlega allt mitt sparifé í hlutabréfum í bönkunum og hélt að það væri að eilífu glatað. Svo kemur þú eins og ljós í myrkri og segir ég þurfi engar áhyggjur að hafa því bönkunum verði bjargað.
Þú heldur áfram með þetta og segir:
"Verðtrygging lána ætti einfaldlega að vera bönnuð. Ef hins vegar menn telja nauðsyn verðtrygginga á sú verðtrygging að taka mið af verðþróun þess sem lánað er til. T.d. ef veitt er 25 ára lán til húsnæðiskaupa er tekið upphafsverð húsnæðisins og það tengt fasteignamati þess húsnæðis. Síðan væri reiknað út greiðsla þannig að lántakandi greiði sem nemi þeirri upphæð að eftirstöðvar eftir hvert ár hafi lækkað um einn tuttugasta og fimmta í árs lok. Þá ætti viðkomandi helming eignarinnar eftir tólf og hálft ár."
Þetta er nú það alvitlausasta sem ég hef séð í allri gagnrýninni á verðtrygginguna og hafa menn þó komið með ýmislegt skrautlegt. Þú bara hlýtur að sjá það sjálfur.
Ef ég geri endurbætur á húsinum mínu, set upp sólpall og byggi garðhús eða loka svölunum með þessum fínu gluggum sem til eru í dag, nú eða endurnýja eldhúsið og opna út í stofuna þá hvað? Jú ég þarf náttúrulega að borga þetta allt og það kostar helling. En þér finst það ekki nóg. Þú vilt að ég borgi það tvisvar því lánið sem ég tók upphaflega á samkvæmt þínum tillögum að vera tengt fasteignamati sem auðvitað hækkar við svona endurbætur.
Á sama hátt gæti ég fengið lánið lækkað með því að sinna engu viðhaldi og láta húsið drabbast niður.
Ef ég vil eignast helminginn í húsinu mínu miðað við 100% lán er það engin vandi ef ef greiðslugetan réði við það. Þá tæki maður í fyrsta lagi ekki 40 ára lán eins og flest allir gerðu heldur 25 ára lán. Þú tækir jafnafborgunarlán en ekki jafngreiðslulán eins og nær allir gera og ekki að ástæðulausu þó að þú greiðir mun hærri krónutölu í vexti á lánstímanum fyrir vikið.
Svona lán eru í boði i dag en það þarf bara mjög mikla greiðslugetu til að geta tekið svona lán. Álíka mikla og til að taka lánið þitt.
Síðan segir þú:
"En megin málið hlýtur þó að vera að ábyrgð fjármála sé á höndum beggja aðila, lántakanda og lánveitanda. Eins og staðan er hér á landi þá getur dæmið aldrei gengið upp til langframa. Meðan lánveitendur þurfa ekki að bera neina ábyrgð gerða sinna mun þjóðin reglulega verða fyrir fjárhagslegum skakkaföllum."
Ábyrgðin er bæði hjá lántakanda og lánveitanda. Það er svo augljóst að það þarf ekki að segja það. Að halda því fram að lánveitandi þurfi ekki að bera neina ábyrgð er svo út úr korti að ég bara skil ekki hvað þú ert að fara. Hann hlýtur náttúrulega að bera ábyrgð á því hverjum hann lánar og tala afleiðingunum ef viðkomandi reynist ekki borgunarmaður.
Um mafíosana nenni ég ekki að skrifa neitt. Sé ekki að það þjóni neinum tilgangi. Þú mátt bara eiga þær hugmyndir sjálfur. :)
Landfari, 30.8.2011 kl. 22:35
Góður pistill og rökrétt niðurstaða á 25 ára láni.
Sigurður Antonsson, 30.8.2011 kl. 22:44
#2 Landfari.
Þú segir að þetta sé langur og leiðnlegur pistill, það er auðvitað mat hvers og eins. Ég er þó ánægður að þú skyldir lesa hann.
Það var þó eitt sem ég hjó eftir í athugasemd þinni, sem lýsir vel hversu takmarkað vit þú hefur á málefninu.
Þú segir að fasteignamat hækki eða lækki eftir því hvernig þú umgengst hús þitt og geti þannig haft áhrif á lán sem væri bundið því. Þú ættir að kynna þér hvernig fasteignamat er gert og hvað liggur til grundvallar þess. Þar kemur engu við hvort þú heldur þínu húsi við eða ekki.
Ég spyr þig á móti hvort það sé réttlátt að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, hækkun eldsneytis á erlendum mörkuðum sem koma tvöfaldar hér inn, hækkun matarverðs og raunar fjðldi annara atriða sem þú getur engu um breitt, eigi að hafa áhrif á fasteignalán þitt?
Er það réttlátt að útsölur í fatabúðum stjórni afborgun lánsins?
Gunnar Heiðarsson, 31.8.2011 kl. 06:30
Tek undir hvert orð með þér Gunnar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru lánveitendur með belti, axlarbönd og reiðhjólateygjur og jafnvel þeim í hag að halda verðbólgunni uppi. Lögleg okurlán. Ég spyr hversvegna mínar krónur í mínu húsi séu minna virði en krónur lánveitandans. Það stenst ekki sjálfbærni hagkerfis og sýnir fram á að það er halli á verðmætavoginni.Auðvitað væri eðlilegt að lánveitandi og lántakendur deildu hagsveiflunum vegna utanaðkomandi áhrifa.Lánveitandinn hlýtur að þurfa að taka einhverja áhættu og þ.a.l. hugsa sig betur um áður en hann lánar. Ef hann lánar ákveðið hlutfall í fasteign ættu hans krónur í henni ekki að vaxa meira en krónur þess sem á hinn hlutann.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 31.8.2011 kl. 08:45
Takk fyrir góðan pistil Gunnar! Já verðtryggingin hefur alltaf verið lögvemdaður þjófnaður eins og henni hefur verið stjórnað. Sorglegt finnst mér þó að aðal verndarar verðtryggingar skuli vera verkalýðshreifingin og lífeyrissjóðir.
Sandy, 31.8.2011 kl. 09:22
Gunnar minn, bara smá hérna af því þu virðist ekki vita hvað fasteignamatið gengur útá vil ég benda þér á að lesa má úm það ´hjá Þjóðskrá. Þar stendur meðal annars:
Hvað er fasteignamat?
Fasteignamat er gangverð, umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði haft í kaupum og sölum í febrúarmánuði, miðað við heimila og mögulega nýtingu fasteignarinnar á hverjum tíma. Nýtt febrúarverðlag er ákvarðað í maí mánuði ár hvert. Mat samkvæmt hinu nýja verðlagi tekur gildi í árslok. Fasteignamat eignar tekur bæði til húss og lóðar og er fasteignamati skipt í húsmat og lóðarmat.
Auðvitað gana menn ekki í hvert hús á hverju ári og skoða eignir an allar þær breytingar sem ég nefndi eru leyfisskildar og þurfa samþykki viðkomandi bæjarfélags. Þar með eru það orðin opinber gögn sem aðgengileg öllum þeim stofnunum sem gætu þurft á þessum upplýsingum að halda. Það hefur verið stefna Fasteignamatsins að reyna eftir fremsta megni að fasteignamatið endurspegli raunverð húsnæðis og hafa þess vegna farið út í að breyta því misjafnlega eftri hverfum borgarinnar og taka við það mið af sölusamningum.
Síðan er sá möguleiki fyrir hendi að þú þrfir að fá lán til að fjármagna breytingarnar og sumir bankar miða við % fasteignamati þegar ákvarða hámark þeirra veða sem þeir setja á hús. Þess vegna gera margir það að kalla til matsmann frá Fasteignamatiinu til að endurmeta húsið og þá koma svona edurbætur eins og nefndar voru sterkar inn.
Í öllu falli er fráleitt að fara að tengja lánin við fateignamat. Það er til vísitala hjá Hagstoruni sem heitir vísitla húsnæðiskostnaðar sme væru miklu einfaldara og skynsamlegra að nota. Reyndar er hún verulegur þáttur í neysluverðsvísitölunni sem nú er notuð.
Það var mikið rætt um að taka húsnæðisþáttinn út út vísitölunni þegar húsnæðið hækkaði upp úr öllu valdi hér um árið til að halda vísitölunninni niðri. Það hefði nu verið yndislegt þá að hafa lánin beintengd við húsnæiðsverðið eða fasteignamatið þegar það hækkaði um tugi prósenta á einu bretti án þess að launin hreyfðust nokkuð eða hitt þó heldur.
Adda segir að lánveitandinn hljóti að þurfa að taka einhverja áhættu. Auðvitað tekur hann áhættu með því að lána. Allt þetta tal um belti og axlabond snúst um miklu frekar um þær tryggingar sem hann hefur fyrir að fá lánið endurgreitt. Það á miklu betur við þegar hann er komin aukaveð fyrir láninu eða uppáskrift frá foreldrum eða ættingjum frekar en hvort lánið sé verðtryggt. Verðtryggingin er eingöngu til að ekki fari fram "lögverndaður þjófnaður" lánþega á lanveitanda einsog var hérna áður en verðtryggingin kom.
Sandy, Verðtryggingin er einmitt til aðkoma í veg fyrir "lögverndaðan þjófnað" Ekki veit ég hvað þú er gömul og hvað það er langt þangað til þú ferð á eftrilaun en þegar að því kemur áttu eftir að þakka þeim sem stóðu vörð um lífeyrissjóðinn þinn.
Landfari, 31.8.2011 kl. 11:24
Landfari vertu ekki svona mikil gufa, fasteignamat tekur ekkert tillit til ástand húseigna nema matsmenn séu sérstaklega kallaðir til að endurmeta.
Tvö hús í sömu götu á eins lóð hafa sama fasteignamat þó að það sé búið að skipta um þak, glugga, gólfefni, skólp, hurðir og innréttingar í öðru en ekki hinu svo lengi sem ekki er búið að fá mann til að endurmeta það. Það þarf ekki að tilkynna viðhald til byggingafulltrúa. Í grunninn þá er þetta sameinað lóðarmat og fermetraverð reiknað útfrá gefnum tölum frá Hagstofuni.
tebbi (IP-tala skráð) 31.8.2011 kl. 12:40
#7 Landfari
Fasteignamat er reiknað út í hverju sveitarfélagi fyrir sig og stuðst við sölusamninga síðasta árs, eða síðustu ára ef engin sala hefur farið fram í því sveitarfélagi síðastliðið ár. Hægt er að fara fram á endurmat fasteigna og þarf þá eigandi fasteignar að óska eftir slíku mati og greiða fyrir það.
Staðreyndi er sú að slíkt endurmat skilar sjaldnast neinum verulegum árangri. Til þess þarf að breyta húsnæði verulage og helst að stækka það. Eðlilegt viðhald telst ekki forsemda hækkunar fasteignamats. Veit ekki nein dæmi þess kostnaður slíkra framkvæmdir hafi skilað sér í endugerðu fasteignamati.
Þá er ljóst að varla fer nokkur maður að kalla eftir lækkun á mati eignar sinnar, vegna þess að hann hefur vanrækt að halda henni við enda vamdséð að hægt sé að fá slíka lækkun.
Ég get nefnt dæmi um endurmat á fasteignamati:
Maður byggði sér einbýlishús. Kostnaðurinn var þá um tólf miljónir króna. Hann var ekkert að spá sérstaklega í fasteignamati hússins fyrr en tíu árum seinna, þegar hann ætlaði að selja það. Þar sem maðurinn bjó í sveitarfélagi sem að mestu var byggt bújörðum, hafði lítill sem enginn gagnagrunnur myndast á verði einbýlishúsa í sveitarfélaginu og hús hans metið í fasteignaskrá á tæpar þrjár miljónir króna.
Maðurinn óskaði endurmats, enda gat hann lagt fram gögn um að kostnaður við bygginguna, tíu árum áður, hafi verið tólf miljónir króna.
Á staðinn mætti fulltrú frá fasteignamati og skoðaði húsið í krók og kima og sagðist senda nýtt fasteignamat fljótt. Nokkrum vikum seinna kom svo hið nýja mat, einbýlishúsið var nú metið á þrjár miljónir og tvöhundruð þúsund krónur, hækkaði um rétt rúmar tvöhundruð þúsund.
Ýtaleg greinagerð fylgdi með þessu nýja mati þar sem tiltekin var ein sala í sveitarfélaginu á þessum tíu árum. Þar hafði verið seld jörð með nýlegu einbýlishúsi og í þeirri sölu var einbýlishúsið metið jafn háu fermetraverð því húsi sem var í endurmati og því ekki ástæða til að breyta endurmatinu. Skýring þess að verð einbýlishússins á þeirri jörð hafi verið metið á því verði í sölunni er einföld, verðið í sölusamningnum ákvarðaðist af fasteignamatinu!
Í ljósi þess að gögn lægju fyrir um kostnað á byggingu þess húss sem var í endurmati væri þó ákveðið að hækka mat þess. Það var sem sagt gefið í skyn að hækkun á fasteigna matinu væri svona einskonar góðgerð.
Þetta dæmi stendur mér nokkuð nærri þar sem ég byggði þetta einbýlishús og stóð í samskiptum fasteignamatið um það.
Gunnar Heiðarsson, 31.8.2011 kl. 13:56
tebbi, ég bjó í blokk þar sem voru 10 íbúðir af þremur stærðum og gerðum.
4 stærstu, allar eins og engin með sama mat.
3 af miðstærð og 2 með sama mat.
3 af minnstu gerð og 2 með sama mat.
Hér er ég að tala um íbúiðr í sama stigagangi, sama húsi, sömu skolplögn, sama sameign, sama þak og sama lóð.
Það er rétt hjá þér að viðhald þarf ekki að tilkynna til byggingarfulltrúa. Ég var ekkert að tala um viðhald eins og augljóst er í færslunni.
Framkvæmd fasteignamats undanfarna áratugi segir ekkert um hvernig það verður næstu áratugina. Það er stöðugt að verða auðveldar að keyra saman upplýsingar til að fá sem réttasta niðurstöðu. Sjáðu bara hvað skattframtalið er orði einfalt á netinu miðað við hvernig þetta var fyrir 10 árum.
Gunnar, það er mjög eðlilegt að það sé erfitt að meta svona eign eins og þú talar um. Það væri mjög gagnlegt að framvísa svona pappírum um byggingarkostnað ef þú værir að fást við brunabótamatið. En þeir koma málinu næsta lítið við þegar verið er að tala um fasteignamatið. Þar skiptir það eitt máli hvað einhver er tilbúinn til að borga fyrir húsið. Það er mjög algengt uti á landi, sérstaklega á smærri stöðum að brunabótamatið er mun hærra en fasteignamatið og getur þess vegna verið 100 - 200% hærra og jafnvel enn hærra.
Af hverju er það ljóst að varla nokkur maður færi að kalla eftir lægra mati á eignina sína ef hann telur það vera of hátt? Það væri bara hreinasta rugl að gera það ekki. Að ég tali nú ekki um ef það lækkar skuldirnar líka ef þínar tillögur næðu fram. Menn hafa allt að vinna og engu að tapa að fasteignamatið sé ekki of hátt á sínum húsum. Sérstaklega núna í 110% reglunni en ekki síður bara almennt því það eina sem þú græðir á of háu fasteignamati eru hærri fasteignagjöld.
Landfari, 31.8.2011 kl. 17:23
#10 Landfari
Þú segir að eðlilegt sé að meta slíka eign sem ég tek sem dæmi. Það virðist vissulega vera það.
Að verð endurspegli markaðinn er að hluta til rétt en þó er sú endurspeglun líkari trendlínu í grafi, hækkar og lækkar seint.
Ég seldi húsið mitt á u.þ.b. þreföldu fasteignaverði og vissulega leiddi sú sala til einhverrar hækkunar á öðrum fasteignum í sveitarfélaginu, en það var samt ekki neitt nálægt raunveruleikanum.
Um að það sé heimska að óska eftir hærra mati, þá ættir þú að reyna að fá lán út á ibúðarhúsnæði út á landi. Þar kemur markaðsverð eða upphæð kaupsamnings bankanum lítið við. Hann horfir á fasteignamatið og veytir lán samkvæmt því. Þess vegna var reynt að fá fasteignamatið á húsinu hækkað, þar sem kaupandi átti einungis að fá 80% lán af fastegnamati.
Um það að einhver óski eftir lækkun fasteignamats vegna lélegs viðhalds er vart um að ræða, jafnvel þó viðkomandi muni hagnast á því. Þar kemur til að viðhald eða viðhaldsleysi er ekki talinn grundvöllur breytinga á fasteignamati. Til að fá breytingu verður að sýna fram á að hús hafi verið stækkað eða því breytt verulega.
Gunnar Heiðarsson, 31.8.2011 kl. 17:52
Að lokum vil ég segja við Landfara að ég legg ekki í vana minn að svara þeim sem ekki koma fram undir fullu nafni. Ég gerði þó undartekningu nú þar sem það málefni sem hann tók út úr bloggi mínu til gagnrýni, er mér nokkuð skylt og einnig vegna þess að Landfari hefur ekki verið með neitt skítkast eða leiðindi. Hann hefur flutt sitt mál og rökstutt eftir sinni vitund.
Ég legg eindregið til að þú Lanfari felir þig ekki bak við leyniorð, heldur komir fram undir nafni.
Eftir sem áður er það meginregla hjá mér að svara ekki athugasemdum nema þær séu settar fram undir nafni.
Gunnar Heiðarsson, 31.8.2011 kl. 17:58
Ég sagði Gunnar "það er mjög eðlilegt að það sé erfitt að meta svona eign eins og þú talar um."
Þú átt væntanlega við að þú hafir selt á fasteignina þína á þreföldu fasteignamatsverði þannig að fasteignaverðið hafi verið þrefalt fasteignamatsverðið. Sem segir okkur hversu mjög eritt getur verið að meta svona hús þar sem lítill sem enginn markaður er til að styðjast við.
Hver var að tala um "að það sé heimska að óska eftir hærra mati," Ekki ég því sums staðar er einmitt miðað við matsverð við lánafyrirgreiðslu. Ég sagði að það væri rugl að óska ekki eftir lægra mati ef maður teldi matið of hátt.
Ég veit af eigin reynslu að það er hægt að fá leiðréttingu á fasteigamati ef fasteignamatið endurspeglar ekki sannvirði húsnæðisins. Fasteignamatið er að gera átak í að matið sé sem réttast eins og ég hef áður bent á.
Þú færð hinsvegar að sjálfsögðu enga hækkun á fasteignamati vegna viðhalds ef matið hefur ekki áður verið lækkað vegan viðhaldsleysis.
Varðandi síðustu athugasemdina þína þá er það nú ekki flókið að sjá mitt nafn, nafni. Það stendur með stóru letri á minni síðu.
Mér finnst hinsvegar skipta meira máli hvað sagt er en hver segir það og fer þar í sporin hans Jóns Hraks sem
Hugði sannleik ei hóti betri
hafðan eftir Sankti Pétri,
heldur en sú hending tækist
að húsgangurinn á hann rækist.
Landfari, 31.8.2011 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.